Heilsan er það dýrmætasta sem við eigum, bæði forsenda hamingju okkar og fjárhags. Hún er ekki bara persónuleg. Heilbrigðiskostnaður er hæsti útgjaldaliður ríkisins og heilsan er forsenda mannauðs og framleiðni.
Síðustu ár hefur hins vegar verið einbeittur vilji hjá ráðandi öflum að taka ákvarðanir sem er vitað að skaðar heilsu fólks og barna.
Heilsa barnanna okkar
Það skortir ekki upplýsingar um hvað skaðar heilsuna. Einhverjir mestu skaðvaldarnir okkar eru slæm neysla og hreyfingarleysi, samhangandi við ofþyngd. Á Íslandi hafa augljóslega skapast aðstæður sem valda börnum ofþyngd. Það kristallast í því að börnin okkar eru þau næstþyngstu í Evrópu. Við höfum nú vitað í þónokkur ár að íslensk börn glíma við offitufaraldur. Við vitum líka að offita veldur alvarlegum sjúkdómum.
Nú vitum við líka, út frá fjölþjóðlegri rannsókn, að ofþyngd barna eykur verulega líkurnar á þunglyndi síðar á lífsleiðinni. Þau sem eru of feit átta ára eru þrisvar sinnum líklegri en börn í kjörþyngd til að verða alvarlega þunglynd síðar á lífsleiðinni.
Aðstæðurnar sem við sköpuðum hér skaða almennt börnin okkar til framtíðar. Við erum að skapa okkur inneign í óhamingju og heilbrigðiskostnaði. En hver ber ábyrgð á því? Svarið er misjafnt eftir því hvern er talað við. Margir myndu segja að stjórnvöld beri ábyrgð á því að skapa heilsuhvetjandi aðstæður, þar sem kostnaðurinn endar hvort sem er á ríkinu. Þeir sem aðhyllast frjálshyggju myndu hins vegar einfaldlega kenna foreldrunum um.
Það eru hins vegar aðrar og ytri ástæður sem vitað er að valda ofþyngd. Þær aðstæður eru á ábyrgð frjálshyggjumannanna sem kenna foreldrunum um.
Hvað skaðar heilsu?
Offitufaraldurinn hefur náð hámarki í heiminum í Bandaríkjunum. Það tengist því að í Bandaríkjunum hafa tvenns konar meginorsakir offitu náð hámarki: Annars vegar er neysla unninna matvæla komin lengst í þróun og magni í Bandaríkjunum og hins vegar er bílaeign og -notkun mest allra þjóða í heiminum í Bandaríkjunum – fyrir utan Ísland. Við erum komin fram úr þeim.
Afleiðingin af þessu – svo og einkarekstri í heilbrigðiskerfinu – er að Bandaríkin eyða langmestu af þjóðarframleiðslu sinni í heilbrigðismál, eða 17 prósent. Þeir lifa engu lengur og ævilengd sumra hópa er núna að styttast. Núverandi kynslóð er sú fyrsta í Bandaríkjunum sem áætlað er að lifi skemur en foreldrarnir.
Við vitum að við erum núna á þeim stað að unga fólkið okkar er að glíma við ofþyngd. Það hefur farið saman við bandaríska neyslumenningu og svo bandarískt borgarskipulag.
Frjálshyggjufólk vill kenna því sjálfu um, en út frá rannsóknum er mjög auðvelt að benda á ytri orsakaþætti sem við höfum í vaxandi mæli átt sameiginlega með Bandaríkjunum.
Baráttan gegn almenningssamgöngum
Í Noregi hefur verið mynduð heildstæð stefna gegn lífsstílssjúkdómum. Þeir áhættuþættir sem unnið er með eru eftirfarandi: tóbak, áfengi, sykur, salt, fita og kyrrseta.
Hluti af viðbrögðunum er að styðja almenningssamgöngur. Fimm borgir hafa skuldbundið sig til að koma í veg fyrir að bílaumferð aukist, og fá styrki frá ríkinu í staðinn.
Á Íslandi er hins vegar samgönguráðherrann, Jón Gunnarsson, í baráttu gegn sambærilegri stefnu borgarstjórnar í Reykjavík. Hann vill frekar mislæg gatnamót en að styrkja almenningsamgöngur fyrir sama peninga og hefur þegar beitt sér í þeim efnum til að stöðva samkomulag sex sveitarfélaga um svokallaða borgarlínu, sem yrði bylting í almenningssamgöngum á höfuðborgarsvæðinu.
Annar ráðherra ríkisstjórnarinnar, Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra, berst fyrir því að lækka skatta á mengandi bíla og kvartar undan „aðför að bíleigendum“.
Tengsla- og skilningsleysið á samhenginu birtist svo í orðum Brynjars Níelssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, í vetur að fátækt fólk gæti ekki átt bíl. „Sá sem ákveður að eyða fé sínu í bíl getur ekki talist fátækur.“
Vandinn er sá að með borgarskipulags- og samgöngustefnu Sjálfstæðisflokksins hefur frelsi fólks til að lifa án bíls verið skert. Fólk verður að eiga bíl til að sækja vinnu með góðu móti.
Þegar slíkt frjálshyggjufólk selur kjósendum lausnir í formi lægri skatta á bíla, meiri umferðarmannvirkja og stærri úthverfi, skapa þeir aðstæður sem eru óheilsusamlegar og fjárhagslega skaðlegar, sérstaklega fyrir þá efnaminnstu.
Aðförin
Rótin að bílaskipulaginu var aðalskipulag frá sjöunda áratugnum, sem lagði áherslu á dreifða byggð, hraðbrautir og útþenslu, það sem kallað er urban sprawl. Þessi stefna gilti allt þar til nýtt og nútímalegra aðalskipulag var gert upp úr aldamótunum, þar sem kjarninn var að gera hollar og hagkvæmar samgöngur auðveldari með þéttingu byggðar og áherslu á almenningssamgöngur og hjóla- og göngustíga. Því var hins vegar ekki fylgt eftir af neinni alvöru fyrr en Besti flokkurinn og Samfylkingin ákváðu að snúa frá úthverfavæðingunni.
Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík leggur hins vegar núna höfuðáherslu á að hverfa aftur til borgarskipulags sem vitað er að skaðar heilsu og fjárhag íbúanna. Á Reykjavíkurþingi flokksins í maí kom fram að „Sjálfstæðisflokkurinn vill tafarlaust endurskoða núgildandi aðalskipulag Reykjavíkur“ og hefja útþenslu byggðarinnar að nýju og aukna áherslu á einkabílinn og þar með heilsuskaðlegt skipulag sem hann hefur staðið fyrir áður undir merkjum frelsis.
Það er líka aðför að frelsi einstaklings, sem býr í borg, að neyða hann til að eyða í einkabíl til að eiga raunhæfa möguleika til að eiga fullnægjandi líf.
Sjálfstæðismenn í Reykjavík hafa lengi talað um aðförina að einkabílnum eða „fjölskyldubílnum“, eða „okkar almenningssamgöngum“ eins og þau kalla einkabílinn núna. En það er kominn tími til að tala um aðförina að heilsunni.
Gerði óhollan mat ódýrari – hollan dýrari
Óhollt mataræði er stærsti orsakavaldur glataðra góðra æviára á Íslandi.
Það er viðurkennt um allan heim að sykruð, unnin matvæli eru óhollustu matvælin og mesta ógnin við heilsufar manna. Vegna þess maga mörg ríki og borgir nýlega tekið upp sérstakan skatt á sykraða gosdrykki eða sykruð matvæli. Á Íslandi ákvað Bjarni Benediktsson, þá fjármálaráðherra, að hækka skatt á allan mat en afnema sérstakan skatt á sykruð matvæli, og þannig lækka þau í verði.
Efnað fólk finnur ekki endilega muninn, en það gera helst þeir efnaminnstu. Með þessu gerði Bjarni erfiðara fyrir fólk að kaupa hollan mat og auðveldara að kaupa óhollan. Barnmargar fjölskyldur og efnalitlar eru þannig hvattar til að skerða heilsu sína.
Þessi aðgerð Bjarna, sem nú er forsætisráðherra, var þvert gegn ráðleggingum Landlæknis, og andstæð allri stefnumótun í lýðheilsu sem grundvallast á vísindalegri þekkingu.
Sú matvara sem einna helst er tengd við skaðlega heilsu eru sykraðir drykkir. Núna er hægt að nálgast gosdrykkjadósir á 19 krónur stykkið í Costco – ef keyptar eru 24 dósir í einu og skilagjald dregið frá.
Ódýrar kaloríur, snauðar af næringu, í mikið unnum matvælum, sem líffræðilega hvetja fólk til að neyta mikils, og í stórum pakkningum, hafa allt til að bera til að skaða heilsu fólks og barna, sérstaklega þá sem eru efnalitlir og hafa síður efni á gæðamatvælum.
Annað skref í lýðheilsumálum er að reyna að koma í gegn frumvarpi um sölu áfengis í matvörubúðum, gegn áliti allra fagaðila sem telja það munu skaða heilsu þjóðarinnar. Aðferðin er að grafa undan trú á vísindum til að réttlæta aðgerðina.
Heilsan – þitt vandamál
Og nú er verið að taka skref fyrir skref í áttina að því að auka einkarekstur í heilbrigðiskerfinu, sem getur í framtíðinni leitt til þess að heilsuskaðinn af stefnumótun flokksins verði einkamál fólksins sem verður fyrir honum.
Þótt heilbrigðismál séu stærsti kostnaðarliður samfélagsins og nauðsynleg forsenda virkni okkar sem einstaklinga hefur Sjálfstæðisflokkurinn ekki sett í forgang að fyrirbyggja skaðann.
Við leggjum minni fjárfestingu í forvarnir en aðrir, setjum 1,6 prósent heilbrigðisútgjalda til forvarna, á meðan meðaltal í Evrópu er 3 prósent. Við lifum einna lengst í heiminum, en það sem kemur ekki fram þegar fréttirnar af því eru sagðar, er að við erum mun neðar á listanum þegar kemur að meðalævilengd heilbrigðs lífs. Við lifum lengur, en erum skemur heilbrigð en fólk í samanburðarlöndum.
Ábyrgð okkar
Við berum öll ábyrgð á okkar eigin heilsu og foreldrar bera ábyrgð á neyslu barnanna sinna. En þeir sem valdir eru í stjórnunarstöður samfélagsins bera ábyrgð á því að aðstæður séu hvetjandi frekar en letjandi til heilbrigðs lífsstíls.
Við gerum margt vel, en það er sjúkdómseinkenni á samfélaginu að fagaðilar í heilsu skuli vera í stöðugri vörn gagnvart æðstu stjórnendum ríkisins og ákvörðunum þeirra.
Það hefur sýnt sig að stjórnvöld okkar leggja áherslu á að gera skaðlegan mat ódýrari. Þau vilja auka aðgengi að áfengi, gegn vilja almennings og áliti fagaðila. Og vilja hindra uppbyggingu almenningsamgangna og heilbrigðs borgarskipulags. Mynstrið er kerfisbundin aðför að lýðheilsu.
Lærdómurinn af þessu er ekki hvernig eigi að taka farsæl skref til að fyrirbyggja heilsuskaða. Það er vitað. Hann er ekki hvort það borgi sig að gera það, því lækkaður heilbrigðiskostnaður og samgöngukostnaður veldur þjóðhagslegum og persónulegum sparnaði. Lærdómurinn er að við erum með stjórnvöld sem taka ítrekað ákvarðanir sem beinlínis orsaka skaða á heilsu okkar, jafnvel þótt áhrifin séu vel þekkt. Skaðvaldurinn er andskynsemi. Og við erum sameiginlega tilneydd til að bera ábyrgð á henni, bæði orsökum hennar og afleiðingum.
Athugasemdir