Þetta kann að hljóma undarlega, en ég tel að reynsla mín sem leikskáld gæti gagnast einum umdeildasta manni heims um þessar mundir; bandaríska forsetaframbjóðandanum Donald Trump. Ekki að ég hafi mikla trú á að hann myndi hlusta á mig. Ég er náttúrlega kona og þess utan komin á fertugsaldur, eða töluvert umfram síðasta söludag. En ef Trump hefði næga auðmýkt til að hlusta á manneskju eins og mig myndi ég segja eitthvað á borð við þetta:
Donald,
ég veit að undanfarnar vikur hafa verið strembnar og að framboð þitt hefur beðið álitshnekki. Stærsta vandamál þitt eru ekki ummælin um að grípa í píku kvenna og kyssa þær óháð vilja þeirra. Né heldur orð þín um að ákveðnar konur séu feitar og ljótar og ekki einu sinni þegar þú kallaðir konu af suður-amerískum uppruna „fröken húshjálp“ (þótt það hafi verið einkar grímulaust kynþáttaníð).
Stærsta vandamál þitt er handónýta karlmennskan sem þú stendur fyrir. Í gríska harmleiknum, sem kosningabarátta þín er, blasir sú staða við að þitt helsta einkennismerki verði jafnframt það sem tortímir þér. Eins og Aristoteles hefði skrifað handritið, hreinlega.
Ef við beinum kastljósinu að stefnuskrá þinni finnst þér ekki skipta máli að tryggja að karlmenn sem eignist börn fái tíma til að umgangast þau þegar þau koma í heiminn, til dæmis. Mæðrum dugar sex vikna fæðingarorlof, að þínu mati. Stofnanir á borð við Alþjóðaheilbrigðisstofnunina mæla með því að börn séu á brjósti fyrstu sex mánuði ævi sinnar, svo sex vikur kemst ekki einu sinni nálægt því að uppfylla lágmarkskröfur um næringu ungbarna. Raunar kemur ekki á óvart að brjóstagjöf sé ekki hugðarefni þitt, enda kallaðir þú móður þriggja mánaða barns „viðbjóðslega“ þegar hún bað um að hlé yrði gert á réttarhöldum svo hún gæti mjólkað sig. Í fljótu bragði er eina ferlið sem nær að ljúka á fyrstu sex vikunum eftir fæðingu að kynfæri kvenna ná að gróa nokkurn veginn. Kannski finnst þér það nóg, en eins og frægt er orðið hefurðu smættað konur niður í kynfæri sín við ýmis tækifæri. Sem leikskáld segi ég: Þennan díalóg þarftu að endurskrifa frá grunni, því þessi sena er ekki að virka.
Kannski telurðu að karlmennska og barnauppeldi séu ósamrýmanleg eða ótengd innbyrðis? Hvort tveggja er rangt. Kærleikur milli barna og foreldra spyr ekki um kyn, ekki fremur en skóstærð eða póstnúmer. Þótt fæstir hafi úr milljónum að moða eins og þú fékkst í vöggugjöf, þá getum við reynt að tryggja að allir fái færi á því ríkidæmi sem tengslamyndun milli foreldra og barna felur í sér. Fyrr á þessu ári sýndu niðurstöður úr könnun sem náði til 220 þúsund barna í 41 landi að íslenskir feður eru í bestum tengslum við börnin sín, enda er feðraorlof valkostur sem stendur fjölskyldum hérlendis til boða. Sérfræðingar telja engan vafa á tengingunni þarna á milli. Þessi vöggugjöf mun eflaust stuðla að betri andlegri heilsu karlmanna til frambúðar – og þar af leiðandi þjóðarinnar í heild.
Helsti vandinn í handriti þínu, Donald, er ímyndin sem þú dregur upp af karlmennsku. Hún er skaðleg, bæði þér og öðrum. Hún er skaðleg konunum sem þú hefur áreitt og niðurlægt, hún er skaðleg börnum sem drekka gagnrýnislaust í sig boðskapinn, hún er skaðleg fjölskyldum vegna úreltra kynhlutverka, hún er skaðleg körlum sem sjá þig klífa metorðastigann með hatursáróðri í garð minnihlutahópa og „búningsklefatali“, eins og þú reyndir að afsaka ofbeldisfyllstu ummæli þín með. Vissirðu að karlmenn sem verja miklum tíma í búningsklefum segjast ekki kannast við orðræðu þína? Fyrrum ruðningshetjan Chris Kluwe sagðist á átta ára ferli sínum í „mest macho, alpha male umhverfi“ sem fyrirfinnst, aldrei hafa heyrt neitt jafn „ógeðfellt og niðrandi“ það sem þú sagðir. Svo bætti hann við: „Ég spilaði meira að segja í tvö ár með manni sem reyndist síðar vera raðnauðgari. Ekki einu sinni hann talaði eins og þú.“
Samkvæmt leikritunarlögmálum Aristotelesar eru það útblásið stolt og skortur á dómgreind sem valda falli söguhetjunnar í grískum harmleik. Ef þú vilt eiga þér von á að verða söguhetjan í næsta kafla bandarískrar forsetasögu þyrftirðu að sjá villu þíns vegar og sýna auðmýkt. En jafnvel þá er óljóst hvort almenningur myndi lifa sig nægilega inn í aðstæður þínar til að catharsis, eða dramatískum hápunkti, yrði náð.
Á þessum tímapunkti, Donald, er líklega best að þú yfirgefir sviðið. Eftirlátir öðrum aðalhlutverkið. Ef karakterinn þinn á að eiga afturkvæmt þarf að endurhanna hugmyndakerfi hans frá grunni. Nútíminn gerir nefnilega kröfu um að karlmenn komi fram við konur sem jafningja, njóti samvista við börn sín, virði mörk í mannlegum samskiptum og skilji tækifærin sem felast í fjölbreytileika. Árið er nefnilega 2016, ekki 350 fyrir Krist. Með fullri virðingu fyrir Aristotelesi.
Athugasemdir