„Við erum enn í áfalli vegna þess sem gerðist, en við munum aldrei gefa eftir gildi okkar,“ sagði Jens Stoltenberg, forsætisráðherra Noregs, í ræðu til þjóðarinnar eftir hræðilega hryðjuverkaárás hægri öfgamanns sem leiddi til dauða tæplega 80 manns fyrir nokkrum árum.
Minna þurfti til að við gæfum eftir gildi okkar.
Ótti og eftirgjöf
Það var táknrænt þegar ríkisstjórn Maldive-eyja í Indlandshafi fundaði á hafsbotni, til að vekja athygli umheimsins á að eyjurnar myndu senn sökkva í sæ vegna loftslagsbreytinga af mannavöldum.
Það var líka táknrænt þegar Bjarni Benediktsson stefndi nýstofnuðu Þjóðaröryggisráði Íslands til fundar í sprengjuheldu húsi á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli, í stað Stjórnarráðsins, vegna ótta við hryðjuverkaárás íslamista á fundinn, miðað við yfirlýsingu aðstoðarmanns hans.
Ellefu meðlimir Þjóðaröryggisráðsins, þar af þrír ráðherrar, keyrðu því Reykjanesbrautina þar sem 52 hafa látist í bílslysum frá 1965, og lýstu því yfir að þau þyrftu öruggan stað til að funda um ógnirnar sem steðja að okkur. Þetta var beint í kjölfar þess að vopnaðir sérsveitarmenn birtust skyndilega á hlaupahátíð, án þess að nokkrum væri gert viðvart, og án þess að viðbúnaðarstig hefði verið hækkað.
18 banaslys urðu í umferðinni, aðeins í fyrra. En ríkisstjórnin hefur ákveðið að leggja 10 milljörðum minna í vegakerfið en þarf, að sögn samgönguráðherrans Jóns Gunnarssonar, sem notar þá manngerðu staðreynd til að réttlæta að einkaaðilar verði að innheimta veggjald af vegfarendum. Ríkið innheimtir 44 milljarða króna í gjöld af bifreiðum á ári, en leggur hins vegar aðeins 25 milljarða króna í vegagerð. „Það blasa við okkur stórfelld vandamál sem kalla öll á bráðaaðgerðir. Það hefur orðið gríðarleg aukning í umferðinni og aukin slysatíðni er sorgleg staðreynd,“ sagði hann.
Öryggi borgaranna í uppnámi – af öðrum ástæðum
En það væri rökvilla að halda því fram að skortur á aðgerðum á einu sviði ætti að útiloka tiltölulega ódýrar aðgerðir á öðru sviði, eins og að efla lögregluna. En uppbyggingin á lögreglunni er, samkvæmt hjálparbeiðni frá Landssambandi lögreglumanna í síðasta mánuði, með þessum hætti: „Ef stjórnvöld ætla lögreglu að gæta að öryggi borgaranna þurfa að fara saman orð og efndir. Lögreglumenn töldu árið 2012 að botninum hlyti að vera náð þegar þeir lýstu því yfir að hægt væri að leggja niður lögregluna í þáverandi mynd, síðan hefur ástandið lítið breyst. Nú er unnið að því að skrapa saman notuðum fötum fyrir afleysingamenn lögreglu, ekki hefur tekist að endurnýja lögreglubifreiðar samkvæmt áætlun auk þess sem lögreglumenn eru einir að störfum, langt frá allri aðstoð. Þetta er að mati lögreglumanna ekki boðlegt í íslensku samfélagi.“
Við erum því ekki að styrkja lögregluna, þrátt fyrir ógnina, en hins vegar erum við að grípa til sýnilegra aðgerða til að benda á ógnina og ýkja hana upp.
Krafan um þögn
Okkur er sagt að fara ekki fram á að fá vitneskju um eða spyrja spurninga um aukinn viðbúnað lögreglu, jafnvel þótt viðbúnaðarstig hafi ekki verið hækkað, viðbúnaður aukinn með „eðlisbreytingu“, eins og afbrotafræðingur orðar það, en okkur sagt af ríkislögreglustjóra að „engin stefnubreyting og engin nýlunda“ sé með breytingunni – þótt við sjáum það með berum augum.
Samfélag þar sem mögulegt er að auka vígvæðingu og vopnaburð án nokkurrar umræðu, og með kröfu um að umræðan sé þögguð, samhliða augljósum afskýringum, er ekki endilega öruggt.
Friðsemdin og vopnleysið eru hluti af kjarnagildum Íslendinga. Við erum herlaus þjóð og stolt af því. Það er eitt af því sem skilgreinir okkur. Ekki að við viljum vera varnarlaus, heldur viljum við ekki hafa ásýnd ófriðar eða vígatóla og beitum okkur fyrir samstarfi og tengslum fremur en valdbeitingu.
Engin opinber umræða varð um þetta breytta gildismat. Börnin okkar eiga núna að fagna sautjánda júní með mönnum vopnuðum byssum, vegna þess að við eigum að vera svo hrædd. Normalísering vopnaburðar á sér stað með tímanum og það er ólíklegt að tekin séu skref til baka eftir að fólk hefur verið sannfært um að öryggi þess sé ógnað.
Þetta hefur líka í för með sér að stjórnmálamennirnir hafa núna tekið að sér að sannfæra okkur um að við eigum að vera hræddari. Þeir eru farnir að selja óttann. Jóna Sólveig Elínardóttir, meðlimur í Þjóðaröryggisráðinu og þingmaður Viðreisnar – flokks frjálslyndis og opnunar, taldi upp allar hryðjuverkaárásir í Vestur-Evrópu síðustu tvö og hálft ár í tilraun til þess að sannfæra okkur um að við ættum að vera hrædd. „Aðstæður geta breyst fyrirvaralítið. Maður er hugsi yfir hryðjuverkaógninni sem birtist í mörgum nágrannaríkjum okkar. Við verðum að vera meðvituð um að slíkir atburðir geta gerst hér á landi,“ sagði Bjarni Benediktsson eftir fyrsta fund Þjóðaröryggisráðsins.
Sigur hryðjuverkanna
Góðir leiðtogar hjálpa fólki að vinna úr sameiginlegri reynslu á uppbyggilegan hátt til styrktar samheldni og heilbrigðu gildismati.
Flestir leiðtogar reyna eftir fremsta megni að sýna stillingu til að svipta fólk ekki öryggistilfinningu, jafnvel eftir hrikalegar hryðjuverkaárásir. Aðrir en þeir sem nota óttann sem stjórntæki.
Leiðtogi okkar hefur hins vegar sent okkur skýr og ítrekuð skilaboð um að við séum ekki óhult. Að við ættum að breyta háttalagi okkar. Og hann leiðir sjálfur fordæmið.
Viðbrögð Bjarna Benediktssonar og sú umræða sem skapast falla að æðsta takmarki hryðjuverkamanna. Þeir vilja aukna vígvæðingu, ótta og tortryggni gegn útlendingum. Þeir vilja gera okkur svo hrædd að við breytum hegðun okkar. Helst svo hrædd að við sættum okkur við valdasamþjöppun og valdbeitingu. Að við verðum svolítið meira eins og þeir; fullir haturs og fastir í hugarheimi valdbeitingar.
Helgi Gunnlaugsson afbrotafræðingur útskýrði í samtali við Rúv hvernig hryðjuverkamenn taka þessu sem árangri. „Auðvitað berst þetta til eyrna þeirra sem hafa staðið fyrir hryðjuverkum. Þarna sjá þeir áhrif þeirra verka sem þeir hafa verið að standa fyrir víða í Evrópu, að þessi áhrif eru komin til Íslands, til þessarar eyju sem hefur verið friðsöm og öryggið hefur mælst einna hæst.“
Verið hrædd við útlendingana
Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri útskýrði ákvörðun sína um að byrja að senda vopnaða sérsveitarmenn á meðal fólks á útihátíðum að hluta til með því að útlendingum og hælisleitendum hefði fjölgað á Íslandi.
Nokkrum dögum áður var maður myrtur í Mosfellsdalnum. Sá sem er handtekinn, grunaður um morðið, hefur undanfarið ógnað fjölda fólks sem hefur sett sig upp á móti þjóðernishyggju og útlendingahatri í stjórnmálum. Hann hefur meðal annars fagnað og hæðst að hælisleitanda sem kveikti í sér í örvæntingu.
Við höfum stundum ástæðu til að tortryggja fólk. Ein þeirra er þegar við sjáum að fólk notar óttann sér til framdráttar. Ótti er hættulegur. Á Íslandi er til vanstillt fólk, jafnvel veikt fólk, sem óttast alla múslima og hatar þá, og allur óhóflegur hræðsluáróður fólks í æðstu stöðum getur skapað hættuástand með því að breyta hugarástandi þess til hins verra. Nýverið var til dæmis múslimi beinbrotinn í líkamsárás í því sem rannsakað er sem hatursglæpur gegn honum. Auknir fordómar, sem knúnir eru áfram af ótta, eru síðan líklegir til að jaðarsetja og einangra þann hóp sem verður fyrir þeim.
Umburðarlyndi gagnvart stærri ógnum
Hryðjuverkaárásir eru mögulegar alls staðar. Það að enginn hefur látist í hryðjuverkaárás á Íslandi þýðir ekki að það geti ekki gerst. Einn veikur maður hefur hins vegar verið skotinn til bana af sérsveitinni. Það getur gerst.
Fyrir nokkrum dögum tók maður í stundarbrjálæði skammbyssu af lögregluþjóni í München í Þýskalandi og skaut hann og slasaði tvo nærstadda. Það getur líka gerst.
Bjarni Benediktsson hefur sent okkur skilaboð um að við séum ekki örugg, að við eigum að vera hrædd.
Þegar talið berst að aðgerðum Donalds Trump gegn heildarhagsmunum mannkyns er forsætisráðherra okkar hins vegar afsakandi, umburðarlyndur og skilningsríkur.
Eftir að Bandaríkjaforseti tilkynnti að hann myndi draga Bandaríkin, eitt ríkja, út úr samstarfi nánast allra þjóða heims um aðgerðir gegn loftslagsbreytingum sagði Bjarni að það þyrfti ekki að vera slæmt eða hættulegt: „Það er eitt að menn ætli ekki að taka þátt í Parísarsamkomulaginu, ekki að undirgangast þær skuldbindingar sem þar eru. Annað er hvað menn ætla að gera í loftslagsmálum almennt. Það getur vel verið að ríkisstjórn Bandaríkjanna sé með áform, þótt þeir séu ekki tilbúnir til að undirgangast Parísarsáttmálann, um að ná árangri.“
Yfirlýsing ríkisstjórnar Maldive-eyja eftir neðansjávarfundinn var önnur. „Við verðum að sameina heiminn til að koma í veg fyrir frekari hækkun hitastigs. Loftslagsbreytingar eru að gerast og þær ógna réttindum og öryggi allra á jörðinni.“
Þegar Trump komst til valda, augljós ógn við lýðræðið, heimsfriðinn og umhverfið, með hernaðarstefnu, lygar og aðdáun á einræðisherrum, sagði Bjarni að það þyrftu ekki allir að vera „steyptir úr sama mótinu“.
Það eru margar ógnir við lifnaðarhætti okkar, líf og gildismat. En sú ógn sem auðveldast er að selja fólki er oft sú sem verður að pólitísku vopni. Við þurfum ekki að gefa eftir opna umræðu, gildi okkar eða öryggistilfinningu til að lágmarka áhættur lífs okkar. En við þurfum að vera meðvituð um hver hefur hag af því að hræða okkur.
Athugasemdir