Undanfarin þrjú ár hefur Frakkinn Philippe Clause búið á Seyðisfirði þar sem hann rekur hönnunarverslunina Esualc. Í gær birti hann opið bréf á Facebook-síðu sinni til Seyðfirðinga þar sem hann segir frá fordómum sem hann segist hafa orðið fyrir af hluta íbúa.
„Kæru Seyðfirðingar. Síðastliðin fimm ár hef ég verið fórnarlamb fjölmargra fáránlegra ásakana og árása gegn mér, bæði líkamlegra og siðferðislega. Undanfarin ár hef ég verið kýldur tvisvar, það hefur verið dylgjað um að ég hafi haft uppi framferð sem leiddi til sjálfsmorðs manns, ég hef verið sagður hafa misbeitt mér gagnvart hundinum mínum, ég hef fengið yfir mig fúkyrði fyrir að vera sá sem ég er, ég hef verið tilkynntur til lögreglu vegna fíkniefnaneyslu og sölu.
Í gærkvöldi var lögreglan enn einu sinni send til mín í kjölfar símtals sem átti að tengjast ólöglegu athæfi mínu. Engin þessa gjörða, sem eru beinlínis ætlaðar til að skaða mig, hefur eða mun hafa áhrif á heilindi mín. Síðastu ár hef ég þrotalaust reynt að koma til skila jákvæðri ímynd til þeirra þúsunda ferðamanna sem sækja Seyðisfjörð heim, deilt og sýnt kærleikann og umhyggjuna sem ég hef fengið fram flestum ykkar. Ég er með þykkan skráp. Hins vegar er hjarta mitt brotið í dag,“ skrifar Philippe. Ekki náðist í lögregluna á Austurlandi við vinnslu fréttar þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.
Hefur búið á Íslandi í níu ár
Í samtali við Stundina vildi Philippe engu bæta við bréf sitt utan þess að almennt væru Seyðfirðingar frábært fólk. „Ég hef engu við bréfið að bæta. Ég vona að það hafi verið nógu ljóst. Ég er með dásamlegt fólk í kringum mig og Seyðfirðingar eru æðislegir,“ segir Philippe.
Í viðtali við Iceland Magazine í fyrra sagði Philippe söguna af því hvernig það kom til að hann fluttist til Íslands árið 2006, en hann bjó í Reykjavík til ársins 2012. „Vinkona mín sem ég var með í skóla í París fór til Íslands í þrjá mánuði og kom til baka algjörlega umbreytt bæði líkamlega og andlega. Hún kom til baka rjóð í kinnum og var hamingjusöm. Ég var ekki á góðum stað í lífinu á þeim tímapunkti og þegar ég sá hve glöð og heilbrigð hún var ákvað ég að fylgja í spor hennar,“ sagði Philippe. Síðan þá hefur Philippe búið á Íslandi. Viðtalið má lesa í heild hér.
Athugasemdir