Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, mun í dag leggja fram á Alþingi frumvarp sem gerir ráðherra heimilt að veita fyrirtækjum í laxeldi bráðabirgðaleyfi til allt að tíu mánaða, að undangenginni umsögn Matvælastofnunar. Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála felldi á fimmtudag úr gildi starfsleyfi tveggja laxeldisfyrirtækja, Arctic Sea Farm og Fjarðalax.
Óttast er um allt að 300 störf á Vestfjörðum ef fyrirtækin þurfa að hætta rekstri. Haft er eftir Höllu Signýju Kristjánsdóttur, þingmanni Framsóknarflokksins úr kjördæminu, í Fréttablaðinu í dag að gjaldþrot fyrirtækjanna hafi komið til tals. Þá herma heimildir blaðsins að viðskiptabanki Arctic Sea Farm hafi gert fyrirtækinu grein fyrir að afturköllun á rekstrarleyfi geti þýtt riftun lánasamnings bankans við það.
„Þetta er dagaspursmál því þeir sjá stefnuleysið í málaflokknum og vandræðaganginn og hafa kallað fyrirtækin að borðinu og viljað fá svör,“ segir Halla Signý við Fréttablaðið. „Fyrirtækin hafa sagt atvinnuveganefnd þetta og ég sem þingmaður kjördæmisins hef verið fyrir vestan og hef verið að heyra þetta.“
Þá hefur Morgunblaðið eftir Sigurði Péturssyni, framkvæmdastjóra hjá Arctic Sea Farm, að úrskurðurinn hafi skapað mikla óvissu í Patreks- og Tálknafirði. „Þetta er flókið mál og mér finnst kerfið hafa klikkað. Kerfið gerir ekki ráð fyrir því að það er fólk fyrir vestan sem hefur lífsviðurværi sitt af þessari starfsemi. Um 25% fjölskyldna á sunnanverðum Vestfjörðum hafa beina afkomu af fiskeldi,“ segir Sigurður.
Athugasemdir