Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir höfrungahlaupið sem hafi tíðkast á íslenskum vinnumarkaði gangi ekki, og hann segir: „Af okkar hálfu er lögð áhersla á það að við náum samningum sem eru í takti við aðra.“ Það er gríðarleg mótsögn í þessum ummælum, en þetta samræmist tréspýtukubba-umræðuhefðinni sem hann hefur tamið sér. Ég lofaði aldrei spýtu, ég lofaði kubbi. Ég hef aldrei minnst á tré, en ég lofaði spýtum.
Bjarni, ásamt þingheimi, tóku sér, eins og alþjóð þekkir, launahækkun, 45% fyrir ári síðan, þvert ofan í það sem hann hafð samið um við samtök vinnumarkaðarins. Þar var rætt um að stöðva höfrungahlaup, en Bjarni tók hins vegar risastökk sem setti alla forustu launþegasamtaka í þá stöðu að verða að ná jafnlöngu stökki.
Margvísleg sjálftaka þingmanna
Það hefur einnig komið fram að þingmenn hafa tekið sér margs konar möguleika til sjálftöku sem þekkist ekki hjá öðrum launamönnum. Þeir hafa til dæmis afgreitt heimild til þingmanna um að þeir mega gefa fólki blóm fyrir allt að 25 þúsund krónur í hverjum mánuði og senda reikninginn til fjármálaráðherra. Þeir geta auk þess styrkt sjálfa sig og ríkissjóður greiðir reikninginn.
Þingheimur hefur einnig veitt sér mun ríkari heimildir í ferða- og dagpeningum en aðrir launamenn hafa. Þingheimur hefur ákveðið að allir aðrir launamenn en þeir sjálfir verði að fara eftir þeim útreikningum sem ferðakostnaðarnefnd sendir reglulega frá sér. Samkvæmt þeim reglum fá launamenn ákveðna dagpeninga og þeir verða að duga fyrir öllum ferðakostnaði, hótelum og uppihaldi.
Launamenn fá einungis þá upphæð sem ferðakostnaðarnefnd ákveður sem endurgjald fyrir ekna km launamanns fyrir vinnuveitanda. Samkvæmt gildandi kjarasamningum greiðir vinnuveitandi einungis kostnað af þeim ferðum sem fyrirtækið ákveður og allt er gefið upp til skatts samkvæmt reglum sem Alþingi hefur sett öllum öðrum launamönnum en þingheimi. Þingmenn hafa hins vegar sett sér þær reglur að ríkissjóður greiðir allan hótelkostnað í utanlandsferðum, en þingheimur fær að auki dagpeninga.
Lífeyrir þeirra ekki skertur
Ákvörðum þingheims að hækka laun sín um 45% skilar sér beint í hækkun lífeyrisgreiðslna. Þar skiptir engu hvort lífeyrissjóður þingheims eigi innistæður fyrir þessum gríðarlega kostnaðarauka. Starfsfólk lífeyrissjóðs þeirra reiknar bara út á gamlársdag hvað vanti mikið í lífeyrissjóðinn þeirra svo hann geti staðið undir skuldbindingum og fjármálaráðherra leggur síðan inn á reikning lífeyrissjóðsins, á sama tíma og öðrum lífeyrissjóðum er gert samkæmt lögum frá Alþingi að skerða réttindi lífeyrisþega, eigi viðkomandi lífeyrissjoður ekki fyrir skuldbindingum sínum.
Ríkisstjórnin lofaði fyrir og eftir kosningar að bæta kjör aldraðra og öryrkja. Ekkert hefur verið gert til þess að standa við þau loforð. Ekkert hefur verið gert utan þess að skipa nefnd til þess að svæfa málið fram á næsta vetur.
Samninganefnd ríkisstjórnarinnar hefur lagt fram tilboð um 4,27% launahækkun hjá ljósmæðrum. Samningamenn fjármálaráðherra hafa síðan boðið upp á margs konar útfærslur en það komi ekki til greina að launakostnaðaraukinn verði hærri. Í því sambandi má benda á það sem getið er hér ofar að þingheimur notar allt aðrar reglur um eigin kjör.
Ef launamenn vildu fá sams konar reglur og þingheimur hefur tekið sér, það er ferða- og uppihaldskostnað, kostnað þingmanna vegna tölva, síma, dagblaða, fatakostnað, styrki, blómakostnað og svo maður tali nú ekki um raunkostnað vegna lífeyrisgreiðslna þingheims, þá myndu samningamenn vinnuveitenda reikna út raunkostnað vegna þessa og samninganefndum launamanna gert að velja á milli launahækkana eða þær lækkuðu um annan kostnaðarauka. Nákvæmlega eins og samninganefnd fjármálaráðherra gerir við ljósmæður og aðra starfsmenn ríkisins. (Utan þingmanna).
Athugasemdir