Útlendingastofnun hefur ekki gefið út ársskýrslur síðustu þrjú ár og er ástæðan sögð miklar annir innan stofnunarinnar. Síðasta ársskýrsla stofnunarinnar er frá árinu 2014. Stofnunin brýtur með þessu lög um en henni er skylt að gefa út skýrslu um starfsemi sína árlega.
Þetta kemur fram í svari dómsmálaráðherra við fyrirspurn Helga Hrafns Gunnarssonar, þingmanns Pírata, en hann beindi skriflegri fyrirspurn til ráðherra um ársskýrslur stofnunarinnar. Eftir því sem kemur fram í svarinu var leitað upplýsinga hjá Útlendingastofnun. Stofnunin hefur ekki gefið út ársskýrslur frá árinu 2014 og er ástæðan sögð vera miklar annir vegna fordæmalausrar fjölgunar umsókna um alþjóðlega vernd. Þá er greint frá því að ársskýrslur vegna áranna 2015, 2016 og 2017 séu í vinnslu og stutt sé í að ársskýrsla síðastnefnda ársins komi út.
Í lögum um útlendinga nr. 80/2016 kemur fram að Útlendingastofnun skuli árlega gefa út skýrslu um starfsemi sína. Það hefur hún sem fyrr segir ekki gert frá árinu 2014.
Mikil fjölgun árið 2016
Árið 2014 sóttu 175 manns um hæli, eins og það var þá nefnt, hér á landi. Það er sambærilegur fjöldi og árið áður en þá voru umsóknirnar 172 og árið 2012 voru umsóknir 118 talsins. Árið 2015 tvöfaldaðist fjöldi umsókna um alþjóðlega vernd frá árinu 2014 en umsóknir voru þá 354 talsins. Árið eftir, 2016, varð hins vegar sprenging í umsóknum en þá sóttu 1.132 um alþjóðlega vernd hér á landi. Litlu færri sóttu um í fyrra eða 1.096.
Nánast öllum hafnað um vernd
Hvað mest fjölgun varð á umsóknum um vernd frá albönskum ríkisborgurum á þessum árum en árið 2015 komu 108 umsóknir frá Albaníu, 256 árið 2016 og 262 árið 2017. Fjöldi manns frá Georgíu sótti einnig um hæli árin 2016, 42 talsins, og 2017 þegar umsóknir voru 289 talsins. Þá sóttu 27 manns frá Makedóníu um vernd hér á landi árið 2015, 468 árið 2016 og 53 árið 2017. Ekki liggja fyrir niðurstöður um afdrif umsókna fyrir árið 2017 en aðeins einum Georgíumanni var veitt vernd hér á landi árið 2015. Öllum öðrum umsóknum frá Georgíu, Albaníu og Makedóníu var ýmist synjað eða þær dregnar til baka. Löndin þrjú eru öll metin örugg af Útlendingastofnun og á þeim grunni er umsækjendum þaðan almennt synjað um vernd.
Langveik börn flutt úr landi
Mikla athygli og almenna reiði vakti þegar tvær albanskar fjölskyldur voru fluttar með lögregluvaldi burt af landinu um miðja nótt á aðventunni árið 2015, Pepaj-fjölskyldan og Lalaj-fjölskyldan. Í báðum tilfellum voru langveik börn með í för. Arjan Lalaj, sem þá var eins árs, fæddist með hjartagalla og kom faðir hans með hann hingað til lands í von um að hann kæmist í aðgerð vegna þess. Ekki varð þó af því þar eð föður hans var tjáð að sonur hans fengi ekki aðgerð hér á landi og dró hann því umsókn sína til baka. Kevi Pepaj, þá þriggja ára, var einnig fluttur úr landi með fjölskyldu sinni en Kevi er með ólæknandi slímseigjusjúkdóm.
Eftir almenn mótmæli og reiðiöldu sem reið yfir íslenskt samfélag var fjölskyldunum báðum veittur ríkisborgarréttur og sneru þær báðar til landsins á nýjan leik í janúar 2016.
Fleiri stofnanir trassa ársskýrslugerð
Útlendingastofnun er ekki eina ríkisstofnunin sem hefur trassað að gefa út ársskýrslur síðustu ár. Stundin greindi frá því í síðasta mánuði að Fangelsismálastofnun hefði ekki gefið út ársskýrslur frá árinu 2013 og aukinheldur ekki uppfært tölfræði á heimasíðu sinni. Forstjóri stofnunarinnar sagði þá að stofnunin hefði hætt að gefa út ársskýrslur því slíkt hafi bara verið „peningasóun.“
Athugasemdir