Borgarstjóri og bæjarstjórar á höfuðborgarsvæðinu fá sérstakar greiðslur umfram laun sín fyrir setu í stjórn Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins. Heildarupphæð þessara greiðslna er tæpar 11 milljón krónur á ári. Fimm fundir hafa verið haldnir í stjórninni það sem af er ári.
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, fær 205.172 kr. á mánuði fyrir formennsku í stjórn slökkviliðsins. Aðrir stjórnarmenn fá 136.781 kr. á mánuði, en þeir eru Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs, Ásgerður Halldórsdóttir, bæjastjóri Seltjarnarness, Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar, Haraldur L. Haraldsson, bæjarstjóri Hafnarfjarðar, og Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri Mosfellsbæjar.
Þá fá þeir varamenn sem taka sæti á stjórnarfundum í forföllum bæjarstjóranna 16.670 kr. fyrir hvern fund. Það sem af er árinu 2018 hafa fimm fundir verið haldnir í stjórninni, en þeir voru alls níu talsins í fyrra og sjö á árinu 2016. Fundir taka að jafnaði einn til tvo tíma, samkvæmt fundargerðum.
Athugasemdir