Felix var í íslenskutíma á mánudaginn þegar síminn hringdi. Hann fór fram og svaraði. Lögreglumaður kynnti sig og sagði að Felix yrði sendur úr landi innan þriggja daga.
„Þetta ruglaði mig mjög mikið,‟ sagði Felix seinna við mig. Hann sótti skólatöskuna sína og fór heim, skildi ekkert hvað hafði gerst. Hann missti alla einbeitingu og man ekki skýrt hvað gerðist eftir þetta. Í heilt ár hafði hann beðið eftir að áfrýjun hans yrði tekin upp í héraðsdómi. Nú leit út fyrir að þessi áfrýjun hefði aldrei verið til. Felix fékk ekkert færi til andmæla, enga pappíra, ekkert. Lögmaður hans vissi ekki af þessu fyrr en Felix hringdi í hann. Eitt símtal og allt var búið.
Síðdegis í gær hringdi Felix svo í nokkra kunningja sína í Reykjavík. Við höfum þekkst lauslega í nokkra mánuði og það var næstum orðinn brandari okkar á milli að í hvert skipti sem ég spurði hvernig málin hans stæðu svaraði hann: „Ekki hugmynd!‟ Lögmaðurinn hans var, að því er virtist, alltaf að bíða eftir viðbrögðum yfirvalda. Eftir að Felix fékk símtalið á mánudaginn sagði lögmaðurinn honum svo að ekkert væri hægt að gera. Allt leit út fyrir að innan fárra daga yrði hann kominn á götuna í Ítalíu aftur.
Felix flúði Nígeríu árið 2008. Hann fór á bát til Ítalíu og sótti þar um hæli. Umsókninni var synjað. Eftir árangurslausar áfrýjanir flýði hann í norðurátt og kom til Íslands í janúar 2013. Fyrir réttu ári neitaði innanríkisráðuneytið að gefa honum hæli. Það var ekki byggt á neinum viðtölum við hann, heldur á því einu að Ítalir synjuðu honum um sömu beiðni. Vegna trausts íslenskra yfirvalda á stjórnsýslunni þar á ekki að athuga það mál nánar. Felix var boðið að áfrýja þeirri ótrúlegu ákvörðun, sem hann hélt að hann hefði gert.
Þegar Felix hringdi í mig síðdegis í gær og ég fékk að vita að hann yrði sendur úr landi „í fyrramálið‟ brá mér. Margir vina minna eru í svipaðri stöðu og hann. Eftir margra ára flótta frá heimalandi sínu, herfilega meðferð af hálfu evrópskra yfirvalda og áralanga niðurlægingu á Íslandi ættu þeir allir, þó ekki væri nema fyrir afleiðingar þeirrar meðferðar, að fá umsvifalaust vernd og aðstoð. Ef þeir voru allir um það bil að fá brottvísunartilkynningu var sennilegt að einhverjir þeirra myndu tapa glórunni.
Nokkrir aðstandendur Felix hittust strax og fóru að skipuleggja mismunandi viðbrögð, eftir því hvernig kvöldið færi. Felix var á meðan á flandri um bæinn að ganga frá dótinu sínu og reyna að ná tali af öðrum lögfræðingum. Við höfðum engin gögn undir höndum um málið hans – þau voru öll hjá lögmanninum, sem svaraði ekki í símann, og hjá Útlendingastofnun, sem er bara með símatíma frá tíu til tvö á virkum dögum. Það var þó augljóst að eitthvað hafði klúðrast í málinu hans. Nokkur okkar hringdu í kunningja í stjórnsýslunni til að finna út hvað.
Eftir fimm tíma eftirgrennslan kom á daginn að málinu hans Felix hafði aldrei verið áfrýjað. Klukkuna vantaði þá tvo og hálfan tíma í miðnætti. Erindi var strax sent til Útlendingastofnunar að þetta væri augljóslega ekki það sem hann hafði óskað eftir, hér hefðu orðið mistök.
Allan tímann sóttu á okkur áhyggjur. Hvað ef lögreglan kæmi og tæki Felix áður en við næðum að komast til botns í málinu? Hvernig mætti koma í veg fyrir það? Lögreglan tekur venjulega ekki vel í að störf hennar séu torvelduð, sama í hvaða tilgangi. Skemmst er að minnast viðbragða hennar þegar Tony Omos fór í felur haustið 2013 svo hann yrði ekki sendur frá tilvonandi barnsmóður sinni. Fjöldi flóttamanna um allan bæ, jafnvel án allra tengsla við Tony, var áreittur dag eftir dag þar til Tony gaf sig fram. Svo mætti auðvitað fjölyrða um nímenningana, Gálgahraun, Saving Iceland og Falun Gong til að finna ákveðið mynstur í hegðun lögreglunnar gagnvart óhlýðni borgaranna.
Sem betur fer kom ekki til þess. Klukkan hálfellefu, í bíl á leið til Felix, barst tölvupóstur frá Útlendingastofnun. Fallist var á að það væri „eðlilegast að bíða með framkvæmd flutnings‟ þar til unnt væri „að skoða atvik“. Við öskruðum af gleði. Svo hringdum við í Felix. Svo öskruðum við meira.
Þegar við hittum hann virtist hann úrvinda en hamingjusamur. Þetta var bara gálgafrestur, en samt: sérhver dagur á Íslandi er dagur sem hann þarf ekki að vera á Ítalíu – eða Nígeríu.
Í morgun fór Felix aftur í íslenskutíma. Þessir tímar eru furðuleg reynsla fyrir hælisleitendur. Ef þeir vilja njóta sín hér og hafa eitthvað að gera meðan þeir bíða er góður kostur að læra íslensku. Hins vegar vofir alltaf yfir þeim möguleikinn á brottvísun. Sá möguleiki varð fullraunverulegur fyrir Felix á mánudaginn.
Málið hans kann að virðast ótrúlegt dæmi um glæfralega meðferð mannslífa. Það kom þó engu okkar á óvart. Sérhvert mál flóttamanns í hælisferli á Íslandi er tragískur farsi. Manni blöskrar dag eftir dag, ef maður gægist innfyrir dyrnar á íslenska og evrópska hæliskerfinu, hversu ótrúlega vanvirðandi það er gagnvart lífum og heilbrigði fólks. En maður getur heldur ekki nema hlegið yfir því hve fáránleg viðbrögð og vinnubrögð stjórnvalda geta verið.
Það er sjálfsögð krafa að fólk í svona rugluðu kerfi fái að njóta vafans, fái jafnvel bara hæli. Þetta gildir öðrum fremur um flóttamenn eins og Felix, sem verða annars sendir til Ítalíu, þar sem flóttamenn hrannast upp af Miðjarðarhafi og fá oft hvorki húsaskjól né mat. Hvers vegna eru málin þeirra ekki frekar tekin upp hér, þar sem er pláss og mikið betra efnahagslegt ástand?
Maður getur giskað. Þótt enginn segi það í blaðaviðtali hefur verið ljóst árum saman að meðal þeirra sem taka ákvarðanir um stefnu Íslands í útlendingamálum eru menn sem leyfa sér að koma sérstaklega illa fram við fólk af öðrum kynþáttum. Fólkið sem stendur á bak við ólöglegar brottvísanir, sem síðar eru dregnar til baka, er ekki rekið eða dregið til ábyrgðar. Jafnvel þegar skjólstæðingar stofnana á borð við Útlendingastofnun reyna að fremja sjálfsmorð vegna meðferðar og aðstæðna sinna, sem hefur oft gerst, er það hundsað eða skrifað á geðveilu einstaklinganna frekar en hinar helvísku aðstæður í íslenska hælisferlinu.
Yfirvöld ættu að sjá sóma sinn í að gefa flóttamönnum í sambærilegri stöðu og Felix hæli undir eins. Það er óboðlegt að flóttamenn þurfi að treysta á óbein vinatengsl í stjórnsýsluna til að fá almennilega málsmeðferð. Þetta er ekki spurning um slys sem gætu gerst. Þetta er spurning um slys sem hafa verið að gerast ár eftir ár og þarf að stoppa strax.
Athugasemdir