Hinn átta ára gamli Jónas átti yndislegan dag í þarsíðustu viku þegar hópur bifhjólamanna bankaði upp á heima hjá honum og bauð honum á rúntinn. Jónas er fórnarlamb eineltis og steig móðir hans fram í viðtali við Stundina í júlí á þessu ári og sagði sögu hans. Jónas lauk öðrum bekk í sumar en móðir hans, Steinunn Anna Sigurðardóttir, líkti skólagöngu sonar síns við eina langa martröð. Var Jónas greindur með málskilningsröskun og framburðarfrávik, sem gerir honum erfitt að tjá sig, og hafði það verið skotspónn barna og unglinga í grunnskóla Jónasar í Reykjanesbæ.
Saga Jónasar snerti taugar hjá nokkrum bifhjólamönnum sem vildu sýna drengnum kærleik og samstöðu. Höfðu þeir samband við móður Jónasar og komu litla drengnum á óvart.
„Ég er nánast enn með tárin í augunum. Allt þetta fallega fólk sem kom og sagði syni mínum að hann ætti sko fullt af vinum sem væri alls ekki sama um hann. Algjörlega óumbeðið. Þetta kallast að sýna kærleikann í verki og ég er þeim öllum afar þakklát,“ segir Steinunn Anna um heimsóknina óvæntu.
Athugasemdir