Baldvin Þorsteinsson, sonur Þorsteins Más Baldvinssonar eiganda Samherja, þreif í Má Guðmundsson seðlabankastjóra og ýtti honum til á göngum Alþingis í dag.
Atvikið átti sér stað að loknum opnum fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar um vinnubrögð Seðlabanka Íslands við rannsókn á viðskiptaháttum Samherja.
Myndbönd sem birst hafa á Vísi.is og RÚV sýna að Baldvin, sem sjálfur er stjórnarformaður Eimskips, stuggar við seðlabankastjóra.
Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður Vinstri grænna, gekk á milli þeirra og sagði: „Heyrðu, viltu gjöra svo vel, þú ert hérna í sölum Alþingis og þú átt ekki að vera að ýta gestum Alþingis.“
Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu síðla árs 2018 að Seðlabanki Íslands hefði ekki haft heimild til að leggja stjórnvaldssekt á Samherja. Skömmu síðar snupraði umboðsmaður Alþingis Seðlabankann vegna óvandaðrar stjórnsýslu í málinu.
Forsvarsmenn Seðlabankans sátu fyrir svörum hjá fastanefnd þingsins í dag, en í kjölfar fundarins kom til ryskinganna sem sjá má í myndböndum Vísis og RÚV.
Baldvin Þorsteinsson hefur ekki verið áberandi í rekstri Samherja í gegnum tíðina en þó unnið hjá útgerðarfyrirtækinu í áratug og kom við sögu í rannsókn Seðlabankans á meintum gjaldeyrislagabrotum fyrirtækisins.
Eins og Stundin greindi frá þann 23. febrúar síðastliðinn er tölvupóstur frá Baldvini eitt af rannsóknargögnunum í málinu en þar leggur Baldvin línurnar um hvernig Samherji getur lækkað skiptahlut sjómanna í Afríku og lækkað skattgreiðslur sínar í gegnum Kýpur.
Þorsteinn Már svaraði fyrir málið í Stundinni, þar sem Baldvin vildi ekki gera það sjálfur, og sagði hugmyndirnar vera bernskubrek ungs manns sem var „nýskriðinn“ úr skóla.
Athugasemdir