Guðmundur Ómar Þráinsson, daglegur stjórnandi sérsveitarinnar, segir kvöldverð vopnaðra lögreglumanna á Múlakaffi í gærkvöldi ekki sambærilegan því þegar vopnaður lögreglumaður keypti sér samloku á veitingahúsinu Lemon á síðasta ári, en það atvik var athugað sérstaklega af embætti Ríkislögreglustjóra. „Aðstæður nú eru aðrar en þær voru í fyrra og ekki sambærilegar,“sagði Guðmundur Ómar þegar Stundin spurði hvernig brugðist yrði við vopnaburði lögreglumannanna á Múlakaffi.
Tveir lögreglumenn, vopnaðir skammbyssum, voru meðal matargesta á Múlakaffi í gærkvöldi. Gestum var mörgum brugðið við vopnaburðinn og sagði Guðmundur Sigurðsson, gestur á Múlakaffi, að nærvera vopnuðu lögreglumannanna hefði verið óþægileg og vígbúnaður ætti ekki heima á veitingahúsum. Þetta kemur fram í færslu sem Guðmundur birti á Facebook.
Stundin fjallaði í fyrra um vopnaðan lögreglumann sem keypti sér samloku á veitingastaðnum Lemon á Laugavegi í lok mars í fyrra. „Í tilfelli sem þessu á sérsveitamaðurinn að skilja vopnið eftir í bílnum. Hér var um að ræða vopnaðan sérsveitarmann en eins og menn þekkja er sérsveitin vopnuð dags daglega,“ sagði Guðmundur Ómar, stjórnandi sérsveitarinnar, þegar Stundin leitaði svara vegna atviksins á Lemon. Þá sagði hann engar fastar reglur í gildi um vopnaburð sérsveitarmanna í matartímum.
Þegar Stundin leitaði svara hjá Guðmundi Ómari vegna atviksins á Múlakaffi nú og spurði hvort settar hefðu verið reglur um vopnaburð sérsveitarmanna í matartímum vísaði hann til vopnareglna lögreglu frá 5. febrúar 2015 og benti sérstaklega á ákvæði 31. greinar um vopnaburð.
Í ákvæðinu segir að við lögregluaðgerðir skulu lögreglumenn, sem vopnaðir eru skotvopnum, alla jafna vera einkennisklæddir og bera vopn sýnileg utanklæða, nema verkefnið sé þess eðlis að annað sé nauðsynlegt við úrlausn þess. Ákvæðið tekur hins vegar ekki til vopnaburðar í matartímum – eins og Guðmundur benti sjálfur á í samtali við Stundina fyrir ári síðan.
Mikil umræða varð eftir að sérsveitarmenn Ríkislögreglustjóra gengu um vopnaðir skotvopnum í miðbæ Reykjavíkur á meðan fjölskylduhátíðin Color Run fór fram um síðustu helgi. Í samtali við Stundina fyrr í þessari viku sagði Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri aukinn fjölda erlendra borgara á Íslandi og mannskæðar árásir í Evrópu að undanförnu á meðal þess sem hafi kallað á aukinn vopnaburð lögreglu. Haraldur sagði enn fremur ljóst að sami viðbúnaður yrði fyrir hendi á hátíðarhöldunum vegna 17. júní á morgun og eins á tónlistarhátíðinni Secret Solstice sem fram fer um helgina. Þá sé til skoðunar að sérsveitin annist eftirlit á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum um verslunarmannahelgina.
Athugasemdir