Nýir ársreikningar tveggja stórra ferðaþjónustufyrirtækja í eigu flugrisans Icelandair endurspegla þann samdrátt sem á sér nú stað í íslenskri ferðaþjónustu.
Hagnaður Flugleiðahótela ehf., fyrirtækis sem rekur 19 hótel í landinu undir merkjum Icelandair og Eddu, og ferðaskrifstofunnar Iceland Travel ehf. dróst saman um 32 og 35 prósent milli áranna 2016 og 2017 samkvæmt nýbirtum ársreikningum beggja fyrirtækja. Hagnaður Flugleiðahótela var tæplega 247 milljónir króna í fyrra en 361 milljóna króna 2016; hagnaður Iceland Travel var tæplega 335 þúsund evrur 2017, tæplega 42 milljónir króna, en 512 þúsund evrur 2016, tæplega 61 milljón króna.
Mikið hefur verið rætt um harðnandi árferði í íslenskri ferðaþjónustu síðustu mánuði og spurt hvað sé til ráða. Eftir því sem fleiri ársreikningar ferðaþjónustufyrirtækja verða opinberir skýrist myndin af stöðunni í geiranum betur.
Meira selt en minni hagnaður
Nýlega var greint frá því að Icelandair hefði ákveðið að reyna að selja hótelkeðjuna. Í samtali við Stundina sagði Bogi Nils Bogason, fjármálastjóri Icelandair, að þetta væri gert til að skerpa fókusinn í starfseminni. „Icelandair Group er í eðli sínu flugfélag. Flugrekstur er okkar kjarnastarfsemi og er um 85% af veltu samstæðunnar. Miðað við okkar áætlanir mun þetta hlutfall aukast á næstu árum. Ákvörðunin nú snýst um að setja enn meiri rekstrar- og stjórnunarlegan fókus á flugreksturinn hjá Icelandair.“
Ársreikningur Flugleiðahótela, og minnkandi hagnaður, lá ekki fyrir þegar Stundin spurði Boga þessara spurninga en hann gerir það nú.
Bogi sagði að ákvörðunin um að selja hótelin snerist ekki um samdrátt í rekstrinum. „Ákvörðunin núna tengist ekki afkomunni heldur skýrari fókus í starfseminni.“
Ársreikningur Flugleiðahótela sýnir hins vegar að jafnvel þótt tekjur fyrirtækisins hafi aukist úr nærri 9,3 milljörðum upp í rúmlega 10,1 þó dróst hagnaðurinn saman um meira en 100 milljónir króna, að langmestu leyti vegna aukins kostnaðar við starfsemina. Flugleiðahótelin eru því tvímælaust ekki að skila þeirri arðsemi sem þau gerðu áður.
Bogi Nils neitaði því hins vegar að þetta væri skýringin á vilja Icelandair til að selja hótelin. „Í hreinskilni sagt þá hefðum við ekki sett félagið í söluferli ef við teldum horfurnar slæmar því það myndi að sjálfsögðu hafa neikvæð áhrif á verðið. Við höfum alltaf spáð því að það myndi hægja á fjölgun ferðamanna til landsins og teljum það reyndar heilbrigða þróun. Landið getur ekki tekið við tugprósenta aukningu ár eftir ár,“ sagði hann.
Fyrst staða félagsins var svona í fyrra má búast við því að hagur Flugleiðahótela verði verri á þessu ári, að frekari samdráttar muni gæta, þar sem staðan í ferðaþjónustunni er almennt séð þyngri í ár en í fyrra. Þá er gistinóttum að fækka milli ára en síðastliðin ár hefur verið stöðug aukning í notkun ferðamanna á hótelum á Íslandi.
Hagstofa Íslands greindi frá því lok maí að gistinóttum hefði fækkað um 7 prósent á milli áranna 2017 og 2018, farið frá 576600 niður í 534700. Á sama tíma er ljóst að komur ferðamanna eru fyrst nú, einnig eftir áralanga stöðuga fjölgun ferðamanna, byrjaðar að standa í stað en samanburður á fyrstu fjórum mánuðum ársins í ár og í fyrra sýnir svo litla fjölgun ferðamanna að tala má um stöðnun.
Launahækkanir vega þungt
Eitt af því sem aðilar í ferðaþjónustu hafa bent á sem skýringu á versandi afkomu eru launahækkanir sem tóku gildi á síðasta ári. Þannig lýsti Björn Ragnarsson, framkvæmdastjóri Kynnisferða, versnandi afkomu fyrirtækisins á síðasta ári en þá var tugmilljóna tap á rútufyrirtækinu: „Það er ýmislegt. Krónan styrktist umtalsvert í fyrra og hafði það töluverð áhrif. Launaþróun hefur verið töluvert upp á við, sérstaklega lægri laun, en mikið er um slík störf hjá ferðaþjónustufyrirtækjum. Þetta er mjög mannfrek starfsemi og fer um helmingurinn af tekjum í launakostnað. Þetta rífur mikið í.“
Í samtali við Stundina tók framkvæmdastjóri rútufyrirtækisins Hópbíl í svipaðan streng og lýsti hann árinu 2018 sem „þungu“: „Þetta er gríðarlega þungt núna víðast hvar. Ég held að fólk átti sig ekki á því hvað það er þungt að vera með mikið af tekjum í erlendri mynt, og fá svo 20 til 25 prósent drop þar út af genginu, og fá svo kostnaðarhækkanir, sérstaklega á launalið, auk íþyngjandi opinberra gjalda. Stjórnvöld hafa hingað til tekið þessu sem sjálfsögðum hlut af því það hefur gengið mjög vel en nú er að koma annað hljóð í strokkinn og ég held að það þurfi að fara mjög varlega á næstu árum,“ sagði Guðjón.
„Það strandaði eiginlega hvorugum megin“
Talsverðir erfiðleikar blasa því við rútufyrirtækjunum sem og öðrum ferðaþjónustufyrirtækjum. Eitt af þessum fyrirtækjum er rútufyrirtækið Gray Line.
Hættu við sameininguna
Gray Line tengist dótturfélagi Icelandair, Iceland Travel ehf. þannig að til stóð að fyrirtækin myndu sameinast í fyrra. Eins og Stundin fjallaði um fyrir skömmu sendi Icelandair Group frá sér tilkynningu í október 2017 um að hætt hefði verið við viðskiptin af ótilgreindum ástæðum.
Í nýlegu svari við fyrirspurn Stundarinnar um ástæður þessarar ákvörðunar sagði Bogi Nils gefi ekki upp forsendur samningsslitanna: „Eins og fram kemur í tilkynningunni þá ákváðu samningsaðilar að hætta við samrunann eftir að niðurstöður áreiðanleikakannana lágu fyrir. Við höfum og munum ekki tjá okkur frekar um málið.“ Til stóð að Icelandair myndi eiga 70 prósent í hinu sameinaða félagi og eigendur Gray Line 30 prósent.
Þá vildi Sigurdór Sigurðsson, framkvæmdastjóri Gray Line, heldur ekki gefa upp ástæðuna: „Það er trúnaður á milli okkar um það. […] Það strandaði eiginlega hvorugum megin,“ sagði hann en tap var á rekstri Gray Line árið 2017 og hefur 49 prósenta hlutur fjárfestingarfélags í eigu lífeyrissjóðanna sem keypti í Gray Line verið færður niður úr 1400 milljónum og niður í 900 milljónir.
Tekjuaukning en hagnaðarsamdráttur
Ársreikningur Iceland Travel sýnir talsverðan samdrátt í rekstrinum milli ára. Tekjur voru umtalsvert hærri 2017 en 2016, fóru úr rúmlega 82 milljónum evra og upp í tæplega 105 milljónir evra árið 2017. Um var að ræða tekjuaukningu upp á 28 prósent. Á sama tíma minnkaði hagnaður fyrirtækisins um nærri 35 prósent á milli ára. Hagnaðurinn fór úr tæplega 512 þúsund evrum og niður í tæplega 335 þúsund evrur. Ástæðan fyrir þessu er að kostnaðaraukningin við starfsemina núllaði út hagnaðaraukninguna í starfseminni og gott betur. Stóra spurningin er svo hvernig bókhald fyrirtækisins lítur út núna þar sem samdrátturinn í ferðaþjónustunni hefur víðast hvar aukist á milli ára.
Athugasemdir