Hvaða hagsmunir geta talist mikilvægari fyrir Íslendinga en fjárhagslegir hagsmunir þeirra sem þjóðar? Ég spyr vegna þess að svo oft í umræðunni um stjórnmál og stefnu Íslands í innanríkis- og utanríkismálum virðist grundvallarákvarðanir vera teknar nær eingöngu með því að horfa til króna og aura en ekki annarra þátta sem ekki eru eins áþreifanlegir og beinharðir peningar. Rökin „peningar“ trompa oft önnur rök, til að mynda stjórnmálaleg, hugmyndafræðileg eða siðferðileg, í stjórnmálum á Íslandi. Þegar sýnt er fram á að ein niðurstaða sé betri en önnur af peningalegum ástæðum þá lýkur umræðunni oft innan stjórnmálanna. Stundum held ég að Íslendingar sé með peninga á heilanum; að þjóðarsálin sé aurasál.
Peningar víkja fyrir prinsippi
Síðustu mánuði höfum við sem betur fer séð annað upp á teningnum í afstöðu Íslands til innrásar Rússlands í Úkraínu og þessa langvinna ófriðar sem þar hefur geisað: Fjárhagsleg rök, peningalegir þjóðarhagsmunir, hafa vikið fyrir annars konar rökum.
Þegar litið er til þess að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins hefur gert svo margt sem er bein hagsmunagæsla fyrir útgerðarfyrirtæki og hina efnameiri í samfélaginu - lækkun veiðigjalda, afnám auðlegðarskatts og afnám skatta hjá álfyrirtækjum - þá finnst mér merkilegt þegar einn af ráðherrunum notar röksemdir sem hvorki byggja á peningum né því að verið sé að standa vörð um einkahagsmuni útgerðarfyrirtækja, áliðnaðarins eða auðmanna á kostnað heildarinnar.
Gunnar Bragi Sveinsson hefur verið staðfastur í svörum sínum og aðgerðum, fyrir Íslands hönd, sem snerta ófriðinn á milli Rússlands og Úkraínu og hefur Ísland stutt viðskiptaþvinganir Evrópusambandsins og Bandaríkjanna gagnvart Rússum. Þetta gerir hann þrátt fyrir að stór útgerðarfyrirtæki verði af miklum tekjum vegna þessa.
„Það byggir á prinsippi og miklu stærra hagsmunamati en þetta“
Bann sýnir að afstaða Íslands skiptir máli
Rússnesk yfirvöld hafa nú ákveðið að setja innflutningsbann á vörur frá Íslandi vegna þessa stuðnings; aðgerð sem hefur tugmilljarða króna áhrif á íslensk fyrirtæki, meðal annars í sjávarútvegi. Þetta er Gunnari Braga og ríkisstjórninni að þakka, eða kenna ef einhver vill orða það þannig. En ég er líka nokkuð viss að allar mögulegar ríkisstjórnir á Íslandi hefðu brugðist við með sama hætti. Það breytir því samt sem áður ekki ríkisstjórninni ber að hæla í málinu.
Gunnar Bragi hefði alveg getað sagt - raunar hefði ég frekar búist við því fyrirfram en hinu sem hann sagði eitthvað svona: „Ég tel, og um það er breið samstaða í ríkisstjórninn, að viðskiptahagsmunir íslenskra fyrirtækja, til dæmis í sjávarútvegi, séu það miklir í Rússlandi að ekki sé réttlætanlegt tefla þeim í tvísýnu með því að íslensk stjórnvöld styðji viðskiptaþvinganir í ófriði sem kemur íslensku þjóðinni ekkert við.“ Núverandi ríkisstjórn hefur miklu frekar verið stjórn fjármagnsafla á Íslandi; ríkisstjórn stórútgerðarinnar; stjórnvald þrengri einkahagsmuna en almannahagsmuna. En nei, nei: Gunnar Bragi sagði ekkert slíkt.
Í stað þess sagði hann við Kjarnann fyrr í dag, þegar hann var spurður um skoðanir sínar á viðskiptabanni Rússanna: „Ég mun ekki leggja til neina endurskoðun á þátttöku í viðskiptaþvingunum. Það byggir á prinsippi og miklu stærra hagsmunamati en þetta, í rauninni, þó hér séu auðvitað miklir hagsmunir.“ Með öðrum orðum: Þessar viðskiptaþvinganir Rússlands munu ekki láta íslensk stjórnvöld breyta um stefnu þegar kemur að stuðningi við viðskiptaþvinganirnar.
Bravó Gunnar Bragi! Vonandi stendur þú áfram í lappirnar í þessu máli því það skiptir máli, ekki bara á Íslandi heldur líka alþjóðlega.
Óhlutbundin rök
Gunnar Bragi vísar nefnilega þarna til raka og ástæðna sem eru frekar fáheyrðar hjá ráðherrum í þessari ríkisstjórn. Hann notar óræð orð og óhlutbundin eins og „prinsipp“ og „miklu stærra hagsmunamat“. Hvað á maðurinn eiginlega við?
Hugmyndin á bak við Evrópusambandið, þjóðabandalagið sem beitir Rússa viðskiptaþvingunum, var upphaflega að það ætti að vera friðarbandalag sem ala átti á samhug meðal þjóða Evrópu og meginmarkmiðið var skýrt: Að koma í veg fyrir að hörmungar seinni heimsstyrjaldarinnar myndu endurtaka sig með því að sjá til þess að friður myndi ríkja í álfunni. Evrópusambandinu hefur tekist þetta síðastliðna áratugi. Þó átök hafi blossað upp í einstaka ríkjum eins og fyrrverandi Júgóslavíu þá hefur allsherjarstríð á milli einstakra þjóðríkja, eins og til dæmis Frakklands og Þýskalands, ekki átt sér stað líkt og svo oft á öldum áður.
Rússar hafa ógnað þessum friði í álfunni með innrás sinni á Krímskaga og stuðningi við aðskilnaðarsinna í Úkraníu auk þess sem þeir eru byrjaðir að beita ógnandi kalda stríðs tækni í samskiptum sínum við aðrar þjóðir eins og til dæmis Svía með því að ítrekað sýna þeim ógnandi tilburði. Í gangi er kalt stríð á milli Rússlands Vladimírs Pútíns og Evrópusambandsins og Vesturveldanna hins vegar og Ísland hefur tekið skýra afstöðu í þeim pólitíska leik. Á meðan Rússar setja viðskiptabann á Íslendinga er afstaða Íslands gegn þeim svo frekar réttmætt með því sem talið er að séu sannanir fyrir aðkomu Rússlands að stríðsglæpum í Úkraínu.
Stuðningurinn skiptir máli
Það er alveg rétt hjá Gunnari Braga: Þeir hagsmunir sem þarna eru undir eru svo miklu stærri en milljarða hagsmunir nokkurra íslenskra sjávarútvegsyrirtækja sem selja fisk til Rússlands. Raunar finnst mér þetta vera svo augljóst að það jaðrar við að vera fíflalegt að tala um þetta. Ísland tekur þarna þátt í að setja sitt litla lóð á vogarskálarnar til að gagnrýna innrás og stríðsrekstur stórveldis í miklu minna Evrópuríki. Þetta er hagsmunamál sem varður í raun alla Evropu og Ísland getur verið með í því að taka skýra siðferðilega, pólitíska afstöðu í því.
Gunnar Bragi tekur stærri hagsmuni - hagsmuni Evrópu- og Evrópusambandsins og Íslands sem lands í þessari heimsálfu - fram yfir þrengri fjárhagslega hagsmuni íslenskra útgerðarfyrirtækja og þjóðarbúsins. Sá stuðningur skiptir máli, jafnvel frá örþjóð eins og Íslandi, og Rússar vita að þessi stuðningur skiptir máli og þess vegna refsa þeir íslenskum fyrirtækjum með því að hafa af þeim tekjurnar af sölu varnings til Rússlands.
Svona getur smáþjóðin skipt máli ef hún horfir lengra og hugsar stærra en um þrönga einkahagsmuni sína og stórfyrirtækja eins og Síldarvinnslunnar, HB Granda og Samherja. Gunnar Bragi, og ríkisstjórnin, eru að taka afstöðu með friðarbandalagi gegn herskáu ríki sem er stýrt af leiðtoga sem ég held að enginn ætti að vanmeta og sem trúandi er til nánast alls.
Óhlutbundnu rökin fyrir Evrópusambandinu
Skýra afstöðu Gunnars Braga og ríkisstjórnarinnar í málinu má raunar útskýra með því að vísa til orða um Evrópusambandið sem Þorvaldur Gylfason hagfræðingur lét falla í viðtali við DV árið 2011. Þar færði Þorvaldur hugmyndafræðileg rök, eiginlega tilfinningarök, fyrir því af hverju hann taldi Ísland eiga að ganga í Evrópusambandið: „Ég hef þá skoðun, og hef haft hana í 25 ár, að Ísland eigi heima í Evrópusambandinu. Skoðun mín hvílir ekki á efnahagsrökum fyrst og fremst heldur á stjórnmálarökum. Þetta er bara félagsskapur sem við eigum heima í, alveg eins og mér fannst alltaf að við ættum heima í Norðurlandasamstarfinu og í Atlantshafsbandalaginu. Bara vegna þess að vinir okkar eru þar þá viljum við líka vera þarna. Þessi skoðun mín felur það í sér að jafnvel þótt einhver næði að sannfæra mig um að kostnaðurinn sem fylgir aðild Íslands að Evrópusambandinu sé meiri en hagurinn sem við höfum af henni þá myndi ég samt vilja fara þangað inn. Einfaldlega vegna þess að sælla er að gefa en að þiggja, eins og segir í hinni góðu bók.“
Í tilfelli Rússadeilunnar er fjárhagslegum hagsmunum Íslands betur borgið með því að styðja ekki viðskiptaþvinganirnar gegn Rússum en ríkisstjórnin ákveður samt að styðja þær. Ísland tekur afstöðu með bandalaginu og Bandaríkjunum og með forsendum sem í gruninn byggja á því að þjóðir Evrópu vinni saman að því að forðast að einar mestu hörmungar mannskynssögunnar endurtaki sig með því að reyna að ýta undir samhug og samvinnu innan álfunnar.
Að mínu mati er þessi staðfesta ríkisstjórnarinnar í þessu stórmáli það jákvæðasta sem hún hefur gert á kjörtímabilinu. Ég ætla ekki að segja að ég sé stoltur af því vera Íslendingur á þessum degi þar sem tilkynnt er um viðskiptabann Rússa gegn Íslendingum en ef Gunnar Bragi og ríkisstjórnin hefðu ákveðið að kóa með Rússum, og taka einkahagsmuni nokkurra makrílkalla og síldarmanna fram yfir alþjóðlega hagsmuni og hagsmuni Evrópu, þá hefði síðasti vonarneistinn sem ég ber í höfði til ríkisstjórnarinnar horfið snarlega með skömm.
Batnandi ríkisstjórn er best að ... og svo framvegis.
Má yfirfæra hugsun Gunnars Braga lengra?
Eftir stendur hins vegar líka sú spurning hvort ekki mega heimfæra röksemdir Gunnars Braga í málinu, að Ísland taki meiri og stærri alþjóðahagsmuni fram yfir þrengri og fjárhagslegri hagsmuni íslenska fyrirtækja, upp á spurningu um aðild Íslands að Evrópusambandinu.
Gunnar Bragi er sá þingmaður og ráðherra sem einna harðast hefur barist gegn því að Ísland gangi í sambandið og leiddi vinnu ríkisstjórnarinnar við að hætta við umsóknarferlið að sambandinu eftir að hún var kosin til valda árið 2013. Gunnar Bragi ákveður nú hins vegar að vinna með sambandinu og Bandaríkjamönnum að því að koma í veg fyrir ófrið og væringar í Evrópu, þetta er einn helsti tilgangur Evrópusambandsins sem ríkjabandalags.
Ísland væri auðvitað enn sterkari og traustari bakhjarl í slíkum alþjóðlegum stórmálum eins og Úkraínudeilunni ef landið væri meðlimur í Evrópusambandinu. Innganga Íslands í sambandið myndi líka hafa táknrænt gildi út á við, meðal annars í augum þjóða eins og Rússlands sem vill grafa undan mætti og samstöðu innan sambandsins, líkt og stuðningur Íslands nú við viðskiptaþvinganirnar gegn Rússum. Gunnar Bragi hefur sýnt að þetta táknræna vægi Íslands skiptir hann máli. Sá táknræni stuðningur væri meiri ef Ísland kysi að ganga í sambandið sjálft og beita sér gegn ófriðaröflum eins og rússneskri stjórn Pútíns.
Ef Gunnar Bragi getur gripið til óhlutbundinna raka og „prinsippa um stóra hagsmuni“ - tekið skal fram að ég deili þeirri sýn hans heils hugar - þegar hann rökstyður þátttöku Íslands í stuðningi við viðskiptaþvinganir gegn Rússum þá hlýtur hann einnig að geta séð ljósið í slíkum rökum þegar hann veltir fyrir sér hvort Ísland eigi að ganga í Evrópusambandið. Rétt eins og í Úkraínudeilunni þá liggja þar undir sjónarmið og hagsmunir sem eru miklu stærri og mikilvægari fyrir Ísland en þröngir hagsmunir Samherja og Ísfélagsins í Vestmannaeyjum út af fiskveiðum við Ísland, nú eða landbúnaðarhagsmunir fyrrverandi vinnuveitenda Gunnars Braga, Kaupfélags Skagfirðinga.
„Ef stjórnin gerði þetta myndi hún væntanlega sjá fljótt að sér og hækka veiðigjöld útgerðarfyrirtækjanna snögglega enda var lækkun þeirra á sínum tíma óþörf, sorgleg og spillt.“
Kjánalegt, sorglegt og spillt
Rétt eins og það væri kjánalegt, sorglegt og spillt ef Ísland myndi ekki styðja viðskiptaþvinganirnar gegn Rússum út af hagsmunum nokkurra útgerðarfyrirtækja og vegna þrýstings frá LÍÚ þá er líka tragískt að mínu mati að ríkisstjórnin hafi lokað á möguleika Íslands á inngöngu í sambandið að stóru leyti vegna fjárhagslegra hagsmuna útgerðar- og landbúnaðarfyrirtækja.
Í grunninn eiga sömu rökin að hluta til við í báðum málum: Ísland hlýtur að vilja að vera beinn og formlegur þátttakandi að því að stuðla að friði og samvinnu í Evrópu og taka þátt í verkefni sem Evrópusambandið var stofnað til sinna. Þetta Evrópuverkefni snýst um önnur og stærri sjónarmið en peninga þó auðvitað sé spurningin um aðild Íslands að Evrópusambandinu flóknari í eðli sínu en sú spurning hvort Ísland eigi að styðja viðskiptaþvinganir gegn Rússum eða ekki.
Þessa spurningu um Evrópusambandsaðild Íslands er sannarlega hægt að flækja til muna en hana er líka hægt að einfalda mjög: Ísland hlýtur að vilja vera með í sögulegu friðarbandalagi Evrópu, rétt eins og Ísland vill vera með í þeirri samstöðu að standa vörð um friðinn í álfunni og refsa fasískum hernaðarríkjum eins og Rússlandi sem ógna honum. Þátttaka Íslands í þessu friðarbandalagi skiptir meira máli en allur makríll heimsins rétt eins og aðkoma Íslands að refsiaðgerðunum gegn Rússum skiptir meira máli en sölutekjur útgerða á uppsjávarfiski í Austurvegi.
Nú er líka óskandi að Gunnar Bragi og ríkisstjórnin nýti sér hugarbyrinn úr utanríkismálunum og byrji að hugsa með svipuðum hætti um innanríkismálin á Íslandi í staðinn fyrir að standa alltaf vörð um einkahagsmuni fárra, til að mynda stórútgerðanna. Ef stjórnin gerði þetta myndi hún væntanlega sjá fljótt að sér og hækka veiðigjöld útgerðarfyrirtækjanna snögglega enda var lækkun þeirra á sínum tíma óþörf, sorgleg og spillt.
Athugasemdir