Stundatafla Jóns Baldvins Hannibalssonar frá því hann kenndi í Hagaskóla veturinn 1967 til 1968 staðfestir að hann kenndi bekknum sem Matthildur Kristmannsdóttir og María Alexandersdóttir voru í. Báðar hafa sakað hann um kynferðislega áreitni við kennslu þegar þær voru 13 til 14 ára.
Jón Baldvin hefur hingað til neitað að svara fyrir lýsingar Matthildar og Maríu. „Það finnast engin gögn um það að ég hafi kennt í þessari bekkjardeild,“ sagði Jón Baldvin í Silfrinu. „Á meðan það er hef ég ekki meira um það að segja.“
Matthildur lýsti í viðtali við Stundina 11. janúar að Jón Baldvin hefði reglulega látið hana sitja eftir að loknum tímum í íslensku. Hann hafi snert hana og gengið lengra í hvert skiptið.
„Hann hélt áfram að strjúka mér og fór að troða sér aftan á stólinn hjá mér,“ sagði Matthildur. „Þetta var svona gamall skólastóll með algjörlega beinu baki og beinu sæti. Honum tókst að troða sér fyrir aftan mig á milli mín og stólbaksins. Ég sat alveg á nippinu á stólnum. Hann var mjög grannur á þessum árum og ég líka og þetta tókst honum að gera. Hann byrjaði að káfa á mér allri og sleikti á mér hálsinn og eyrað og kinnina. Ég var algjörlega frosin. Ég gat ekki staðið upp. Ég gat ekki sagt neitt. Ég bara sat. Ég man eftir hvað ég skammaðist mín fyrir hvað væri að gerast.“
María Alexandersdóttir, sem var í sama bekk, lýsti því að hún hefði óttast að verða næst. „Nema svo stuttu eftir þetta var hann alltaf að grúfa sig yfir mig í tímum, eins og hann væri að skoða hvað ég væri að gera og strjúka á mér axlirnar í leiðinni,“ sagði María. „Hann lagði hendurnar yfir axlirnar og strauk mig og grúfði sig alveg upp við andlitið á mér. Og þetta fannst mér alveg hræðilega óþægilegt.“
Loks hafi komið að því að hann hafi sagt henni að sitja eftir. „Þá sagði ég nei, ég vildi ekki lenda í því sama og Matthildur. Eftir það lét hann mann í friði. Þetta var alveg nóg til að maður var alltaf drulluhræddur. Ég var búin að lenda í ýmsu tvö sumur áður í sveit. Ég vissi nákvæmlega hvað karlinn ætlaði sér.“
Mótmælti því að Stundin fengi gögn
Borgarskjalasafn Reykjavíkur afhenti Stundinni stundatöfluna í dag eftir upplýsingabeiðni í vikunni. Jón Baldvin mótmælti því við safnið að Stundin fengi afhent þau gögn sem hann sjálfur hafði óskað eftir. „Ég fékk það svar, að engin slík gögn hefðu fundist,“ skrifaði hann þegar honum hafði verið tilkynnt um andmælarétt sinn vegna fyrirspurnar Stundarinnar. „Ég hef ekkert við það að athuga, að blaðamaður fái það staðfest. Ég sé hins vegar enga ástæðu til, að hann fái afhent gögn um kennslu mína, að öðru leyti.“
Stundartöflurnar frá Skólaskrifstofu, sem Jón Baldvin fékk með tölvupósti á sama tíma og Stundin, staðfesta hins vegar kennslu hans í íslensku við bekkinn 2.X veturinn 1967 til 1968. Kenndi hann bekknum sex sinnum í viku. Bekkjarlisti, sem Borgarskjalasafn afhenti einnig, staðfestir að Matthildur og María voru báðar í bekknum, auk tveggja annarra kvenna sem Stundin hefur rætt við til staðfestingar á frásögnum þeirra.
„Skjalasafn Reykjavíkur hefur leitað dyrum og dyngjum,“ skrifaði Jón Baldvin í grein í Fréttablaðinu á mánudag. „Þar er að finna fullt af gögnum um, hvar, hvenær og hverjum ég kenndi. Engin gögn fyrirfinnast um að ég hafi kennt umræddum bekk. Meðan svo er, hef ég ekki meira um það að segja.“
Athugasemdir