Um áratugaskeið hefur verið deilt um aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu. Flestir stjórnmálaflokkar hafa þó stutt veru okkar í Nató og jafnvel skilgreint hana sem einn af hornsteinum íslenskrar utanríkisstefnu. Hver svo sem afstaða fólks hefur verið til Nató í gegnum tíðina (og sá sem hér ritar hefur alltaf verið harður á móti) getum við ekki haldið áfram að láta eins og ekkert sé. Við þurfum að tala um Tyrkland.
Þrátt fyrir digurbarkarlegar yfirlýsingar um að vera brjóstvörn lýðræðis og mannréttinda, hefur Atlantshafsbandalagið aldrei kippt sér upp við að hafa einræðisstjórnir innan sinna vébanda. Grískar og portúgalskar herforingjastjórnir áttu sæti við leiðtogaborð Nató og stærri forysturíki sambandsins, einkum Bandaríkin, Bretar og Frakkar, hafa ekki hikað við að brjóta gegn alþjóðalögum, hundsa fullveldi ríkja og styðjast við hvers kyns böðla og blóðhunda til að ná fram pólitískum markmiðum sínum víða um lönd.
Staðan í Tyrklandi síðustu misserin setur stöðu hernaðarbandalagsins þó í nýtt samhengi. Í Tyrklandi er við völd ríkisstjórn með skýra einræðistilburði sem brýtur niður pólitísk andóf og gagnrýnir blaðamennsku af mikilli hörku. Stjórnin er höll undir Íslamista og vinnur leynt og ljóst að því að hverfa frá þeirri borgaralegu þróun sem staðið hefur frá stofnun tyrkneska lýðveldisins. Erdogan-stjórnin hefur blásið lífi glæður borgarastríðsins gegn Kúrdum, á stóran þátt í að ala á hernaði í grannríkjum og styður í því sambandi leynt og ljóst einhver alræmdustu hryðjuverkasamtök í heiminum.
Og þetta eru „okkar menn“ á svæðinu.
Með aðildinni að Nató viðurkenna Íslendingar sameiginlega varnarskyldu með Tyrklandi. Við gefum Erdogan-stjórninni þar með afl og bakland til að halda áfram glórulausri og ágengri utanríkisstefnu á viðkvæmasta átakasvæði í heimi. Við skilgreinum óvini Erdogans sem óvini okkar.
Eins og þessi háskalega staða varðandi Tyrkland sé ekki nóg, hafa leiðtogar Nató á liðnum árum gert í því að reyna að stækka bandalagið með ríkjum sem einkennast af óstöðugu stjórnarfari. Má þar nefna Úkraínu og Georgíu, lönd þar sem ríkisvaldið hefur átt í vopnuðum átökum við hluta íbúanna og þar sem stjórnvöld hrökklast allt eins oft frá völdum í byltingum eða vegna fjöldamótmæla og í kosningum. Engu líkara er að forsprakkar Atlantshafsbandalagsins sæki í að gangsetja tímasprengjur í eigin ranni.
Af umfjöllun um Nató-aðildina hér á landi mætti helst ráða að árið sé 1976 en ekki 2016 og að engar markverðar breytingar hafi orðið á bandalaginu á liðnum áratugum. Ekkert er fjær sanni. Í dag eru langstærstu verkefni Nató utan landamæra aðildarríkja þess og ganga út á að blanda sér í eða stofna til styrjalda í fjarlægum löndum. Valdaránstilraunin í Tyrklandi hlýtur að verða íslenskum stjórnmálaflokkum tilefni til að endurskoða afstöðu sína til hernaðarbandalagsins. Við verðum að læra að velja okkur betri vini.
Stefán Pálsson, ritari Samtaka hernaðarandstæðinga.
Athugasemdir