Við erum hvorki ótengd umheiminum né ónæm fyrir áhrifum öfgastefnu.
Hugmyndafræði nýfasismans fer nú sem eldur í sinu um lönd sem við töldum stöðug lýðræði. Og það varð nýlega „game-changer“. Mesta herveldi mannkynssögunnar er nú undir stjórn forseta sem markvisst leysir upp stuðning við samstarf lýðræðisríkja og styður við fasista. Hann á hauk í horni hér á landi.
Oft vantar okkur hugtökin vegna þess að við höfum ekki reynsluna. Við byggjum á steríótýpum. „Fasisti“ fyrir okkur er Hitler eða Moussolini. Fasistar eru gjarnan popúlistar, lýðskrumarar, demagogues, sem ná að sannfæra fólk. Ris þeirra hefur haldist í hendur við tækninýjungar. Á þriðja og fjórða áratug síðustu aldar voru stórstígar framfarir í hátalara- og útvarpstækni. Skyndilega var hægt að magna upp og dreifa rödd yfir gríðarmikinn mannfjölda og á milli landa.
Í dag höfum við samfélagsmiðla.
Donald Trump er hugmyndafræðilegur fasisti, sem hefur ekki náð að innleiða fasískt stjórnarfar. Hann er ekki Hitler og ekki Moussolini. En hann er nýfasisti, sem nýtir sér tækninýjungar samfélagsmiðla og þrífst í nýju lífkerfi notendastýrðrar upplýsingadreifingar, eins og Youtube, Facebook og Twitter.
Hvernig lýðræði deyja
Trump hefur sýnt afgerandi fasískar tilhneigingar, og hann er bara einu stríði eða einni hryðjuverkaárás frá því að fá nánast ótakmarkað umboð til athafna. Við vitum núna hvaða gildismat hann styðst við, að honum þykir í lagi að nota kjarnorkuvopn, að hann hefur hótað þeim, og að hann telji alþjóðlegar stofnanir um samvinnu lýðræðisríkja lítils virði, en staðfesta fasískra leiðtoga aðdáunarverð.
Í bókinni How Democracies Die, sem kom út fyrr á árinu, hafa tveir helstu fræðimenn heims á sviði lýðræðisvanda skilgreint mælikvarða á alræðissinnaðar hneigðir stjórnmálamanna. Í fyrsta lagi grefur hann undan lögmæti lýðræðisins, til dæmis með því að hafna markvisst kosninganiðurstöðum. Í öðru lagi grefur hann undan lögmæti pólitískra andstæðinga sinna og lýsir þeim sem glæpamönnum. Í þriðja lagi hvetur hann stuðningsmenn til ofbeldis og/eða neitar að fordæma það, og fagnar eða neitar að fordæma ofbeldi annars staðar í heiminum. Í fjórða lagi lýsir hann sig reiðubúinn að þrengja að réttindum fjölmiðla, hótar þeim og hrósar öðrum stjórnvöldum fyrir kúgandi aðgerðir. Donald Trump uppfyllir öll fjögur skilyrðin.
Helsta forsenda fasísks stjórnarfars er stórfelld dreifing og stöðug stjórnun upplýsingaflæðis til almennings. Aðferð trumpisma er að stjórna fréttahringnum. Hann getur komið sínu á framfæri án hliðvörslu fjölmiðla, sem hefðu síað burt sannindi og ósannindi að einhverju marki. Áður þurftu forsetar Bandaríkjanna að senda fréttatilkynningu, mæta í viðtöl eða í besta falli halda sjónvarpsávarp. En nú teygir Trump sig í símann og er búinn að ná til fólks, gjarnan með lygum og ógnunum, á nokkrum augnablikum.
En þótt Trump sé fasisti í þeim skilningi, hefur hann ekki náð að innleiða fasískt stjórnarfar. Og nýfasisminn er augljóslega ekki jafnlangt genginn og fasisminn á hátindi sínum á síðustu öld, sérstaklega hvað varðar skerðingu einstaklingsfrelsis og beitingu ofbeldis.
Hvernig er Trump nýfasisti?
Nýfasistar eru öfgaþjóðernissinnaðir valdhafar sem taka sér aukin völd, veikja fjölmiðla og stilla þeim upp sem skaðvaldi í samfélaginu, þrífast á ótta og óvinum, reyna að hræða fólk, skapa óvini úr innflytjendum, fjölmiðlafólki, pólitískum andstæðingum og stundum erlendum þjóðum. Síðan stilla þeir sjálfum sér upp sem sterkum leiðtogum í baráttunni gegn þessum öflum.
Kjarninn í fasisma er að segja goðsögu af mikilfengleika þjóðar, sem leiðist til hnignunar vegna innri óvina, þar til sterkur leiðtogi kemur fram á sjónarsviðið og endurreisir mikilfengleika hennar. MAGA. En klassískur fasismi felur einnig í sér sterka alræðistilburði og tilhneigingu til beitingar ofbeldis. Þessi tilhneiging kemur ekki endilega fram á fyrstu stigum.
Trump hefur ekki gert allt til þess að uppfylla klassíska skilgreiningu fasisma og sumt sem hann segir er til stuðnings lýðræðislegu fyrirkomulagi. En það er ekkert nýtt að lýðskrumarar segi eitt en meini annað, og það er alls ekkert nýtt að Trump ljúgi. Annað staðfestir hugmyndafræði sem hægt er að kenna við nýfasisma:
Hvernig hann boðar að skjóta eigi ólöglega innflytjendur sem kasta grjóti, sendir herinn af stað, lýsir þeim sem innrás og leggur upp í auglýsingaherferð með myndband af ógeðfelldum, ólöglegum innflytjanda sem hann segir vera á ábyrgð pólitískra andstæðinga sinna.
Hvernig hann kallar fjölmiðlamenn ógeðslega, óvini fólksins, þeir séu óheiðarlegasta fólkið.
Hvernig hann reynir að fá pólitískan mótherja sinn í fangelsi.
Hvernig hann ræðst gegn einstökum dómurum fyrir niðurstöðu þeirra.
Hvernig hann rekur hvern embættismanninn og ráðherrann á fætur öðrum til að koma að mönnum sem hafa lýst sig tilbúna að gera hvað sem er fyrir hans hagsmuni, jafnvel grípa inn í rannsókn á honum og tengdum aðilum.
Hvernig hann dáist að Pútín, mærir Kim Jong-un og Rodrigo Duterte, sem eru óumdeilt einhverjir andlýðræðislegustu þjóðarleiðtogar heims.
Hvernig siðferðislegt hrun hefur orðið, þegar Bandaríkjaforseti neitar að taka eindregna afstöðu gegn hrikalegu og staðfestu morði á blaðamanni með aðsetur í Bandaríkjunum, á þeim grundvelli að arðbær vopnasala sem knýr áfram viðurstyggilegasta stríð samtímans sé of verðmæt.
En hann er ekki einn. Hann á hauka í horni, meðal annars hér á landi, í mikilvægum stöðum.
Trumpismi Davíðs Oddssonar
Staðan er sú að stærsta einkarekna fjölmiðlaritstjórn landsins er undir ritstjórn stuðningsmanns fjölmiðlahatarans Donalds Trump.
Reglulega er tekið til varna fyrir Trump í leiðurum Morgunblaðsins. Talið er að ritstjórinn, Davíð Oddsson, skrifi flesta þeirra. Vera Davíðs í ritstjórastóli er nú þegar lýðræðislega vafasöm, í besta falli. Sem helsti gerandi í stjórnmálum síðustu áratuga á Íslandi var Davíð settur í þá stöðu að vera yfir umfjöllunum um fjölmörg mál sem hann bar ábyrgð á. Hann var fenginn til vinnu sem stjórnandi yfir stærstu ritstjórn landsins af hópi útgerðarmanna, sem hefur hagnast stórkostlega á hagkvæmri notkun sameiginlegrar auðlindar okkar, vegna þess að þeir vildu hafa áhrif á skoðanir landsmanna til að tryggja hagsmuni sína og hugsjónir. Þeir niðurgreiða síðan starfsemina ár eftir ár, eins og rekja má.
Davíð birti lofgrein vinar síns um sig fyrir forsetakosningar, ásamt skopmynd, staksteinum og leiðara honum til stuðnings, og hjólar reglulega í meinta pólitíska andstæðinga og óháða fjölmiðla í nafnlausum greinum.
„Aulalegur fréttaflutningur“ af morði á blaðamanni
Þegar hræðilegt morðið á sádi-arabíska blaðamanninum Khashoggi var til umræðu – en hann var bútaður niður af útsendurum sádi-arabíska ríkisins þegar hann reyndi að sækja vottorð til að gifta sig – var birtur leiðari í Morgunblaðinu gegn fjölmiðlum. Íslenskir fjölmiðlar voru sakaðir um „afdalahátt“, fréttaflutningurinn var sagður „aulalegur“ og að Khashoggi hefði ekki verið myrtur fyrir að vera blaðamaður.
Það verður að teljast ótrúlegt en upplýsandi að fjölmiðill í lýðræðisríki eins og Íslandi taki þennan vinkil, en enn merkilegra er hvernig það var réttlætt. Jú, leiðarahöfundur Morgunblaðsins hafði nefnilega aðrar heimildir en íslenskir fjölmiðlar. Hann notaði ekki New York Times, Washington Post, eða aðra „fake news“ miðla, eins og Trump orðar það, heldur hafði hann fundið betri heimildir í fjölmiðli sem leiðtogi sértrúarsöfnuðar stofnaði, en sá kveðst vera Messías endurfæddur. Fjölmiðillinn sem Davíð notaði til að ráðast að trúverðugleika fjölmiðlaheimsins hefur verið gagnrýndur fyrir tengsl við öfgaþjóðernisstefnu og birtingu samsæriskenninga. Heimild Davíðs til að útskýra skiljanlegra tilefni morðs á blaðamanni var fjölmiðillinn Washington Times.
„Hinn aulalegi fréttaflutningur af málinu, þar sem hið íslenska „RÚV“ deilir toppsætinu með mörgum öðrum, hefur gert ómögulegt að skynja og skilja ástæður hins meinta glæps ... Á Íslandi hafa menn getað séð glitta í skiljanlegar skýringar á atvikunum í Morgunblaðinu ... En nú eru merki um að fleiri fjölmiðlar falli ekki sjálfkrafa í einfeldningslega stöðlun sem hjarðeðlið skammtar. Eftirfarandi er úr fréttaskýringu Washington Times í gær ...“ skrifaði Davíð og vitnaði í kenningu um að Khashoggi hefði haft afskipti af stjórnmálum í fortíðinni og því ekki verið myrtur fyrir að vera opinber gagnrýnandi krónprins Sádi-Arabíu, heldur hafi hann verið tortryggður af stjórnvöldum vegna afskipta af stjórnmálahreyfingum.
Þegar Trump leysir vind gustar um Hádegismóa.
Davíð gegn fjölmiðlum, með Trump
Donald Trump bannaði á dögunum fréttamann frá Hvíta húsinu vegna gagnrýninna spurninga hans, meðal annars um meinta „innrás“ fólks á flótta. Nánast allur fjölmiðlaheimurinn tók afstöðu gegn banninu, en ekki ritstjóri Morgunblaðsins. Hann birti þess í stað harðorðan leiðara um fjölmiðla. Hann taldi fjölmiðla „hamast á“ Trump og lýsti andstöðu sinni gegn Ríkisútvarpinu og sérfræðingi Háskóla Íslands. Hann sakaði bandaríska stórfjölmiðla rakalaust um þátttöku í stjórnmálum með Hillary Clinton.
„Flestir öflugustu fjölmiðlar landsins hafa hamast gegn Trump forseta af miskunnarleysi og furðulega hömlulaust frá því að eigendur þeirra og ritstjórnir vöknuðu við þann vonda draum að þeirra frambjóðandi, Hillary Clinton, tapaði fyrir honum þvert á spár.“
Davíð sagði að „eiginkona Trumps og börn“ hefðu verið „elt á röndum og sætt harðri gagnrýni fyrir hvað eina“, en Trump hefur meðal annars ráðið dóttur sína og tengdason í starfslið Hvíta hússins, og annar sonur hans er til rannsóknar vegna afskipta Rússa af forsetakosningunum.
Þegar börn ólöglegra innflytjenda voru aðskilin frá foreldrum sínum, samkvæmt stefnu Trumps, kvartaði Davíð undan „ógeðfelldu áróðursstríði“ þeirra sem gagnrýndu það.
Leiðaraskrif Davíðs eru upplýsingar um viðhorf hans gagnvart fjölmiðlum, valdasamþjöppun, nepótisma og árásum Donalds Trump á lýðræðisleg viðmið og stofnanir Bandaríkjanna. Þetta er ekki í ósamræmi við feril Davíðs á síðari árum.
Davíð myndi væntanlega helst flokkast sem popúlisti. Eftir að hafa farið í forsetaframboð, mærður af helsta aðdáanda hans í hans eigin blaði, boðaði hann að öll þjóðin fengi að koma á Bessastaði. Hann lofaði að gefa launin sín, núna þiggur hann samt meira en 5,7 milljónir króna á mánuði og þar með talin eftirlaun samhliða ritstjóralaunum, sem hann fær vegna laga sem sett voru í hans valdatíð. Davíð stillti sér fram sem sterka manninum, sem taldi þjóðarsvik að hafa fjallað gagnrýnið sagnfræðilega um afrek Íslendinga í þorskastríðunum. Hann gróf undan andstæðingi sínum, Guðna Th. Jóhannessyni, með dylgjum, þar til Guðni spurði nákvæmlega sömu spurningarinnar og afvopnaði Joseph McCarthy á sínum tíma: „Hefurðu enga sómakennd?“
Niðurgreiðsla á vörn fyrir nýfasista
Mörk og viðmið hins lýðræðislega samfélags eru Davíð til trafala. Hann virðist ekki þola fjölmiðla sem ekki er hægt að tengja við hagsmunaárekstur. Þegar Stundin fjallaði um hagsmunaárekstur formanns Sjálfstæðisflokksins í stórfelldum viðskiptum með bréf Glitnis samhliða aðkomu að málefnum bankans sem kjörinn fulltrúi, skrifaði Davíð ekki um efnið, heldur um fjölmiðilinn. Hann sagði formanninn, eftirmann sinn, hafa þurft að þola „árásir sorpmiðla“. Hann skrifar stöðugt um Ríkisútvarpið, og nefnir það alltaf „Rúv“ – í gæsalöppum, auk þess sem hann setur gæsalappir utan um svokallaðan „fréttaflutning“.
Davíð Oddsson er varðmaður nýfasisma á Íslandi, fjármagnaður af útgerðarvaldinu og pólitískum leiðtoga. Eftir stendur að Davíð, sem var svo vinsæll, og nýtur enn stuðnings, til dæmis hjá oddvita Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, sem á tæpan fjórðung í útgáfufélagi Morgunblaðsins og stofnaði stuðningsmannafélag Davíðs, heldur úti stöðugum andlýðræðislegum boðskap til varnar nýfasískri hugmyndafræði í framkvæmd.
Einn þeirra sem hafa varað við áhrifum þessa er Gísli Marteinn Baldursson, fyrrverandi borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.
„Það er með miklum ólíkindum að Morgunblaðið skuli styðja þennan mann með ráðum og dáð, og alveg sérstaklega í baráttu hans gegn öflugum fjölmiðlum sem spyrja mikilvægra spurninga. Það er beinlínis hættulegt lýðræðinu.“
Ísfélag Vestmannaeyja, í eigu útgerðarkonu sem tók sér 3,2 milljarða króna í arð í ár, Kaupfélag Skagfirðinga, Eyþór Arnalds og fleiri halda sem sagt úti blaði sem hefur yfirlýstan stuðning við nýfasisma, nú þegar heimurinn stendur á krossgötum í vali sínu um nationalisma og tæringu lýðræðisfyrirkomulags, eða alþjóðasamvinnu og lýðræðis.
En það er ekki alveg nýtt að stjórnmálahreyfingar og -leiðtogar sem grafa undan lýðræðinu og ala á hatri gegn minnihlutahópum og „Lügenpresse“ njóti einhvers stuðnings á Íslandi.
„Fasistinn“ í Vestmannaeyjum
Það sem sagan sýnir okkur augljóslega er ekki endilega skiljanlegt í samtímanum. Árið 1933 var gefið út blaðið Fasistinn í Vestmannaeyum. Þetta var sama ár og fyrstu útrýmingarbúðirnar voru stofnaðar, þýska þinghúsið var brennt, og þrengt var að gyðingum. Þar var sjónum meðal annars beint gegn einstaklingum sem vöruðu við áhrifum fasismans. Til dæmis var birt opið bréf um Sigurð nokkurn Einarsson sem hafði gerst sekur um að „útvarpa lygi um nasismann“, árið áður en Þórbergur Þórðarson rithöfundur var dæmdur fyrir grein um Hitler, að kröfu þýskra stjórnvalda.
„Svo komst þú í útvarpið. Þar ert þú öðru hvoru útvarpandi lýgi þinni um Hitler,- Mussolini og aðra frömuði, sem eitthvað eru andstæðir þér i skoðun. Það trúir enginn neinu af þvi, sem þú segir það vita allir, að þú notar afstöðu þína í útvarpinu, til þess að bera svivirðingar á andstæðinga þína í gegnum loftið. Þú ættir ekki að vera þar. Enda ferðu þaðan bráðum.“ Í lok bréfsins er skorað á Sigurð að yfirgefa samfélagið vegna gagnrýni hans á fasismann. „Við vitum vel, að allt sem frá þínum munni fér, er ósannindavaðall, framsettur í eigínhagsmunaskyni, þrunginn monti og öfgum. Þú ættir sem fyrst aftur að hverfa héðan, þú ert búinn að verða þér nóg til skammar og vlð viljum ekki ala þig lengur hér.“
Í síðasta tölublaði Fasistans í Vestmannaeyjum var fjallað „óhlutdrægt“ um nasismann og Hitler, með því að vitna í bók með ræðum hans: „Hið unga Þýskaland vill frið og vinnu“. Því Hitler vildi auðvitað frið, eins og það horfði við sumum 1933. Og endurreisa mikilfengleika Þýskalands, sem „hún gæti ekkert gert, ef hún hefði ekki starfsfrið og ætti alltaf í vök að verjast“. Þetta var allt sjálfsvörn.
„Eins og fasisminn á Ítalíu er verk Mussolinis að miklu leyti, eins er nazisminn þýski einnig að mestu verk eins manns: Adolfs Hitler. Að dæma nú þegar um menn þessa eða starf þeirra, er of snemmt. Sagan á eftir að gera það.“
Sagan á sér ennþá stað. Þótt aðstæður séu öðruvísi er sameiginlegt hlutverk okkar að reyna að greina þá krafta sem liggja að baki áður en það verður of seint.
Áherslan á að grafa undan fjölmiðlum er skiljanleg og praktísk fyrir valdsækna leiðtoga. Tilhneigingin til að ráðast gegn einstökum fréttamönnum er þeim sameiginleg, hvort sem um er að ræða Donald Trump, austurríska Frelsisflokkinn eða fulltrúa pólska stjórnarflokksins Laga og réttlætis. Á dögunum gekk sendiherra Póllands svo langt að senda yfirlýsingu á forsætisráðherra og forseta Íslands um nafngreindan blaðamann Stundarinnar og sagði að frétt hans um að fasískar þjóðernishreyfingar hefðu gengið með stjórnmálamönnum í miðborg Varsjár á sjálfstæðisdegi Pólverja væri falsfrétt sem skaðaði samskipti Íslands og Póllands. Sendiherrann álítur eðlilegt að taka einstaka blaðamenn fyrir og blanda valdhöfum inn í málið, og staðfesti þar með þá gagnrýni sem ríkisstjórn hans hefur fengið fyrir ólýðræðislega stjórnarhætti.
Athugasemdir