Nú er að hefjast mikil gósentíð meðal franskra sagnfræðinga, þeirra sem helga sig sögu 20. aldarinnar og ekki síst seinni heimsstyrjaldarinnar. Miklir skjalabunkar frá árunum 1940 og fram yfir stríðið verða nú loks gerðir opinberir og búast má við að endurskrifa þurfi ýmislegt í einum myrkasta kafla franskrar sögu – þegar Frakkar biðu algjöran og auðmýkjandi ósigur fyrir þýskum hersveitum Hitlers árið 1940 og voru svo undir járnhæl Þjóðverja í fjögur ár eftir það.
Og þótt Frakkar hafi eftir stríðið gert mikið úr hetjulegri framgöngu andspyrnuhreyfingarinnar gegn Þjóðverjum vita allir sem vilja að í reynd höfðu ótrúlega margir Frakkar samvinnu við Þjóðverja – jafnvel um svo skelfilega hluti eins og að flytja franska Gyðinga til útrýmingarbúða í austri.
Sú saga er vissulega kunn, en nú má búast við að hún gerði öll rifjuð upp aftur og klórað verði ofan af mörgu sári sem farið var að gróa. Og þegar upp verður staðið er það að sjálfsögðu gott. Leyndarmál á aldrei að þagga niður í sögu þjóða.
En hvernig mátti það vera að Frakkland, eitt helsta stórveldi heimsins í byrjun 20. aldar, skyldi tapa svo hörmulega fyrir Þýskalandi, og lyppast svo auðveldlega niður? Hér verða nefnd fáein atriði.
Veturinn 1940-1941 hefur oft verið kallaður „þykjustustríðið“ á vesturvígstöðvunum. Þjóðverjar höfðu lagt undir sig Pólland heldur léttilega í september 1939 en Bandamenn – Bretar og Frakkar – biðu svo átekta um veturinn. Harla fátt gerðist nema helst á hafinu.
Áætlun Mansteins samþykkt af Hitler
Allan veturinn voru Þjóðverjar hins vegar að undirbúa árás í vestur en frestuðu henni hvað eftir annað af ýmsum ástæðum. Framan af vetri voru árásarplönin mjög svipuð Schlieffen-áætluninni sem Þjóðverjar beittu í upphafi fyrri heimsstyrjaldar, og var ætlað að slá út Frakkland. Til að forðast öflug varnarvirki á landamærum Frakklands og Þýskalands skyldu Þjóðverjar sækja í vestur inn í Belgíu og þaðan suður á bóginn og í áttina til Parísar. Í fyrri heimsstyrjöldinni höfðu Frakkar með hjálp Breta náð að stöðva þessa þýsku sókn áður en Þjóðverjar náðu langt inn í Frakkland. Báðir aðilar grófu sig svo niður í skotgrafir og ægileg hjaðningavíg í fjögur ár tóku við. Nú vonuðust Þjóðverjar hins vegar til að hreyfanlegar skriðdrekasveitir og flotar steypiflugvéla, sem reynst höfðu vel í Póllandi, myndu gera þeim kleift að slá út franska herinn og ná til Parísar áður en Bandamenn kæmu vörnum við.
Gallinn var sá að bæði Bretar og Frakkar þekktu þessar áætlanir Þjóðverja út í hörgul og voru ágætlega undir slíka innrás búnir. Á útmánuðum varð hins vegar mikilvæg breyting á plönum Þjóðverja. Hershöfðingjanum Erich von Manstein tókst þá að vekja athygli Hitlers á áætlun sem hann hafði samið og fólst í að auk innrásar í Belgíu skyldi þýski herinn einnig sækja með skriðdrekum sínum í gegnum Lúxembúrg yfir Ardenna-fjöll, en flestir höfðu talið ógerlegt að senda þungar skriðdrekasveitir og birgðalestir yfir fjöllin þar sem vegir voru þröngir, hlykkjóttir og illa undirbyggðir. Hitler hreifst af dirfskunni sem honum fannst áætlun Mansteins einkennast af og hún var gerð að undirstöðu innrásarplansins. Þann 10. maí 1940 hófst svo árás Þjóðverja í vesturátt og var það af einskærri tilviljun sama dag og Bretar lögðu undir sig Ísland til að öðlast betri vígstöðu í orrustunni um Atlantshafið.
Illa lemstraður her Frakka
Skemmst er frá því að segja að flest gekk Þjóðverjum í hag. Herir bæði Breta og Frakka héldu norður til Belgíu þegar fréttist að þýski herinn væri kominn af stað og sá þýski her sem braust yfir Ardenna-fjöll mætti lítilli mótspyrnu. Við bæinn Sedan braut hann á bak aftur illa búið franskt varnarlið og skriðdrekasveitirnar brunu svo þaðan í áttina að Ermarsundi og náðu að króa breska herinn og góðan hluta þess franska inni við Dunkirk. Um mánaðamótin maí-júní náðu Bretar að vísu að flytja stærstan hluta af her sínum yfir hafið og heim, en franski herinn sem eftir stóð var illa lemstraður.
Forsætisráðherra Frakka hét Paul Reynaud og hafði tekið við embætti í mars. Hann var rúmlega sextugur lögfræðingur og hafði lengi talað fyrir harðri andstöðu við Þjóðverja, ólíkt forvera hans Édouard Daladier, sem hafði tekið þátt í ráðstefnunni alræmdu í München 1938 þegar Bretar og Frakkar létu undan kröfum Hitlers um Súdetahéruðin í Tékkóslóvakíu. Sú ráðstefna hafði ekki síst orðið til að sannfæra Hitler um að leiðtogar Bandamanna væru veiklundaðir og myndu alltaf láta undan hörku og frekju, og ekki reynast neinir menn til að standa í lappirnar ef til stríðs kæmi.
Reynaud ætlaði sér vissulega að standa í lappirnar, á því var enginn vafi. Í aðra röndina bjó þó um leið í honum djúpstæð minnimáttarkennd Frakka andspænis hernaðarmætti Þýskalands, en hún átti rætur að rekja til auðmýkjandi og nánast háðulegs ósigurs sem Frakkar biðu í stríði við Þjóðverja 1870-1871. Nokkrar kynslóðir franskra herforingja og stjórnmálamanna ólust upp við þá bölsýni að franski herinn gæti aldrei jafnast á við þann þýska.
Hringdi volandi í Churchill
Í fyrri heimsstyrjöldinni höfðu Frakkar þurft á aðstoð Breta að halda við að stöðva sókn Þjóðverja, og þurftu síðan aðstoð Bandaríkjamanna til að snúa um síðir vörn í sókn. Þetta settist djúpt í sálina á Frökkum og aðeins fimm dögum eftir innrás Þjóðverja hringdi Reynaud volandi í Churchill, sem þá var nýr forsætisráðherra Breta, og tilkynnti honum að Frakkar hefðu tapað orrustunni við Sedan, og var helst á honum að skilja að nú þegar væri allt tapað. Svo tók Reynaud sig að vísu saman í andlitinu og reyndi eftir megni að skipuleggja varnir, en þá var það að verða of seint. Nýr yfirhershöfðingi Frakka, Maxime Weygand, gerði ýmis alvarleg og afdrífarík mistök en í byrjun júní var þó um hríð alls ekki ljóst hvernig fara myndi. Frakkar vörðust af kappi á langri víglínu allt frá Sedan að Ermarsundi og Þjóðverjar voru orðnir áhyggjufullir. Trú þeirra á skjótan sigur var svolítið farin að fölna.
En þegar til kom voru vandamál Frakka of stór til að Reynaud og Weygand réðu við þau. Bestu skriðdrekar Frakka höfðu flestir tapast þegar franski herinn króaðist inni í Belgíu. Skriðdrekasveitir Þjóðverja voru reyndari og öflugri en þær frönsku skriðdrekasveitir sem eftir voru í Frakklandi, og Þjóðverjar gátu einbeitt sér að þeim parti víglínunnar sem þeim sýndist – en Frakkar þurftu að vera viðbúnir á allri víglínunni. Gífurlegur fjöldi flóttamanna gerði franska hernum erfitt fyrir, en talið er að tíu milljónir Frakka hafi stíflað alla vegi í Norður-Frakklandi og gerði þessi mannfjöldi franska hernum að sjálfsögðu erfitt fyrir þegar bregðast þurfti við sóknartilburðum Þjóðverja. Mestu skipti þó að þýski flugherinn Luftwaffe hafði algjöra yfirburði í lofti og gat látið sprengjum rigna hvar sem þýsku hershöfðingjunum þótti henta.
Minnimáttarkenndin blossar upp
Þann 10. júní höfðu Þjóðverjar náð að brjótast svo rækilega í gegnum frönsku víglínuna að Frakkar sáu fram á að þeir næðu brátt til Parísar. Reynaud hugsaði sér um tíma að verja París fram í rauðan dauðann, en hann var fenginn ofan af því. Menn sögðu sem svo að hvernig svo sem stríðið færi að lokum, þá væri enginn bættari þótt París yrði lögð í rúst. Þann 14. júní héldu þýskar hersveitir innreið sína í höfuðborg Frakklands.
Franska ríkisstjórnin hafði lagt á flótta frá París nokkru áður og nú var ákaft rætt hvað til bragðs skyldi taka. Reynaud til undrunar mæltu æ fleiri ráðherrar og hershöfðingjar fyrir því að Frakkar skyldu leita hófanna um vopnahlé við Þjóðverja, en það fól auðvitað í raun í sér uppgjöf. Það er eiginlega furðulegt að lesa um hve tilbúnir margir Frakkar voru til að gefast upp. Það var eins og minnimáttarkenndin gagnvart Þjóðverjum blossaði nú öll upp og sumir vildu drífa sig í að gefast upp aðallega til að sanna að minnimáttarkenndin hefði átt rétt á sér. Reynaud reyndi að fá ríkisstjórn sína til að halda baráttunni áfram og Churchill kom í skyndingu til Frakklands til að reyna að stappa stálinu í Frakka. Óvænt og djörf hugmynd skaut upp kollinum – að Frakkland og Bretland skyldu í einu vetfangi sameinuð í eitt sambandsríki sem héldi baráttunni gegn Þjóðverjum áfram hvernig sem allt veltist á vígvöllunum í Frakklandi sjálfu. Reynaud var fylgjandi þessari hugmynd og um tíma leit út fyrir að af henni gæti orðið. En fatalistarnir í frönsku ríkisstjórninni urðu ofan á, enda reyndust þeir eiga óvæntan bandamann.
Reyndi að drepa Churchill
Hélène de Portes hét kona ein, forstjóradóttir sem var um tíma gift frönskum greifa, en varð svo ástkona Reynauds sem sjálfur var fráskilinn. Hún var tæplega fertug er þarna var komið sögu og fáir skildu hvað Reynaud sá við hana – hún þótti frenja mikil, aðgangshörð og afar málgefin með óþægilega skræka rödd, svo einn helsti stuðningsmaður Reynauds meðal franska herforingja, Charles de Gaulle, kallaði hana „krákuna“ en Churchill nefndi hana „páfagaukinn“. Hún var ekki aðeins fjári skapstirð og ofsafengin, heldur var hún í raun fasisti, og hélt nú mjög fram þeirri skoðun að Frökkum bæri að semja umsvifalaust um vopnahlé við Þjóðverja og taka síðan upp þeirra stjórnarháttu. Hún var viðstödd fund með Churchill, sem talaði ákaft fyrir sambandsríkinu, og varð þá svo heitt í hamsi að hún réðist að breska forsætisráðherranum með hníf að vopni, en lífvörður Churchills afvopnaði hana naumlega. Þegar Reynaud sá að meira að segja í rúminu naut hann ekki stuðnings var honum öllum lokið. Öfund í garð Breta sagði nú líka mjög til sín og margir sögðu skárra að Frakkland yrði „nasistahérað“ en að það tapaði nýlendum sínum og heimsveldi undir ægishjálm Breta, eins og henda mundi ef yrði af hugmyndum um sambandsríki.
Reynaud gafst upp þann 16. júní og sagði af sér. Við tók Pétain marskálkur sem flýtti sér að gefast upp fyrir Þjóðverjum og þá fór í hönd sú skammarlega saga um samvinnu við nasista sem Frakkar kvíða nú hálfpartinn að verði loksins rifjuð upp fyrir alvöru.
Athugasemdir