Sautjánda júní síðastliðinn var ég viðstaddur garðveislu sendiherrans í Berlín ásamt fríðu föruneyti; enda búa um sex hundruð Íslendingar í höfuðborg Þjóðverja og að sögn Martins sendiherra voru tveir þriðju þeirra mættir í þetta fína boð í grænni lautu við árbakka fyrir neðan eitt dýrasta einbýlishús sem Ísland hefur alið. Hressir og skemmtilegir Íslendingar á öllum aldri tróðu stormsveitarpylsum og bjór framan í sig og kórinn þótti hljóma óvenju vel þetta árið, enda mjög mikið af hæfileikaríku íslensku tónlistarfólki starfandi í Þýskalandi. Sex ára sonur minn bað sjötuga konu um símanúmer og gladdi hana svo mikið við það að sagan gekk eins og eldur í sinu meðal viðstaddra. Um þrjú leytið dró hins vegar skyndilega ský fyrir sólu þegar fólskuleg árás var gerð á samkvæmið.
Ég sá reyndar ekki þegar hvíti svanurinn skreið fyrst upp á bakkann – öllu jafna sjást bara naktir, gamlir karlar fljóta ofan á ánni og líkjast þeir fiturákum ofan á kjötsúpu. Austan við sendiherrabústaðinn er nefnilega opinber strípalingaströnd. En svanurinn var sumsé kominn upp á bakkann og gerði sér nú lítið fyrir og beit ungan íslenskan pilt í höndina. Að því loknu vafraði illfyglið sem leið lá upp túnið og nartaði í handlegg íslenskrar konu, sú árás náðist á myndband sem fylgir netútgáfu þessa pistils. Við þetta varð nokkurt uppnám á staðnum og haft var á orði að nú hefði verið ágætt að hafa íslensku sérsveitina tiltæka í stað þýsku lögregluþjónanna tveggja sem voru hinum megin við húsið og vöktuðu þar sendiherrabústaðinn eins og lög gera ráð fyrir. Það var varla að vopnin sæjust almennilega utan á berlínskum bjórvömbum og engu líkara en þeir einkennisklæddu væru dauðfegnir að fá að hanga yfir smáþjóð sem öllum heiminum væri sama um, hélt kannski að hún væri mikilvæg á góðum degi en ef skerið sykki þá tæki varla nokkur maður eftir því – og alls ekki ef Reykjanesskagi yrði eftir ofansjávar, þá væri pissupásunni á leiðinni vestur yfir haf borgið.
„Að því loknu vafraði illfyglið sem leið lá upp túnið og nartaði í handlegg íslenskrar konu“
Þýsku löggurnar gátu haft það notalegt í grænu úthverfi meðan kollegar þeirra þurftu að eltast við mótmælagöngu nýnasista í miðborg Berlínar. Nýnasistarnir höfðu valið að ganga á þjóðhátíðardegi Íslendinga sem olli því að krakkarnir okkar voru í einhverjum tilfellum litnir hornauga í lestinni, enda auðvelt að rugla íslensku pappírsflöggunum saman við norsk flögg sem nasistaskríllinn skreytir sig stundum með.
Og þýsku löggurnar hafa sjálfsagt líka verið dauðfegnar að þurfa ekki að hætta lífi og limum í Spezialeinsatzkommando. Þýska sérsveitin er kölluð út í Berlín um fimm hundruð sinnum á ári, enda enginn skortur á glæpum á svæði þar sem búa næstum fjórar milljónir. Vasaþjófar, terroristar, nauðgarar, morðingjar, dópsalar, vændisþrælahaldarar, bankaræningjar og alls kyns svindlarar á hverju strái. Þegar þetta er ritað þá eru ekki liðnir nema nokkrir sólarhringar síðan tveir albanskir svindlarar reyndu að ræna af mér ísskáp dulbúnir sem þýskar skólastelpur. Hvar var sérsveitin mín þá?
Og þegar ég hugsa út í það, hvernig getur verið að sérsveitin í Reykjavík er kölluð miklu oftar út en sú þýska, samkvæmt nýlegri umfjöllun á Vísi.is? Í Reykjavík starfa ekki nema örfáir glæpamenn og helmingurinn af þeim er í ríkisstjórn landsins. Hvað eru þá vinir mínir með Glock-byssurnar að gera öllu jafna? Nýjustu fréttir herma reyndar að þeir séu niðri í bæ að slást við fulla karla – sem beinir okkur aftur að upphafi þessa pistils.
Það eftirminnilegasta við árás illfyglisins voru nefnilega viðbrögð landa minna. Fólkið hélt stillingu sinni, það var hlegið aðeins, aðrir þóttust ekki sjá fuglinn á grasinu og forðuðu sér ekki fyrr en hann var kominn alveg að þeim. Konan sem svanurinn nartaði í spurði til að mynda hvort svanir væru almennt „agressívir“ í hálfgerðum hæðnistón, hún ætlaði sko alls ekki að gefa sig fyrr en í fulla hnefana.
Svanurinn ógurlegi minnti svolítið á fulla karlinn í fermingarboðum æsku minnar (Þessi sem AA-fræði samtímans eru búin að dæma endanlega úr leik). Það var svo fallegt að horfa upp á þetta og mér varð hugsað til þess að einmitt svona á að meðhöndla terrorista. Ekki sýna þeim virðingu og ekki gefa þeim eftir sviðið.
Það hafði einmitt glatt mig mjög mikið að lesa um bresku fótbolltabulluna sem bauð terroristum birginn í hnífaárás í Lundúnum. Maðurinn sagði þeim bara að fokka sér, hann væri áhangandi fótboltaliðs og skítsama. Svo slóst hann við þessa aula með berum höndum. Daginn eftir, þegar hann lá stórslasaður á spítala, komu vinirnir færandi hendi með bókina „Lærðu að hlaupa“.
Þetta! hugsaði ég. Þetta er eitthvað svo breskt og kannski svolítið íslenskt líka. Hætta steðjar að og Kapteinn Kolbeinn delerar, hrópar einhverja vitleysu og ræðst til atlögu.
Væri ekki miklu betra að sleppa því að flagga byssum á sautjánda júní og hafa bara nokkra fulla karla á kantinum? Ég er viss um að ef einn slíkur hefði verið í garðveislunni góðu hjá sendiherranum þá hefði sá ekki verið lengi að flæma svaninn út í vatnið aftur.
Stundum sakna ég gamla Íslands. Við hlógum að rasistum og nasistum og ef einhverjum hefði dottið í hug að ganga niður Laugaveginn með skammbyssu fengi sá sami aldrei uppreisn æru, svo mikið væri hlegið og gert grín að viðkomandi sem væri í „Rambóleik“. Auðvitað vorum við oft ömurleg og sveitó og kunnum ekkert í þessu lífi nema vinna þrjár vinnur átta daga vikunnar. En það var einhver hryssingslegur neisti í okkur, einhver gróteskur húmor sem var alltaf sterkari en allt hatrið úti í heimi. Við megum umfram allt ekki missa þennan neista, ekki hætta að hlæja að lífinu!
Athugasemdir