Aldís Schram, dóttir Jóns Baldvins Hannibalssonar, hefur kært Hörð Jóhannesson, aðstoðarlögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu til héraðssaksóknara. Ástæðan er vottorð sem Hörður afhenti Jóni Baldvini og fjallar um afskipti lögreglu af Aldísi.
Telur Aldís að með því að leggja fram vottorðið hafi Hörður brotið gegn þagnarskyldu, mögulega í ávinningsskyni. Í vottorðinu sagði að lögreglan hefði nokkrum sinnum á undanförnum árum haft afskipti af Aldísi eða sinnt verkefnum vegna hennar. Foreldrar hennar, Jón Baldvin og Bryndís Schram, hafi hins vegar aldrei kallað til lögreglu vegna hennar. Jón Baldvin birti úrdrátt úr vottorðinu opinberlega, bæði í Silfrinu á RÚV og í Morgunblaðinu.
Sjö konur hafa stigið fram undir nafni og sakað Jón Baldvin um kynferðislegra áreitni. Alls hafa 23 konur birt sögur sínar á vefsíðu og halda frásagnir áfram að berast í sérstökum MeToo hópi kvennanna á Facebook. Jón Baldvin hefur ítrekað sagt að sögurnar eigi allar rætur að rekja til veikinda dóttur sinnar.
Aldísi hefur sex sinnum verið nauðungarvistuð á geðdeild Landspítalans. Hefur hún borið föður sinn þeim sökum að hafa farið fram á vistunina í kjölfar ásakana um kynferðislega áreitni og ofbeldi. Hann hefur hafnað því. Fjórar beiðnir um nauðungarvistun bárust frá honum á meðan hann var erlendis að störfum sem sendiherra.
Í grein í Morgunblaðinu 7. febrúar birti Jón Baldvin upplýsingar um vottorðið. „Sjálfur á ég í fórum mínum eftirfarandi vottorð frá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu, dagsett 5. janúar 2012: „Lögreglan hefur nokkrum sinnum á undanförnum árum haft afskipti af Aldísi Baldvinsdóttur [...] eða sinnt verkefnum vegna hennar. Að gefnu tilefni skal tekið fram, að foreldrar hennar, Bryndís Schram og Jón Baldvin Hannibalsson, hafa aldrei kallað á lögreglu eða beðið lögreglu um aðstoð af neinu tagi hennar vegna. Þetta staðfestist hér með.“ (Undirskrift: Hörður Jóhannesson aðstoðarlögreglustjóri.)“
Aldís birti bréf sitt til héraðssaksóknara á Facebook síðu sinni í dag. Telur hún útgáfu vottorðsins brjóta gegn þagnarskylduákvæði lögreglulaga og mögulega almennum hegningarlögum einnig.
Athugasemdir