Páll Magnússon, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir afstöðu Katrínar Jakobsdóttur, formanns Vinstri grænna, til viðbúnaðar lögreglu vera „í meira lagi sérkennilega“. „Hún hefur komið fram hjá fleirum úr VG, og reyndar Pírötum líka, og hlýtur eiginlega að vera einhverskonar úr sér gengið og öfugsnúið afsprengi þeirrar hugmyndar kommúnista og anarkista á síðustu öld, að lögreglan sé í eðli sínu óvinur almennings. Hún sé tæki auðvaldsins til að kúga alþýðuna. Þessi tímaskökku sjónarmið komu reyndar fram með sérlega ógeðfelldum hætti hjá sumum forystumönnum Vinstri grænna í Búsáhaldabyltingunni þegar lögreglan freistaði þess að tryggja vinnufrið Alþingis til lýðræðislegra athafna,“ skrifar Páll á Facebook-síðu sína um málið.
Mikið hefur verið rætt um ákvörðun ríkislögreglustjóra um aukinn viðbúnað sérsveitarinnar á stórum mannfögnuðum í sumar sem felur meðal annars í sér að lögreglumenn beri sýnileg vopn. Haraldur Johannessen, ríkislögreglustjóri, segir að ákvörðunin hafi verið tekin í kjölfar nýlegra hryðjuverkaárása í Lundúnum.
Katrín sagði í viðtali við RÚV að hún vildi opna umræðu um hvernig hryðjuverkaógn væri skilgreind og hvaða viðbúnaðar almenningur á Íslandi megi vænta af hálfu lögreglu. Páll segir hins vegar að engum myndi gagnast það gagnsæi betur en hugsanlegum hryðjuverkamönnum. „Leyfum lögreglunni að vinna sín störf í faglegum friði fyrir afdönkuðum sjónarmiðum af þessu tagi,“ skrifar Páll.
Athugasemdir