Gefið hefur verið út að blaðamönnum í Tyrklandi, sem flytja gagnrýnar fréttir af innrás tyrkneska hersins í Sýrland, verði refsað fyrir umfjallanir sínar. Þetta kemur meðal annars fram í yfirlýsingu saksóknaraembættisins í Istanbul, stærstu borg Tyrklands, þar sem fram kemur að einstaklingar sem „ráðast á almannafrið í Lýðveldinu Tyrklandi, innanlandsfrið, semheldni eða öryggi“ með „hvers kyns áivriðingum í fréttum, skrifum eða ljósvakamiðlun eða samfélagsmiðlum“ verði saksóttir samkvæmt hegningarlögum og lögum gegn hryðjuverkum.
Í nýjustu vendingum í innrásinni er greint frá því að stjórnarher Sýrlands, sem studdur er af Írönum og Rússum, sækir nú í átt að tyrkneska innrásarhernum, eftir að kúrdískar hersveitir náðu sáttum við stjórnarherinn.
Innrásin gengur undir heitinu Friðarvor í Tyrklandi og hefur verið studd opinberlega af tyrkneska landsliðinu í knattspyrnu, sem mætir íslenska landsliðinu í næsta mánuði. Franskir stjórnmálamenn lýstu því yfir að Frakkar ættu að sniðganga leik Frakklands og Tyrklands í dag, en utanríkisráðherra Frakklands ákvað sjálfur að hætta við að sækja leikinn.
Blaðamenn handteknir
Hakan Demir, ritstjóri fréttamiðilsins BirGün, var handtekinn á heimili sínu í síðustu viku eftir að hafa birt tíst á Twitter um innrásina. Þá var Fatih Gökhan Diler, fréttaritstjóri vefréttamiðilsins Diken, handtekinn á ritstjórnarskriftofu sinni sama dag, vegna fréttar þar sem vitnað var í talsmann kúrdískra hersveita, Lýðræðisafla Sýrlands.
Báðir voru látnir lausir, en rannsókn stendur yfir. Þeim er meinað að fara úr landi. Evrópuráðið hefur sett atvikin á lista yfir ógn gegn lýðræðinu.
Á þriðja hundrað blaðamanna hafa verið handteknir frá árinu 2016, eftir að valdaránstilraun fór út um þúfur. Í fyrra voru 122 blaðamenn dæmdir í fangelsi.
Evrópusambandið hefur ákveðið að hætta vopnaflutningum til Tyrklands vegna innrásarinnar, sem átti sér stað eftir að Donald Trump Bandaríkjaforseti ákvað án samráðs við ráðgjafa sína og þingið, að draga herlið Bandaríkjanna frá landamærum Tyrklands og Sýrlands. Á sama tíma hótar Recep Erdogan Tyrklandsforseti því að láta milljónir flóttamanna flæða yfir Evrópuríki ef þau skyldu lýsa innrásinni sem hersetu. Þá segir Erdogan að Evrópuríki taki afstöðu með hryðjuverkum.
Sameinuðu þjóðirnar uggandi
Yfirlýstur tilgangur innrásarinnar er að skapa öruggt svæði innan landamæra Sýrlands við Tyrkland, þangað sem senda mætti sýrlenska flóttamenn.
Sameinuðu þjóðirnar hafa gefið út að 160 þúsund manns hafi flúið heimili sín við innrás Tyrkja, auk þess sem fjöldi almennra borgara hafi týnt lífi. Þá lýsa bæði SÞ og Evrópusambandið yfir áhyggjum af þeim 12 þúsund liðsmönnum samtakanna sem kenna sig við Íslamska ríkið, sem eru í haldi Kúrda. Herdeildir Kúrda hafa verið í lykilhlutverki við að sigrast á Íslamska ríkinu, en Tyrkir skilgreina kúrdísku sveitirnar sem hryðjuverkasamtök. Kúrdar voru áður studdar af Bandaríkjamönnum, þar til Trump forseti ákvað eftir símtal við Erdogan að snúa við blaðinu. Nú hafa kúrdísku sveitirnar hins vegar myndað bandalag með sveitum Assads Sýrlandsforseta, sem studdur er af Íran og Rússlandi. Hassan Rouhani, forseti Írans, sagði í dag að ríkisstjórn hans „samþykkti ekki aðferðina sem [Tyrkir] beita“ og bað Tyrki að láta af innrásinni. Erdogan sagðist hins vegar ekki ætla að bakka, „sama hvað hver segir“.
Á sama tíma er Vladimir Putin Rússlandsforseti í heimsókn í Sádí-Arabíu, en ríkið á Arabíuskaganum hefur lengi verið einn nánasti bandamaður Bandaríkjanna á svæðinu.
Lykilfólk í bandarísku fulltrúadeildinni og öldungadeildinni ráða nú ráðum sínum um mögulegar refsiaðgerðir gegn Tyrkjum, studdar af Demókrötum og Repúblikönum.
Rætt á Íslandi
Ísland er ásamt Tyrklandi hluti af Norður-Atlantshafsbandalaginu, en samstarfið felur í sér að árás á eina þjóð Nató er árás á þær allar.
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra svaraði í dag fyrirspurn Halldóru Mogensen, þingmanns Pírata, á Alþingi, þar sem hún velti því upp hvort Tyrkir gæti dregið Íslendinga með sér í stríð. „Getum við treyst á varnarsamstarf með þjóðum eins og Bandaríkjunum og Tyrklandi? ... Er kominn tími til að endurskoða veru okkar í NATO?“ spurði Halldóra.
„Er kominn tími til að endurskoða veru okkar í NATO?“
Guðlaugur svaraði því til að „fljótsvarað“ væri að Tyrkaland gæti ekki dregið Íslendinga með sér í stríð. „Við mótmælum harðlega framferði Tyrkja og sömuleiðis fordæmum við brot sem verða á almennum borgurum,“ sagði hann.
Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri Nató, hefur hins vegar sagt að Tyrkland haldi áfram að vera mikilvægur aðili að varnarbandalaginu.
Íslensk yfirvöld hafa átt í samskiptum við þau tyrknesku vegna hvarfs Hauks Hilmarssonar, sem ferðaðist til Sýrlands og studdi kúrdískar sveitir til baráttu fyrir lýðræði. Haukur var sagður hafa týnt lífi í árás tyrkneska hersins.
Vakið hefur athygli að liðsmenn tyrkneska knattspyrnulandsliðsins lýstu allir sem einn yfir stuðningi við innrás Tyrkja í Sýrland þegar þeir heilsuðu að hermannasið bæði eftir að hafa skorað mark gegn Albaníu á föstudag og svo í búninsklefa eftir leikinn.
Íslenska landsliðið í knattspyrnu mætir því tyrkneska 14. nóvember næstkomandi í Tyrklandi. Skemmst er þess að minnast að fjöldi Íslendinga fékk ógnandi skilaboð frá stuðningsfólki tyrkneska landsliðsins eftir að liðið var látið undirgangast öryggisleit á Keflavíkurflugvelli og belgískur grínisti beinti uppþvottabursta að liðsmanni Tyrkja þegar hann var í viðtali við fjölmiðla. Meðal annars var fjölskyldu íslenskra íþróttafréttamanna hótað ofbeldi og nauðgunum.
Auk þessa kvörtuðu tyrknesk yfirvöld formlega við þau íslensku.
Athugasemdir