Lítill munur er á verði í Bónus og Krónunni, en verslunin Iceland var oftast með hæsta verðið. Oftast var yfir 40% verðmunur á hæsta og lægsta verði. Þetta kemur fram í nýrri verðkönnun verðlagseftirlits ASÍ sem gerð var 28. ágúst.
Samkvæmt könnuninni var í um þriðjungi tilfella yfir 60% munur á hæsta og lægsta verði. Ódýrasta matarkarfan var í Bónus á 8.210 kr., en hún var aðeins 27 krónum dýrari í Krónunni og oftast fárra króna munur á einstaka vörum. Hagkaup var með næstdýrustu körfuna á 9.469 kr. og var sú dýrasta í Iceland á 10.612 kr.
Í könnuninni var hilluverð á 100 vörum skráð niður og ef afsláttur var skráður á hillu var hann tekinn til greina. Könnunin var framkvæmd í öllum verslunum á sama tíma. „Neytendur geta því auðveldlega sparað sér töluverðar upphæðir með því að versla þar sem vöruverð er lágt,“ segir í tilkynningu ASÍ.
Töluverður munur getur verið á einstaka vörutegundum. Þannig er ódýrasta Cherrio's á mun lægra verði í Krónunni en Bónus, eða 753 krónur kílóið, annars vegar, og 1.149 krónur kílóið, hins vegar. Libero-bleyjur eru á móti rúmlega 100 krónum ódýrari í Bónus en Krónunni, 595 krónur og 698 krónur pakkinn.
Verslun Costco var einnig tekin með í verðkönnuninni, en þar sem vöruúrval þar reyndist illa sambærilegt við hinar verslanirnar er ekki hægt að bera saman verð á vörukörfu þar og annars staðar. Bláber voru hins vegar langsamlega ódýrust í Costco, en á móti kemur að ýsuflökin voru þar dýrust, appelsínurnar voru þar töluvert dýrari en í Bónus, sem og bananar og sætar kartöflur.
Nánar má lesa um verðkönnunina á vefsíðu ASÍ.
Athugasemdir