Aldís Schram, dóttir Jóns Baldvins Hannibalssonar, mótmælir orðum föður síns um meintan geðsjúkdóm hennar. Vottorð sérfræðings segir hana ekki haldna geðhvarfasýki. Einkenni áfallastreitu vegna kynferðisbrots séu hins vegar til staðar.
Í Stundinni lýsa fjórar konur kynferðislegri áreitni af hendi Jóns Baldvins. Umfjöllunina í heild má lesa í tölublaði Stundarinnar sem kom út í dag.
Í samtali við Stundina sagði Jón Baldvin frásagnir kvennanna eiga rætur að rekja til dóttur sinnar og kallar málið „fjölskylduharmleik“. „Aldís dóttir mín hefur spunnið þær sögur og það er þyngra en tárum taki. Ég hef svarað því áður og endurtek það ekki.“
Aðspurður hvað þetta hafi með framburð kvennanna fjögurra að gera, sagði Jón Baldvin að því megi velta fyrir sér. „Kynntu þér stöðu Aldísar dóttur minnar, hún hefur átt við geðræn vandamál að stríða alllengi. Ég hélt að það væri að lagast, hef engar áreiðanlegar heimildir fyrir því svo sem.“
Aldís hefur síðan 1992 verið nauðungarvistuð sex sinnum á geðdeild, sem hún segir alltaf hafa verið fyrir tilstilli föður síns. „Af því gefna tilefni að Jón Baldvin Hannibalsson, enn og aftur, svertir opinberlega æru mína í því skyni að fá hreinsað sína - og fjölmiðlamenn hafa ekki ljáð minni rödd málstað í sínum miðlum til að ég fái borið hönd fyrir höfuð mér, birti ég hér, til að fá kveðið niður í eitt skipti fyrir öll þessa vísvitandi lygi hans um mína meintu geðveiki, eftirfarandi vottorð dr. Gunnars Hrafns Birgissonar því til sönnunar að ég hvorki er né hef nokkurn tíma verið haldin geðsjúkdómi - sem og læknisvottorð heimilislæknis míns,“ skrifar Aldís í tilkynningu til Stundarinnar. Þá birtir hún einnig færslu um málið á Facebook síðu sinni.
Vottorð sýnir ekki geðhvarfasýki
Aldís leitaði til Gunnars árið 2014 og tók hann viðtöl við hana yfir tveggja mánaða skeið og lagði fyrir hana ýmis próf. „Samantekið benda niðurstöður skimunar þessarar, sem gerð var með klínískum viðtölum og spurningalistum, ekki til geðhvarfasýki, þ.e. geðröskunar sem fyrrum nefndist manic-depression,“ segir í bréfinu. „Það fundust einkenni áfallastreitu, en ekki næg til þess að hægt sé að álykta um heilkenni áfallastreituröskunar.“
Einkenni áfallastreituröskunarinnar hjá Aldísi benda til kynferðisofbeldis, að því er segir í vottorði Gunnars. „Útkoma á PSS-SR spurningalista um áfallastreitu einkenni eftir kynferðisofbeldi er 28 stig, sem telst benda til alvarlegra einkenna. Þessar útkomur benda til einkenna eftir áfall eða áföll, en þær eru út af fyrir sig ekki greining á áfallastreituröskun.“
Athugasemdir