Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra fullyrðir að aukna tíðni vopnaðra útkalla sérsveitar ríkislögreglustjóra á árunum 2016-2017 megi skýra af aukinni tíðni tilkynninga vegna vopnaðra einstaklinga. Útköllum sérsveitar ríkislögreglustjóra fjölgaði um 175 prósent á milli áranna 2016-2017. Á sama tíma fjölgaði tilkynningum um vopnaða einstaklinga um 109 prósent. Þannig fjölgaði vopnuðum útköllum sérsveitarinnar töluvert umfram tilkynningar um vopnaða einstaklinga á þessu sama tímabili. Ráðherra nefnir einnig breytingu á eðli brota og „samsetningu brotamanna í landinu“ sem ástæður fyrir auknum vopnaburði lögreglu, í svari við skriflegri fyrirspurn Smára McCarthy, þingmanns Pírata.
Þingmaðurinn spyr meðal annars hver skýringin sé á töluvert aukinni tíðni slíkra verkefna og útkalla á árinu 2017 umfram önnur ár. Ráðherra, sem vísar í upplýsingar frá embætti ríkislögreglustjóra, segir að „tilkynningum um fjölda vopnaðra einstaklinga fjölgað undanfarin ár og þar af leiðandi útköllum til að sinna þeim verkefnum.“
Sérsveit ríkislögreglustjóra fór í 52 vopnuð útköll árið 2003 en þeim fjölgaði jafnt og þétt næsta áratuginn eða svo og voru þau orðin 108 árið 2016. Slíkum útköllum fjölgaði svo snarlega upp í 298 árið 2017 og þrefölduðust þannig næstum því á milli ára. Þá fór fjöldi tilkynninga um vopnaða einstaklinga frá því að vera 65 árið 2011 yfir í 83 árið 2016. Ári síðar var tilkynnt um 174 slíkt tilfelli, að því er fram kemur í tölum sem ráðherra birtir frá ríkislögreglustjóraembættinu.
Þingmaðurinn spyr einnig hvaða breytingar hafi verið gerðar á starfsreglum, málaflokkum eða aðgerðavenjum lögreglu á undanförnu ári. Í svari dómsmálaráðherra kemur fram að ekki hafi verið gerðar neinar breytingar á þessum sviðum varðandi sérsveit ríkislögreglustjóra. Þá spyr hann ráðherra hvort þaðsé í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar í löggæslumálum að fjölga vopnuðum verkefnum og útköllum lögreglu. Ráðherra segir svo ekki vera. Það sé hinsvegar hlutverk lögreglu að bregðast við þeim tilkynningum sem henni berast í samræmi við ákvæði lögreglulaga.
Athugasemdir