Eiginlega er bara sorglegt að fylgjast með því hvernig umræðan um stuðning Íslands við viðskiptaþvinganir Evrópusambandsins og Bandaríkjanna gegn Rússlandi hefur þróast síðustu daga.
Fyrst eftir að Rússland setti innflutningsbann á íslenskan fisk í lok síðustu viku var eins og einhugur væri um stuðning Íslands á þeim prinsippforsendum að landið þyrfti að vera þátttakandi í þeim pólitíska boðskap að í Evrópu væri það ekki liðið að ríki ógnaði sjálfstæði og fullveldi annars lands líkt og Rússland hefur gert í Úkraníu. Til að byrja með heyrðust einungis harmakvein í útgerðarmönnum eins og Gunnþóri Ingvasyni hjá Síldarvinnslunni sem kvartaði yfir hugsanlegu tekjutapi en þó tók fram að hægt væri að finna aðra markaði fyrir makrílinn sem seldur er til Rússlands.
„Það vita allir að þetta viðskiptabann skiptir engu“
Afstaðan var skýr hjá Gunnari Braga Sveinssyni utanríkisráðherra: Stuðningurinn verður ekki dreginn til baka af þeirri einföldu prinsippafstöðu af hagsmunirnar sem felast í því að styðja viðskiptabannið eru stærri og mikilvægari en þeir hagsmunir Íslands og útgerðarfyrirtækja að selja makríl, loðnu og síld til Rússlands.
En svo byrjar meira að segja gamli Evrópusambandssinninn Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, að draga í land og líka sjávarútvegsráðherrann Sigurður Ingi Jóhannsson sem talaði um mikilvægi þess að Ísland „hagi seglum eftir vindi“. Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins, hefur lýst sig andvígan stuðningi Íslands enda eru miklir hagsmunir undir hjá nokkrum af þeim útgerðarfyrirtækjum sem eiga Morgunblaðið, ekki síst Samherja: „Það vita allir að þetta viðskiptabann skiptir engu“ sagði Davíð. Svo eru það heitir andstæðingar Evrópusambandsins eins og Jón Bjarnason, þingmaður Vinstri grænna, sem virðist láta afstöðu sína í málinu byggja á andúð sinni í garð sambandsins.
„Það hefur alltaf verið stefna íslenskra stjórnvalda að selja fisk fremur en að reyna að bjarga heiminum, enda er hið síðarnefnda ekki á okkar færi.“
Annar andstæðingur stuðningsins, Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor tekur nokkur söguleg dæmi um það að Íslendingar hafi ekki látið hugsjónir og hugmyndafræði hafa áhrif á viðskiptahagsmuni sína af fisksölu til annarra landa og klykkir út með: „Það hefur alltaf verið stefna íslenskra stjórnvalda að selja fisk fremur en að reyna að bjarga heiminum, enda er hið síðarnefnda ekki á okkar færi.“
Eiginlega má segja að þessi setning Hannesar fangi meginafstöðu þeirra sem hafa talað gegn stuðningi Íslands á liðnum dögum: Íslendingar eiga að taka fiskinn sinn, og það fé sem fæst fyrir hann, fram yfir aðra hagsmuni og hugsjónir eins og frelsi og sjálfstæði annarra ríkja sem er ógnað.
Eitt dæmi sem Hannes tekur er þokkalega hæft til samanburðar við umræðuna um Rússlandsmálið: „Íslendingar tóku ekki þátt í refsiaðgerðum gegn Ítölum vegna innrásar Mússólínis í Eþíópu, því að þeir vildu selja fisk til Ítalíu.“ Í þessu dæmi virðist Ísland hins vegar ekki hafa tekið ákvörðun um að styðja ekki viðskiptaþvinganirnar gegn Ítalíu árið 1935 þar sem landið átti ekki aðild að Þjóðbandalaginu svokallaða sem setti þær.
Um þennan samning segir í gamalli grein í Morgunblaðinu: „Í bók Péturs J. Thorsteinssonar, um utanríkisþjónustu Íslands og utanríkismál, segir að skýringin á þessu hafi verið sú að Ísland átti ekki aðild að Þjóðabandalaginu og tók því ekki þátt í refsiaðgerðum gegn Ítölum út af innrás þeirra í Abessiníu, síðar Eþíópíu. Forsætisráðherra Ítalíu, Benito Mussolini, skrifaði undir samninginn við Ísland en danski sendiherrann fyrir Íslands hönd.“ Sem sagt: Ísland verður ekki gagnrýnt fyrir að hafa ekki stutt viðskiptaþvinganirnar gegn Ítalíu þar sem landið gat það ekki en spurningin sem eftir stendur er hvort Ísland sé gagnrýnivert af því landið gerði þennan sérstaka samning við Ítalíu þrátt fyrir viðskiptaþvinganir Þjóðabandalagsins.
Það er merkilegt að Hannes taki þetta dæmi, og finnist ekkert athugavert við þessa eiginhagsmunasemi Íslands á þeim tíma, þar sem hann býr yfir þekkingu á arfleifð Mússolínis og því sem síðar gerðist í seinni heimsstyrjöldinni og hernaðarlegri samvinnu Ítalíu og þriðja ríkis Adolfs Hitlers. Þá, rétt og eins og nú, voru íslensk útgerðarfyrirtæki eins og Kveldúlfur, fjölskyldufyrirtæki Thorsaranna, sem höfðu mikla hagsmuni af því að geta haldið áfram fisksölu til Ítalíu. En þá, öfugt við nú, voru atvinnuvegir Íslands miklu fábrotnari og fiskveiðar og -sala lang líka mikilvægasta atvinnugrein þjóðarinnar.
Samt sem áður finnst mér að sú ákvörðun Íslands sem Hannes nefnir að „díla“ svona við djöfulinn hafi þvert á móti verið röng og einmitt sýna okkur fram á að Ísland á að taka hugsjónir og alþjóðahagsmuni fram yfir sína þröngu hagsmuni af sölu á fiski til annars lands. Sérstaklega þegar litið er til þess að fiskútflutningur er ekki eins mikilvægur fyrir þjóðarbúið í dag og hann var fyrir 80 árum, þar sem Íslendingar búa að öðrum tekjulindum, og ekki liggur einu sinni fyrir að ekki sé hægt að selja fiskinn sem átti að fara á Rússlandsmarkað annað.
Þó Ísland skipti ekki miklu máli í alþjóðasamfélaginu þá skiptir afstaða og aðgerðir hverrar þjóðar máli gagnvart ríki eins og Rússlandi sem misbeitir hervaldi sínu. Hægt er að fara út í umræðu um að Krímskaginn hafi verið hluti af Sovétríkjunum, að stór hluti íbúanna sé rússneskur og að íbúar á Krímskaga vilji tilheyra Rússlandi en það breytir því ekki að Rússar misbeittu hervaldi sínu og gerðu innrás í sjálfstætt þjóðríki. Rússland heldur svo áfram að ógna sjálfstæði Úkraínu með þátttöku í stríðinu sem þar geisar. Þegar ríki misbeita valdi sínu með þessum hætti þarf alþjóðasamfélagið að taka höndum saman með skýrum hætti til að senda skýr skilaboð til innrásarríkisins. Þetta gerði Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra fyrir Íslands hönd.
„Sem betur fer hefur Evrópusambandið og alþjóðasamfélagið ekki farið þessa leið gagnvart Vladimír Pútín í dag“
Í umræðunni um innrás Rússlands í Úkraínu hefur oft verið vitnað til þess þegar Neville Chamberlain, þáverandi forsætisráðherra Bretlands, lúffaði fyrir Adolf Hitler árið 1938 og talaði Frakka inn á að semja við Þýskaland um að landið mætti leggja undir sig Súdetahéruðin í Tékkóslóvakíu í stað þess að þýski herinn lýsti yfir stríði við landið og gerði innrás í það. Hernám Súdeta-héraðanna var fyrsta skrefið í útþenslustefnu Adolfs Hitlers og forsætisráðherra Bretlands gerði þau reginmistök að semja við hann þar sem hann taldi að slíkur samningur myndi tryggja „frið á vorum tímum“ í Evrópu eins og Chamberlain sagði. Annað átti eftir að koma í ljós.
Sem betur fer hefur Evrópusambandið og alþjóðasamfélagið ekki farið þessa leið gagnvart Vladimír Pútín í dag heldur staðið á því að innrásir í sjálfstæð ríki verði ekki liðnar og hefur beitt landið viðskiptaþvingunum.
Hver veit hvað Pútín ætlast fyrir á endanum? Hann er óútreiknanlegur. Ef Ísland hefði staðið frammi fyrir því á fjórða áratug síðustu aldar að geta tekið þátt í stuðningi við viðskiptaþvinganir gagnvart Þýskalandi, til að reyna að koma í veg fyrir útþenslu ríkisins og hernaðarbrölt þess, þá hefði Ísland átt að gera það, alveg sama hvaða viðskiptahagsmunir hefðu verið í húfi fyrir landið. Þó ekki sé vitað hvað nákvæmlega Pútín hyggst fyrir í Austur-Evrópu þá ber að taka öllum ógnandi tilburðum frá Rússlandi með festu. Ég segi fyrir mitt leyti, þegar ég lít á sögulegt dæmi Hannesar Hólmsteins um Ítalíu, að mér hefði fundist siðlegra ef íslensk stjórnvöld hefðu ekki gert sérstakan samning um sölu á fiski við fasistastjórn Benitós Mússólínís.
Rússland Pútíns vill veikja Evrópusambandið og samvinnu einstakra ríkja innan álfunnar og allir sérstakir viðskiptasamningar einstakra ríkja við Rússland, sem eru afleiðingar af því að ríkin láta undan þeim þrýstingi sem Rússland hefur sett á þau með innflutningsbanni, koma sér illa fyrir ríkjabandalag Evrópu í heild sinni. Ísland, þó það sé lítið og skipti ekki miklu máli í alþjóðsamfélaginu, má ekki fara þá leið að láta undan þrýstingi Rússa og jafnvel semja við þá með einhverjum hætti. Þá má segja að Ísland endurtaki mistök sín frá fjórða áratug síðustu aldar þegar landið setti ekki sitt litla lóð á vogarskálarnar til að bregðast við hernaðarbrölti Benitós Mússolínís.
„Það hlýtur að koma til skoðunar hjá okkur“
Engu máli skiptir þó Ísland nái ekki samningum um tollaívilnanir á Rússlandsfisknum til landa Evrópusambandsins og aðrir markaðir finnist ekki fyrir fiskinn - sem verður að teljast vera afar ólíklegt, að minnsta kosti með makrílinn.
Ísland þarf að standa fast á prinsippinu í Rússlandsmálinu. Ef landið gerir það ekki þá virkar það út á við eins og stefnulaust rekald í utanríkismálum: Land sem segir A einn daginn en ekki-A hinn daginn; land sem er reiðubúið að selja utanríkisstefnu sína fyrir fé sem fæst fyrir fisk.
Þetta virðist reyndar vera utanríkisstefna Bjarna Benediktssonar því hann sagði um málið: „Það hlýtur að koma til skoðunar hjá okkur, þegar að afleiðingarnar við að skrifa undir slíkar þvinganir eru þær sem að raun ber vitni, að endurmeta stöðuna, sérstaklega þegar þeir sem við höfum stillt okkur upp við hliðina á, eru ekki tilbúnir til að sýna samstöðu.” Ef þetta viðhorf Bjarna yrði gert að meginreglu í íslenskri utanríkisstefnu væri sú stefna föl fyrir fé, eða hagstæða samninga, og byggði ekki á neinu öðru.
„Er það meiníng þín enn þann dag í dag að við venjulegar manneskjur hér í plássinu eigum að nærast á draumarugli?“
Ísland er ekki lengur í þeirri stöðu sem það var í fyrstu áratugum síðustu aldar - þegar fiskútflutningur og -sala var nánast eina undirstaðan í atvinnuvegum landsins - og viðkvæðið þekkta úr Sölku Völku var sjálfsagt útbreitt: „Er það meiníng þín enn þann dag í dag að við venjulegar manneskjur hér í plássinu eigum að nærast á draumarugli? Ég skal ekki neita því að margt gæti farið betur hér í plássinu, en það er nú svona að þegar öllu er á botninn hvolft þá er lífið þó umfram alt saltfiskur en ekki draumaríngl…“
Ísland, sem land í samfélagi þjóðanna, þarf að hafa einhverja hugsjón, einhverja utanríkisstefnu sem byggir á einhverjum öðrum kjarna en að lífið sjálft og erindi þjóðarinnar á alþjóðavettvangi snúist bara um síld, loðnu og makríl og að fisksala landsins trompi aðra og stærri hagsmuni. Ég hélt í einfeldni minni að ríkisstjórnin stæði einhuga á bak við sýn Gunnars Braga í málinu en svo reyndist bara ekki vera. Miðað við gagnrýnisraddirnar hafa Íslendingar ekki mikið lært í utanríkismálum á síðustu áratugum: Mikilvægasti þáttur utanríkisstefnunnar er þá ennþá saltfiskur.
Hvernig myndi Íslendingum finnast það ef erlent ríki gerði innrás í Ísland og að aðrar Evrópuþjóðir og Bandaríkjamenn myndu snúa baki við landinu út af þröngum viðskiptahagsmunum sínum í viðkomandi ríki? Þá myndi þjóðin öll í kór hrópa: Siðleysi - réttilega.
Athugasemdir