Þann 5. nóvember 1872 fóru fram forsetakosningar í Bandaríkjunum. Ulysses S. Grant forseti sóttist eftir endurkjöri fyrir repúblikana. Hann hafði verið yfirhershöfðingi Norðurríkjanna í borgarastríðinu sem lauk sjö árum áður og hafði nú setið í Hvíta húsinu í tæp fjögur ár. Fjölmörg spillingar- og hneykslismál höfðu komið upp í stjórn Grants og forsetinn var óspart gagnrýndur fyrir að látið slíkt líðast, en sjálfur var hann ekki talinn viðriðinn alvarleg mál. Hann naut enn verulegra vinsælda síðan í stríðinu og naut þess í kosningunum þar sem hann vann öruggan sigur á hættulegasta keppinaut sínum, Horace Greeley ritstjóra New York Tribune. Greeley bauð sig fram fyrir svonefnda frjálslynda repúblikana en naut líka stuðnings demókrata. Blað hans hafði síðustu ár leitt baráttuna gegn spillingunni sem þreifst í stjórn Grants, og úrslitin voru Greeley þvílík vonbrigði að hann dó þremur vikum eftir kosningarnar.
Þetta voru því að ýmsu leyti mjög dramatískar kosningar en nú má vel halda því fram að þær séu einna merkilegastar vegna þess að 1872 var kona í fyrsta skipti í framboði til forseta Bandaríkjanna. Núna, þegar aftur er komið að því að kjósa forseta þar vestra og ekkert ólíklegt að það endi með því að fyrsta konan nái kjöri í þetta valdamesta embætti heims, þá er vel við hæfi að rifja upp ævi brautryðjandans Victoriu Woodhull. Þótt hún hafi ekki náð neinum árangri í forsetakosningunum þessa amerísku haustdaga fyrir 144 árum, þá er saga hennar stórmerkileg.
Victoria fæddist í september 1838 þar sem heitir Homer í Ohio-fylki og var þá á útjaðri Bandaríkjanna, í vestri voru slétturnar miklu sem ekki var enn búið að ræna frá frumbyggjum. Ohio var því hið „villta vestur“ síns tíma og þar gekk ýmislegt á. Móðir Victoriu var ólæs áhugamanneskja um spíritisma, faðir hennar var svikahrappur sem seldi meðal annars snákaolíu – sem átti að vera mikill lífselixír og lækna alla mögulega sjúkdóma en var í rauninni bara glundur sem innihélt svolítið af alkóhóli.
Frjálsar ástir
Í æsku naut Victoria ekki skólagöngu nema í þrjú ár, því þá var fjölskyldan hrakin frá Homer eftir að heimilisfaðirinn – Old Buck Claflin – kveikti í niðurníddri myllu til að reyna að svíkja fé út úr tryggingum. Victoria skaut síðan upp kollinum í New York þar sem hún gekk að eiga fyrsta eiginmann sinn sem Canning Woodhull hét. Hann var 28 ára og kallaði sig lækni en ekki er þó vitað til að hann hafi lært neina læknisfræði. Victoria var nýorðin 15 ára þegar þau giftu sig 1853. Þau eignuðust tvö börn en Woodhull reyndist drykkfelldur og kvensamur ræfill. Í stað þess að bera þann harm sinn í hljóði skildi Victoria við hann eftir nokkurra ára hjónaband en bar samt nafnið Woodhull síðan.
Í þá daga var ekkert grín fyrir konur að skilja við eiginmenn sína í Bandaríkjunum. Lögformlega voru ýmsar hindranir í vegi en þær voru þó ekki síður andlegar. Fráskildar konur þurftu að rogast með níðþungar hneykslunarhellur á bakinu og ef þær höfðu sóst eftir skilnaði sjálfar þóttu þær vart í húsum hæfar.
Victoria gaf hins vegar dauðann og djöfulinn í almenningsálitið. Þótt hún hefði litla formlega menntun var hún ljóngáfuð, hafði bein í nefinu og lét engan vaða yfir sig. Hún gekk fljótlega aftur í hjónaband en það var heldur ekki vel heppnað og hún skildi öðru sinni áður en lauk. Á þrítugsaldri var hún komin í hóp róttæklinga og kvenréttindakvenna í New York og varð reyndar fljótlega þar allra fremst í flokki. Mesta athygli vakti barátta hennar fyrir „frjálsum ástum“ en þar var hún bæði opinskárri og skorinorðari en nokkur önnur kona þau árin. Hún skrifaði til dæmis (og þetta er fremur lauslega þýtt):
„Frá náttúrunnar hendi ber konunni réttur til ákvarðana í kynlífi. Það er fyrst þegar hvatir hennar sjálfrar vakna sem kaup skulu gerð. Þegar kona rís úr kynlífsþrældómi til kynlífsfrelsis, og eignast og stjórnar sínum kynfærum, og karlinn verður að virða það frelsi, þá verða þær hvatir hreinar og helgar; þá mun konan rísa úr þeim dapurlega sora þar sem hún verður nú að velkjast í sinni tilveru, og kraftur og dýrð sköpunargáfu hennar munu aukast hundraðfalt.“
„Ég hef rétt til að elska“
Kaflar eins og þessi úr skrifum Victoriu vöktu að sjálfsögðu mikla hneykslun upp úr miðri 19. öld. Hún var úthrópuð fyrir glannaskap í kynferðislífi og siðleysi, og auðvitað vöknuðu kjaftasögur um að hún hefði ofan af fyrir sér með vændi. Ekkert var þó hæft í slíkum söguburði og Victoria var náttúrlega ekki að mælast til að allar konur hæfu umsvifalaust þátttöku í kynsvalli og stóðlífi – eins og sumir fullyrtu. Hún var einfaldlega að berjast fyrir því að konur ættu að ráða því sjálfar hvenær og með hverjum þær stunduðu kynlíf. Að konur hafi þá verið í „kynlífsþrældómi“ karla – eins og hún komst að orði – var svo sannarlega ekki ofmælt.
Og Victoria gaf sig hvergi þótt á hana væri ráðist fyrir siðleysi, hún þrumaði yfir karlmönnum í ræðu árið 1871:
„Já, ég styð frjálsar ástir. Ég hef óafturkræfan stjórnarskrárbundinn og náttúrulegan rétt til að elska hvern þann sem mér sýnist, til að elska í eins langan eða stuttan tíma og mér hentar, til að skipta út ástinni á hverjum einasta degi ef mér dettur það í hug, og hvorki þið né ykkar lagabálkar hafið nokkurt leyfi til að skipta ykkur af þeim rétti mínum.“
Þegar þarna var komið sögu var Victoria orðin býsna vel stæð. Hún og yngri systir hennar, Tennie, sem var ekki síður merkilegur karakter, höfðu nefnilega stofnað fyrirtæki sem braskaði með hlutabréf á Wall Street og þær systur náðu býsna góðum árangri. Þær voru fyrstu konurnar sem létu að sér kveða á Wall Street. Tennie hafði komið undir sig fótunum sem spákona og miðill en var ekki síður róttæk kvenréttindakona en stóra systir. Hún barðist til dæmis fyrir því að vændi yrði lögleitt til að bæta ömurleg kjör vændiskvenna, og vildi líka að konur fengju að ganga í herinn ef þeim sýndist svo. Sagt var að Tennie hefði um tíma verið ástkona auðkýfingsins Corneliusar Vanderbilts og hann hefði hjálpað systrunum að stofna hlutabréfafyrirtæki sitt, en hvað hæft er í því er óvíst.
Systurnar stóðu að minnsta kosti vel fyrir sínu sem hlutabréfakaupmenn og notuðu gróða sinn til að stofna árið 1870 vikublað sem barðist fyrir stuttum pilsum, grænmetisfæði, lögleiðingu vændis, spíritisma, kvenréttindum, frjálsum ástum, getnaðarvörnum og kynlífsfræðslu. Fyrsta enska þýðingin á Kommúnistaávarpi Marx og Engels birtist í vikuriti systranna 1871.
Karl Marx hafði reyndar ekki mikið álit á Victoriu. Hann sagði um hana einhverju sinni að hún væri „bankakerling, frjálsraástasinni og almennur asni“.
Fyrrverandi þræll sem varaforsetaefni
En Marx var sannarlega ekki óskeikull og Victoria var sannarlega enginn asni. Hún dreif sig nú í forsetaframboð haustið 1872. Systurnar stofnuðu ásamt stuðningsmönnum sínum Jafnréttisflokkinn svokallaða sem reyndar var líka þekktur undir nafninu Alþýðuflokkurinn. Formlega séð var þetta framboð mjög athyglisvert þar sem konur höfðu ekki kosningarétt og þar af leiðandi ekki kjörgengi – að því er talið hafði verið. Victoria og stuðningsmenn hennar bentu hins vegar á að hvergi í lögum væri beinlínis tekið fram að konum væri óheimilt að bjóða sig fram, og því hlyti það að vera leyfilegt. Victoria útnefndi Frederick Douglass sem varaforsetaefni sitt, en hann var svartur á hörund og fyrrverandi þræll, afar virtur maður á sinni tíð. Douglass virðist ekki hafa verið spurður hvort hann vildi vera varaforsetaefni Victoriu en hann mótmælti því að minnsta kosti ekki.
Framboð Victoriu vakti þó nokkra athygli. Í raun gat það varla talist löglegt þar sem Victoria var ekki orðin 35 ára gömul, hún náði því ekki fyrr en í september 1873. Enginn virðist þó hafa gert mál úr þeirri staðreynd, en hins vegar vöktu skoðanir hennar á frjálsum ástum nú eina ferðina enn mikla úlfúð. Meðal þeirra sem gagnrýndu Victoriu fyrir áherslu hennar á ástamál var Henry Ward Beecher, frægur og virtur prestur og prédikari. Hann hafði stutt afnám þrælahalds á sínum tíma og studdi kvenréttindi í almennum skilningi, en fordæmdi nú Victoriu fyrir tal hennar um frjálsar ástir. Til að sýna fram á hræsnina sem fylgdi gagnrýni Beechers og ýmissa annarra, þá birti vikublað systranna þremur dögum fyrir forsetakosningarnar í nóvember 1872 grein þar sem vakin var athygli á framhjáhaldi prestsins, en hann var frægur „kvennabósi“ eins og það hét í þá daga.
Yfirvöld brugðust hart við. Victoria og Tennie systir hennar voru þegar í stað handteknar, ásamt þáverandi eiginmanni Victoriu sem skrifaði mikið í blað þeirra. Þeim var gefið að sök að hafa látið prenta „klámfengið blað“. Þau voru svo öll þrjú látin dúsa í fangelsi í mánuð við heldur vondan kost, en þá voru þau loks látin laus vegna þess að formlegir meinbugir voru á handtökunni.
Þetta þýddi að Victoria Woodhull, fyrsta konan sem fór í forsetaframboð í Bandaríkjunum, gat ekki kosið sjálfa sig. Hún hafði ætlað að láta á það reyna hvort lög bönnuðu konum beinlínis að kjósa í forsetakosningum.
Ekki er ljóst hve mörg atkvæði Victoria fékk í forsetakjör. Þau voru svo fá að upplýsingum um þau var hreinlega ekki haldið saman á kjörstöðum. Óhætt er að minnsta kosti að segja að hún hafi ekki blandað sér í baráttu Grants forseta og hins bráðfeiga Greeleys um Hvíta húsið.
Eftir forsetakosningarnar hélt Victoria áfram baráttu sinni en 1877 flutti hún til Englands. Þá mun hún hafa verið orðin nokkuð lúin á því aðkasti sem hún varð sífellt fyrir. Á Englandi gekk Victoria í hjónaband í þriðja sinn og gaf um skeið út blaðið Húmanistann ásamt dóttur sem hún hafði eignast með fyrsta eiginmanninum. Árið 1892 brá hún sér heim til Bandaríkjanna og hugðist þá fara aftur í forsetaframboð, enda sagði hún að því hefði verið spáð að hún myndi enda sem forseti. En lítið varð úr því framboði.
Victoria lést á heimili sínu á Bretlandi árið 1927, 88 ára að aldri.
Athugasemdir