Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, kallar Ingu Sæland, formann Flokks fólksins „húrrandi klikkaða kuntu“ á hljóðupptöku sem Stundin hefur undir höndum.
„Hún er fokking tryllt,“ sagði Bergþór við Karl Gauta Hjaltason og Ólaf Ísleifsson, þingmenn Flokks fólksins, í viðurvist flokksfélaga sinna, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, Önnu Kolbrúnar Árnadóttur og Gunnars Braga Sveinssonar á Klaustur bar 20. nóvember síðastliðinn.
„Hún er fokking tryllt. Komið til okkar.“
Þingmennirnir sátu þar að drykkju og ræddu hugsanleg skipti Ólafs og Karls Gauta yfir í Miðflokkinn. Samskiptin áttu sér stað í vitna viðurvist og náðust orðaskiptin á upptöku.
„Mig langar alveg óskaplega mikið til þess að vinna nánar með ykkur en við erum búnir að vinna, sem hefur verið mjög gott,“ sagði Bergþór. „Ég held að staða ykkar tveggja verði miklu mun traustari innan Miðflokksins heldur en hún verður innan Flokks fólksins þegar kemur að næstu kosningum. Ég er bara að biðja ykkur um að hugsa um þetta, því í mínum huga er eiginlega alveg öruggt að þið verðið áfram þingmenn fyrir Flokk fólksins í næstu kosningum.
En þetta snýst allt um, og ég held við séum öll í þessum slag til að láta gott af okkur leiða, og það eru miklu meiri líkur til þess að það gerist undir merkjum Miðflokksins heldur en Flokks fólksins af því að þið eruð með þessa húrrandi klikkuðu kuntu sem formann Flokks fólksins, sem þið ráðið ekkert við. Þið ráðið ekkert við hana. Segið mér ef ég hef rangt fyrir mér. Ég mundi ekki ráða við hana, Sigmundur mundi ekki. Hún er fokking tryllt. Komið til okkar.“
Ekki náðist í Bergþór við vinnslu fréttarinnar.
Athugasemdir