Þegar Bjarna Benediktssyni varð ljóst að fjölmiðlar byggju yfir upplýsingum um eignir hans í skattaskjólum, þrátt fyrir fyrri yfirlýsingar um að ekkert slíkt væri að finna, gerði hann tilraun til að bíta höfuðið af skömminni. Opinberaði fjármálaráðherrann undanskotið með töluverðu magni af eftiráskýringum og fjármálafrussi sem átti að tryggja að engum dytti sú fásinna í hug að feluleikur eða skattahagræði væri fólgið í því að fela peninga í skattskjólum.
Bjarni mætti svo kokhraustur í Kastljósviðtal og hristi hausinn, skammaði Helga Seljan, nefndi ártöl og upphæðir og lét eins og við værum öll hræðilega vitlaus að halda að hann hefði verið að reyna að forðast skatta með því að fela peningana sína á aflandseyjum. Hann vissi jú ekki einusinni hvar þessar fjörtíu milljónir íslenskra króna væru! Þetta var bara partur af heiðarlegum fasteignaviðskiptum í Dubai þar sem peningarnir þurftu að ferðast í gegnum fjögur lönd í fjórum heimsálfum. Ekki skrítið að þá hafi skolað upp á aflandseyju án hans vitundar. Bara einföld fasteignakaup.
„Þetta var bara partur af heiðarlegum fasteignaviðskiptum í Dubai þar sem peningarnir þurftu að ferðast í gegnum fjögur lönd í fjórum heimsálfum.“
Í viðtalinu sagði Bjarni það sjálfsagt að skoða það að opinbera skattagögn, sem hann fullyrðir að gætu sannað að löglega hafi verið staðið að öllum skattgreiðslum. Nú er svo komið að það eina rökrétta í stöðunni hjá Bjarna er að verða við þeirri kröfu. Mál hans er algjörlega óuppgert fyrr en það er frá. Kjörinn fulltrúi okkar hefur verið staðinn að lygum, og ef hann ætlar að gera einhverja tilraun til þess að hreinsa æru sína þarf hann að slá á allar efasemdir um að peningarnir hans, sem sannarlega voru í skattaskjóli, hafi bara verið þar í fríi, en ekki til að sleppa úr augsýn skattayfirvalda.
Nú hefur David Cameron, opinberað skattagögn sín, í tilraun til að hreinsa mannorð sitt af tengingu við panamaskjölin. Breskir fjölmiðlar slepptu ekki af honum klónum fyrr en hann hafði sýnt allt sem beðið var um, og alls ekki er útséð með hans pólitísku framtíð. Samt er sú fjárhæð sem tengdi hann við aflandseyjar tífallt smærri en Bjarna.
„Á Íslandi mótmæla 22.000 og ríkisstjórn ríka fólksins fær sér pítsu og fer í stólaleik.“
Í London mótmæltu 5000 manns fyrir framan Downing Stræti 10, og þótti það vera til marks um að Cameron væri rúinn trausti bresks almennings. Á Íslandi mótmæla 22.000 og ríkisstjórn ríka fólksins fær sér pítsu og fer í stólaleik.
Þú vinnur fyrir íslensku þjóðina, Bjarni. Sýndu okkur pappírana, ef þú hefur ekkert að fela.
Athugasemdir