Þessa dagana hitnar verulega í kolunum í sambandi við forsetakosningarnar í Bandaríkjunum. Þá halda bæði Repúblíkanar og Demókratar svokallaðar forkosningar, sem eru í raun fyrsta skrefið í því ferli sem lýkur með því að flokkarnir koma sér saman um forsetaframbjóðanda. Og stóllinn í Hvíta húsinu er undir, forsetastóllinn.
Iowa fyrst
Það er í landbúnaðarfylkinu Iowa, í mið-vestrinu í USA, sem flokkarnir ríða á vaðið og spennan magnast dag frá degi, enda kosið þar 1.febrúar. Í Iowa búa ekki nema um 3 milljónir manna (um 1% íbúafjölda USA), en mikilvægi þessara forkosninga og í fylkinu New Hampshire er langt umfram íbúafjölda þeirra.
Segja má að þessi fylki séu ekki það sem kallað er „þversnið“ af íbúasamsetningu Bandaríkjanna (mest hvítir), en í þeim gefst almenningi fyrsta tækifærið til þess tjá skoðanir sínar og velja frambjóðendur. Þessar forkosningar fá líka gríðarlega athygli og það getur skipt mjög miklu máli fyrir þá frambjóðendur sem vel gengur í þeim. Það er því nokkuð víst að úrslit í öðrum fylkjum, með aðra íbúasamsetningu, verði öðruvísi. Möguleikinn er að minnsta kosti til staðar.
Gegn flokksræðinu
Forkosningakerfið varð til um aldamótin 1899/1900, þær fyrstu í sambandi við forsetakosningar í Flórída-fylki árið 1901. Þannig að þetta er rúmlega aldargamalt fyrirbæri. Meðal annars voru ástæður þess að menn vildu minnka völd flokkanna yfir útnefningarferlinu. Gegn flokksræðinu. Það má því ef til vill segja að hér hafi átt sér stað ákveðin valddreifing; frá litlum hópi manna, til fjöldans. Það eru jú í samræmi við þá kenningu að valdið komi frá fólkinu.
Báðir flokkar halda forkosningar í öllum fylkjum Bandaríkjanna, en þær eru tvenns konar; svokallaður kjörfundur (Caucus) eða forval (Primary). Forvalið getur hins vegar verið opið (bæði repúblíkanar og demókratar mega kjósa hvor annan) og eða lokað fyrir skráða flokksmenn. Þetta er mismunandi eftir fylkjum, sem og reglur um tilskilinn hluta atkvæða, sem frambjóðendur þurfa að fá og svo framvegis. Margbreytileiki fylkja Bandaríkjanna (sem eru sambandsríki) endurspeglast í þessu eins og öðru. Þetta er því ekki alveg svo einfalt þegar upp er staðið.
Sérkennilegt ferli
Sagt er að mjög áhugavert sé til dæmis að fylgjast með kjörfundi, það sem kallað er Caucus. Þar koma menn saman og ræða kosti og galla frambjóðendanna í sínum heimakjördeildum og síðan er gengið til atkvæða, til dæmis í formi handauppréttingar, eða menn jafnvel skipa sér í hópa eftir því hvaða frambjóðendur þeir styðja. Þarna geta því skapast heitar umræður. Sérkennilegt ferli, en engu að síður áhugavert.
Þetta forkosningaferli stendur fram í miðjan júní, en stærsti dagurinn í því er svokallaður ,,Super-Tuesday“ - ,,Ofur-þriðjudagurinn“ sem er þann 1.mars næstkomandi. Þá halda báðir flokkar forkosningar í fimmtán fylkjum og í kjölfar þeirra skýrast línur allverulega í þessu.
Í kjölfarið á forkosningaferlinu taka við landsfundir flokkanna, þar sem endanlega er gengið frá því hverjir verða lokaframbjóðendur flokkanna. Repúblíkanar halda landsfund í borginni Cleveland í Ohio dagana 18-21.júlí næstkomandi. Þar eru 2470 fulltrúar og þarf frambjóðandi að fá stuðning 1236 (50%+1) til að hljóta formlega tilnefningu flokksins sem forsetaframbjóðandi.
Demókratar halda sinn landsfund í hinni sögufrægu borg, Fíladelfíu í Pennsylvaníu-fylki dagana 25.-28.júlí. Þar eru mun fleiri landfundarfulltrúar eða á bilinu 5-6000. Árið 2012 voru til að mynda 5554 fulltrúar og þar gildir líka meirihlutareglan.
Fjölmiðlasýningar
Landsfundir þessir eru gríðarlegar fjölmiðlasýningar og draga að sér mikla athygli. Og það er eins með forkosningarnar – þær veita sigurvegurunum mikla athygli og beina líka fjármagni að þeim sem sigrar. Menn vilja jú veðja á sigurstranglegasta hrossið í þessu langhlaupi! Og talandi um peninga; talið er að eytt verði allt að fjórum milljörðum dollara í baráttuna að þessu sinni, sem er mun meira en síðast. Það er um 5-600 milljarðar íslenskra króna. Það skýrist meðal annars af því að nú eru frambjóðendur repúblíkana óvenju margir.
En eitt af því sem forkosningarnar gera er að láta menn ,,detta úr keppni“ – því gangi illa, gengur illa að raka saman bæði stuðning manna og fé til baráttunnar. Menn snúa við þér baki og veðja á einhvern annan. Það er hinn grimmi veruleiki forkosninganna. Dæmi eru þó um að menn hafi byrjað illa í forkosningum en samt orðið forseti, en slíkt var raunin með George W. Bush árið 2000. Sumir vilja reyndar meina að hann hafi á endanum unnið fyrir tilstilli kosningasvindls, en það er önnur saga.
Höfundur er MA í stjórnmálafræði
Athugasemdir