Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur sett aukinn kraft í rannsóknir er snúa að mansali og vændi. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem lögreglan sendi út í kvöld eftir að fjallað var um málið í fréttum Stöðvar 2. „Athygli vekur að 94% þeirra sem voru staðnir að verki við vændiskaup eru íslenskir karlmenn, en meðalaldur þeirra er 41 ár. Hinir, 6%, voru erlendir karlmenn, en þetta hlutfall kann að koma einhverjum á óvart,“ segir í tilkynningunni. „Þeir sem stunda vændi hérlendis eru mestmegnis erlendar konur, en sumar þeirra virðast koma hingað ítrekað þessara erinda.“
Bent er á að mansalsmál séu alla jafna þung í vöfum og tímafrek. Fá slík mál fari alla leið í kerfinu. Eins og Stundin greindi frá á dögunum fjölgaði tilkynntum kynferðisbrotum umtalsvert í maí samkvæmt afbrotatölfræði lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Ástæður þessa má rekja til aukinnar áherslu á vændismál. „Kynferðisbrotin (kaup á vændi – 206. gr. alm. hegningarlaga) voru 17 í fyrrnefndum mánuði og enn fleiri í síðasta mánuði, júní, eða 21. Allt árið í fyrra voru brotin 9, en þetta árið hefur embættið haft meiri mannafla og tíma til að takast á við málaflokkinn og tölurnar endurspegla það. Þess má jafnframt geta að vændismálin eru samtals 48 það sem af er árinu 2019,“ segir í tilkynningu lögreglu.
Athugasemdir