Íslenskur almenningur þarf að búa við breyttan veruleika, þar sem vopnaðir sérsveitarmenn verða sýnilegir á útihátíðum, en það er engin stefnubreyting, að sögn Haraldar Johannessen ríkislögreglustjóra.
Vopnuð sérsveit verður á meðal mannfjöldans í hátíðarhöldunum á þjóðhátíðardaginn 17. júní, og svo á tónlistarhátíðinni Secret Solstice, auk þess sem nú er verið að skoða hvort sérsveitin mæti á þjóðhátíð í Vestmannaeyjum.
Þótt vopnuð lögregla hafi ekki verið sýnileg á mannamótum á Íslandi fram að þessu, segir ríkislögreglustsjóri í samtali við Rúv að það sé „engin stefnubreyting“. „Já. Við þurfum að átta okkur á því að sérsveitarmenn eru vopnaðir. Og þeir eru orðnir mjög sýnilegir í íslensku samfélagi. Þannig að almenningur er farinn að sjá vopnaða lögreglumenn mjög mikið hér á höfuðborgarsvæðinu. Þannig að það er engin nýlunda, það er engin stefnubreyting hvað það varðar. En almenningur á von á að sjá vopnaða sérsveitarmenn á þessum stóru útihátíðum,“ segir Haraldur.
Að sögn Haraldar er ekki verið að auka vopnaburð. „Við erum ekki að auka vopnaburð. Það sem við erum að gera er að við erum að gera hina vopnuðu lögreglu í landinu, sérsveit ríkislögreglustjóra, sem dagsdaglega er undir vopnum, meira sýnilega á stórum samkomum. Samkomum þar sem tugir þúsunda koma saman á einhverri útihátíðinni.“
Haraldur segir að hver sekúnda skipti máli. Það sem hann óttast eru hryðjuverkaárásir íslamista, sambærilegar þeim sem urðu nýverið í London og Manchester.
Nýtt þjóðaröryggisráð, sem stýrt er af Bjarna Benediktssyni forsætisráðherra, fundaði á „öruggum stað“ á Keflavíkurflugvelli í gær. Þar var rætt um aukinn viðbúnað og vopnaburð lögreglu.
Athugasemdir