Fyrirhugaður þjónustusamningur Háskóla Íslands og Útlendingastofnunar um að skólinn muni sjá um röntgenrannsóknir á tönnum ungra hælisleitenda í þeim tilgangi að skera úr um aldur þeirra fyrir Útlendingastofnun, vegur að sjálfstæði skólans. Þetta segir Nanna Hlín Halldórsdóttir, doktor í heimspeki og stundakennari við Háskóla Íslands, í samtali við Stundina en hún er ein þeirra sem hefur að undanförnu leitt mótmæli innan háskólans gegn tanngreiningum á ungum hælisleitendum. Stúdentaráð Háskóla Íslands, Landssamtök íslenskra stúdenta, starfsmenn og doktorsnemar við Menntavísindasvið Háskóla Íslands sem og starfsmenn og doktorsnemar við Hugvísindasvið skólans hafa að undanförnu sent frá sér yfirlýsingar þar sem tanngreiningunum er mótmælt harðlega.
Stúdentar, doktorsnemar og starfsmenn háskólans hafa meðal annars bent á að tanngreiningar á hælisleitendum fari gegn vísindasiðareglum skólans en þær kveða á um að rannsakendur skuli ekki skaða hagsmuni þeirra sem tilheyra hópi í erfiðri stöðu. Þá hafa þeir bent á samfélagslegt hlutverk menntastofnana sem og mikilvægi þess að akademískar stofnanir framkvæmi ekki aðgerðir lögvalds á borð við Útlendingastofnunar. Málið þykir óþægilegt fyrir rektor sem og yfirstjórn Háskóla Íslands sem hefur beitt sér fyrir gerð þjónustusamningsins, en tanngreiningar f´rou lengi vel fram innan veggja háskólans án þess að nokkur samningur lægi fyrir. Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, sendi tölvupóst á starfsmenn háskólans í síðustu viku þar sem hann sagði að aldurgreiningar á tönnum færu ekki fram á meðan málið væri til skoðunar hjá Heilbrigðisvísindasviði skólans. Hann hefur ekki viljað tjá sig um gagnrýnir starfsmanna og doktorsnema.
„Á sama tíma er háskólinn að styðja aðgerð sem í raun og veru beitir sér fyrir því að reka úr landi alþjóðlegt fólk, þannig að það er þarna mótsögn“
Nanna Hlín bendir á mikilvægi þess að akademískar stofnanir njóti algjörs sjálfstæðis. Tanngreiningar, sem framkvæmdar eru fyrir lögvaldið, Útlendingastofnun, eigi ekki undir neinum kringumstæðum að fara fram innan veggja akademískrar stofnunar á borð við Háskóla Íslands enda komi það niður á sjálfstæði skólans. „Ég held að það skipti bara ótrúlega miklu máli fyrir háskólann sem svona þekkingarstofnun, sem í sinni leit er að reyna að búa til meiri og betri þekkingu, koma fram með samfélagsgagnrýni, koma jafnvel fram með spurningar akkúrat um siðferði, um siðfræði, þá skiptir mjög miklu máli að það sé sjálfstæði gagnvart öðrum sviðum samfélagsins,“ segir Nanna Hlín sem bætir við að hún telji að einhverskonar samkomulag um að Háskóli Íslands sjái um tanngreiningar fyrir Útlendingastofnun muni koma niður á því sjálfstæði.
Nanna bætir við að eitt af hlutverkum menntastofnana á borð við Háskóla Íslands sé að stuðla að því að fólk í viðkvæmri stöðu eigi sem farsælast líf. Hún bendir á að háskólinn hafi á síðustu tíu, tuttugu árum lagt mikla áherslu á að vera alþjóðlegur rannsóknarháskóli. Í því samhengi skipti miklu máli að hluti doktorsnema séu af erlendu bergi brotnir og að það séu ekki einungis íslenskir ríkisborgarar sem ljúki doktorsprófi við skólann. „Á sama tíma er háskólinn að styðja aðgerð sem í raun og veru beitir sér fyrir því að reka úr landi alþjóðlegt fólk, þannig að það er þarna mótsögn.“
Í helgarblaði Stundarinnar er rætt við þrjár konur, sem nema og starfa við Háskóla Íslands, en þær gagnrýna skólann sinn harðlega fyrir að hafa stundað röntgenrannsóknir á tönnum ungra hælisleitenda fyrir Útlendingastofnun án samnings, sem og að vinna að sérstökum þjónustusamningi um rannsóknirnar.
Athugasemdir