Nú liggur fyrir að forsætisráðherra Íslands og eiginkona hans hafa geymt peningana sína í skattaskjólinu Bresku Jómfrúareyjum og þar með á svipuðum stað og margir þeirra fjárfesta sem mjólkuðu íslensku efnahagsbóluna með milljarðaarðgreiðslum á árunum fyrir hrunið 2008.
Þetta er verulega óþægileg staðreynd þar sem notkun fjársterkra aðila á skattaskjólum er samfélagslegt vandamál á Íslandi og í heiminum þar sem þessir staðir eru notaðir til að komast hjá skattgreiðslum til viðkomandi ríkja þar sem einstaklingarnir búa.
Eignir þeirra hjóna Önnur Sigurlaugar Pálsdóttur og Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar í félaginu Wintris Inc. á Bresku Jómfrúareyjum má áætla að nemi rúmum milljarði króna. Miðað við upplýsingar frá Seðlabanka Íslands síðla árs í fyrra þá áttu Íslendingar samtals tæpa 32 milljarða króna á Bresku Jómfrúareyjum í árslok 2014. Forsætisráðherrann og kona hans eiga því um 1/32 hlut af eignum Íslendinga á Bresku Jómfrúareyjum.
Umfang vandans hleypur á hundruðum milljarða
Íslendingar áttu hins vegar langmest af erlendum eignum í Hollandi eða ríflega 340 milljarða króna. En þó Holland sé ekki skattaskjól í sama skilningi og Bresku Jómfrúareyjarnar þá áttu margir íslenskir fjárfestar eignarhaldsfélög þar fyrir hrunið og eftir það og tóku arðgreiðslur frá Íslandi í gegnum þau, meðal annars Ólafur Ólafsson og Ágúst og Lýður Guðmundssynir. Hluti af þessum rúmlega 340 milljörðum eru því sannarlega eignir sem íslenskir aðilar hafa fært til Hollands af skattalegum ástæðum.
Þá áttu Íslendingar 115 milljarða króna í Lúxemborg en fjárfestar eins og Pálmi Haraldsson hafa meðal annars notast við eignarhaldsfélög þar í gegnum árin.
Umfang vandans - fjármunaflutningar og peningaeign Íslendinga í skattaskjólum og lágskattasvæðum erlendis - hleypur því á heildina litið á nokkur hundruð milljörðum króna. Ástæður þess að fjársterkir aðilar vilja heldur geyma peningana sína í skattaskjólum og á lágskattasvæðum erlendis eru skattalegar þar sem skattahagræði getur falist í því fyrir viðkomandi auk þess sem meiri leynd getur fylgt slíku eignarhaldi. Sem nærtækt og einfalt dæmi: Ef Wintris Inc. hefði verið skráð á Íslandi en ekki á Tortólu hefðu íslenskir fjölmiðlar væntanlega fyrir löngu verið búnir að fjalla um þetta fjársterka félag forsætisráðherrahjónanna.
Þá er það þannig í Hollandi til dæmis að tvo kröfuhafa fyrirtækis þarf til að hægt sé að setja félag í þrot en Arion banki hefur ekki getað sett félag í eigu Bakkavararbræðra í þrot vegna þessa. Þetta félag skuldaði nærri 70 milljarða árið 2013 en það var notað til að taka við um níu milljarða króna arðgreiðslum bræðranna frá Íslandi fyrir hrunið 2008.
„Það er ekki skattahagræði af þessu lengur“
Mótsagnakennd svör
Svör aðstoðarmanns Sigmundar Davíðs, Jóhannesar Þórs Skúlasonar, um notkun þeirra forsætisráðherrahjóna á skattaskjólsfélaginu eru nokkuð mótsagnakennd þar sem hann segir annars vegar að ekkert skattahagræði hafi verið af notkun þeirra á félaginu og svo hins vegar að skattahagræði hafi verið af því en að svo sé ekki lengur.
Orðrétt sagði Jóhannes Þór að Anna Sigurlaug hefði greitt skatta af eignum Wintris Inc. á Íslandi en að samt hefði á ákveðnum tímapunkti verið skattahagræði af félaginu fyrir hana. „Hún hefur bara greitt skatta samkvæmt íslenskum lögum. Eins og hefur komið fram í einhverjum fjölmiðlum þá var skattahagræði af þessu fyrir einhverjum árum en svo var reglunum breytt og það er ekki skattahagræði af þessu lengur. En það skiptir í raun og veru ekki máli af því hún hefur verið með þetta allti uppi á borðum gagnvart íslenskum skattayfirvöldum.“
Eins og Jóhannes Þór lýsti stofnun félagsins í samtali við Stundina þá var það hálfgerð hending að félagið var stofnað á Bresku Jómfrúareyjum og fylgdi Anna Sigurlaug bara ráðgjöf frá Landsbanka Íslands: „Þetta gerist upphaflega þannig að þegar hún selur hlut sinn í fjölskyldyfyrirtækinu 2008 þá fer hún til Landsbankans og spyr þá ráða og þeir ráðleggja henni að gera þetta svona. Þau bjuggu erlendis á þessum tíma og höfðu ekki nein plön um að flytja til Íslands. Eins og við vitum þá áttu bankarnir fullt af svona lagerfyrirtækjum sem þeir höfðu stofnað og þeir sögðu: Ja, hér er ágætis félag og er þettta ekki bara gott? Og þetta hefur verið svona síðan.“
Fyrirframgreiddur arfur eftir deilur
Enn liggur því ekki almennilega fyrir af hverju Anna Sigurlaug kaus að notast við félag á Bresku Jómfrúareyjum í staðinn fyrir til dæmis félag í Bretlandi eða jafnvel félag á Íslandi til að halda utan um fyrirframgreiddan arf sem hún fékk með herkjum frá foreldrum sínum eftir að deilan um peningana hafði næstum ratað fyrir dómstóla líkt og DV greindi frá árið 2012. Áður en málið var þingfest féllumst foreldrar Önnu Sigurlaugar hins vegar á að greiða henni arfinn og kom því ekki til málaferla fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur þar sem komið var málsnúmer á hið væntanlega dómsmál.
Arfinn má rekja til þess að faðir Önnur Sigurlaugar, Páll Samúelsson, seldi útgerðarmanninum Magnúsi Kristinssyni Toyota-umboðið fyrir nærri sex milljarða króna. Landsbanki Íslands fjármagnaði þau viðskipti. Samkvæmt því sem komið hefur fram í fjölmiðlum taldi Anna Sigurlaug að bróðir hennar, Bogi Pálsson, hefði fengið það mikla fjármuni frá föður þeirra - hann starfaði sem fjárfestir - að rétt væri að hún fengi einnig fjármuni frá foreldrum sínum.
Í kjölfarið lentu þessar eignir Önnu Sigurlaugar svo í skattaskjólinu Bresku Jómfrúareyjum.
Hvernig sænska ríkið verður af 690 milljörðum
Í gærkvöld var sýndur heimildarþáttur, Uppdrag Granskning, í sænska sjónvarpinu um notkun Svía á skattaskjólum. Samkvæmt þeirri heimildarmynd verður sænska skattstofan, og þar með sænska ríkið, af um 7 milljörðum sænskra króna, ríflega 100 milljörðum íslenskra króna, á ári vegna notkunar fjársterkra einstaklinga á skattaskjólum. Þegar sænsk stórfyrirtæki eru tekin með inn í myndina nemur upphæðin um 46 milljörðum sænskra króna eða sem nemur um 690 milljörðum íslenskra króna á ári. Í heimildarmyndinni kom fram að um 9000 sænskir einstaklingar eigi félög í skattaskjólum sem notuð er til að komast hjá skattgreiðslum, þar á meðal stjórnmálamenn og fólk úr sænsku konungsfjölskyldunni.
Einn af þeim er þingmaðurinn fyrrverandi Otto von Arnold sem sat á sænska þinginu á árunum 2006 til 2013 en hann steig sjálfur fram og greindi frá því við sænska skattinn að hann ætti eignir í skattaskjóli sem hann hefði ekki greitt skatta af. Arnold er einn af fáum á listanum sem vildi tjá sig um málið við sænska ríkissjónvarpið og sagði hann að peningarnir væru gamall arfur. „Útskýring mín er að þetta séu gamlir peningar frá aldamótunum 1900 og afi pabba míns átti. Þetta var gamall arfur. […] Það er aldrei gott að brjóta lög og þarna gafst gott tækifæri líka til að leiðrétta þetta. Mér fannst alveg rétt að gera það.“
Arnold var því í svipaðri stöðu að sögn og Anna Sigurlaug en hann, líkt og hún, tók ekki peningana sína úr skattaskjólinu þrátt fyrir að hann vissi að slík skjól væru óheppileg geymsluaðferð fyrir peninga. Öfugt við Önnu þá setti hann arfinn hins vegar ekki í sjálfur í skattaskjólið heldur erfði hann peninga sem voru geymdir á slíkum stað. Enginn af þeim sem rætt var við í heimildarmynd sænska ríkissjónvarpsins gat gefið neinar eðlilegar skýringar á því af hverju þeir geymdu peningana sína í skattaskjóli.
Í umfjöllun sænska ríkissjónvarpsins kom fram að ef sænski skatturinn kemst að því að einstaklingur eigi sem nemur meira en hálfum milljarði íslenskra króna í skattaskjóli án þess að hafa talið það fram geti viðkomandi átt á hættu að hljóta fangelsisdóm upp á hálft ár til sex ára.
Ótækt siðferðilega
Miðað við svör Jóhannesar Þórs um að Anna Sigurlaug hafi ætíð greint íslenskum skattayfirvöldum frá eignum Wintris Inc., auk þess sem upplýsingar upp úr skattagögnum um þau hjón staðfesta að þau greindu frá þessum eignum, þá er mál þeirra ekki sambærilegt við þau mál sem sænska ríkissjónvarpið fjallaði um í gær þar sem eignunum var leynt fyrir sænskum skattayfirvöldum. Hvort allt sem komið hefur fram í máli Önnur Sigurlaugar og Jóhannesar Þórs um félagið er rétt á svo eftir að koma í ljós.
Hins vegar er afar einkennilegt að af því berist fréttir að forsætisráðherra og kona hans notist við fyrirtæki í skattaskjóli til að halda utan um eignir sínar. Siðferðilega er þetta ótækt alveg sama þó það kunni að vera rétt að íslensk skattayfirvöld hafi vitað um eignir Wintris Inc. þar sem forsætisráðherra hefur með aðkomu sinni að eignarhaldi félagsins í gegnum konuna sína ljáð því samþykki þitt að það sé eðlilegt að nota fyrirtæki í skattaskjólum til að stunda viðskipti. Ef þetta er ekki siðlaust hjá forsætisráðherra í lýðræðisríki þá veit ég ekki hvað er siðlaust.
Og af hverju nota þau Anna Sigurlaug og Sigmundur Davíð félag í skattaskjóli ef það er ekkert skattahagræði af því fyrir þau? Slík ákvörðun felur í sér mikla orðsporsáhættu fyrir engan ávinning og verður að teljast órökrétt.
Annar fjárhagslegur veruleiki
Notkun þeirra á félaginu þýðir líka að Sigmundur Davíð og Anna Sigurlaug þurftu ekki að taka á sig eins mikla eignarýrnun og aðrir Íslendingar vegna falls íslensku krónunnar þar sem eignir þeirra voru geymdar erlendis í erlendum myntum. Þetta þýðir líka að eftir fall krónunnar í hruninu þá gátu þau skipt erlendum einum sínum yfir í krónur með hagstæðum hætti og eftir atvikum flutt þessar eignir stökkbreyttar til Íslands til fjárfestinga eða til eigin framfærslu þar sem þau tóku eignir úr landi fyrir hrunið 2008. Þau gátu líka fjárfest fyrir peningana að vild í öðrum löndum þar sem þeir voru utan hafta Íslands í skattaskjólinu.
Fjárhagslegur veruleiki Önnu og Sigmundar Davíðs er með öðrum orðum allt annar en fjárhagslegur veruleiki íslenskra kjósenda sem lifa lífi sínu með krónu í höftum og geta því ekki flutt peninga óhindrað úr landi til fjárfestinga eða stundað annars konar viðskipti á milli landa. Auk þess er stofninn í eignasafni þeirra hjóna því ekki háður íslensku krónunni eða íslensku efnahagskerfi með sama hætti og ef eignir þeirra væru staðsettar á Íslandi. Fjárhaglega áhættan af pólitískum ákvörðunum Sigmundar Davíðs og efnahagsstefnu ríkisstjórnar hvílir því ekki á honum sjálfum að þessu leyti þó slík áhætta hvíli á eignum kjósenda hans.
„Þetta var dagurinn þegar það fréttist að íslenskur forsætisráðherra ætti milljarð í Tortóla-félagi“
Forsætisráðherrahjónin og þeir sem settu Ísland á hliðina
Staða Önnur Sigurlaugar og Sigmundar Davíðs hefur því verið sambærileg við stöðu hluta ríkasta eins prósents þjóðarinnar sem geymir eignir sínar erlendis; eignir sem viðkomandi aðilar tóku út úr íslenska hagkerfinu fyrir hrun og snúa svo eftir atvikum aftur til Íslands með þær til að ávaxta þær hér á landi. Dæmi um slíka aðila eru til dæmis Bakkavararbræðurnir Lýður og Ágúst Guðmundssynir, sem tóku um níu milljarða arð til Hollands og Kýpur frá Íslandi á árunum fyrir hrun en sem hafa einnig flutt inn fjármagn til Íslands frá Bresku Jómfrúareyjum eftir hrun með afslætti frá íslenska ríkinu; Pálma Haraldsson sem aftur er byrjaður að greiða út arð frá Íslandi til fyrirtækis síns í Lúxemborg eftir að hafa tekið nokkra milljarða með þessum hætti út úr landinu fyrir hrun; Hannes Smárason og Magnús Ármann sem eiga um tveggja milljarða króna skíðaskála í frönsku Ölpunum í gegnum skattaskjól og Ólaf Ólafsson í Samskipum sem fékk mikinn arð frá Kaupþingi til hollensks eignarhaldsfélags síns fyrir hrun og sem hefur einnig flutt peninga frá eftir hrun með afslætti frá íslenska ríkinu.
Notkun fjárfesta á slíkum félögum í skattaskjólum og vilji þeirra til að taka eins mikinn arð og þeir gátu frá Íslandi þegar hlutabréfaverð og íslenska krónan voru í hæstu hæðum er ein af orsökum fjármálahrunsins á Íslandi. Og forsætisráðherra Íslands og kona hans eiga líka slíkt félag.
Forsætisráðherra Íslands og eiginkona hans hafa sem sagt notast við sömu geymsluaðferð á fjármunum og þessir aðilar eftir hrun. Upplýsingarnar sýna því svart á hvítu að forsætisráðherra hefur alls ekki setið við sama krónuborðið og kjósendur hans heldur hefur hann setið við sama borð og ýmsir alþjóðlegir fjárfestar og hluti þeirra manna sem hvað mest högnuðust á íslensku góðærinu fyrir síðasta hrun.
Það er sennilega einsdæmi á Vesturlöndum að forsætisráðherra í lýðræðisríki eigi slíkra ríkra fjárhagslegra hagsmuna að gæta í fyrirtæki í skattaskjóli. Mér finnst þetta vera svo sláandi frétt að ég næ varla utan um hana ennþá. Dagurinn í gær var því stór að þessu leyti; þetta var dagurinn þegar það fréttist að íslenskur forsætisráðherra ætti milljarð í Tortóla-félagi ásamt konu sinni.
Athugasemdir