Orð Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra fyrr í dag um að ríkisstjórnin hefði ekki lýst sérstökum stuðningi við loftárásir á aðstöðu sýrlenskra stjórnvalda í gærkvöldi stangast á við yfirlýsingu hernaðar- eða varnarbandalagsins NATÓ, sem Ísland er aðili að.
Svo virðist sem á reiki sé hvort ríkisstjórn Ísland styðji loftárásirnar eða ekki, en fulltrúi Vinstri grænna í utanríkismálanefnd Alþingis hefur lýst yfir andstöðu sinni við þær, og þingmaður flokksins lýsti ánægju sinni með að ríkisstjórnin hefði ekki stutt loftárásirnar. Framkvæmdastjóri NATÓ segir hins vegar aðra sögu.
„Allar NATÓ-þjóðir lýstu fullum stuðningi við aðgerðir gærkvöldsins,“ sagði Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATÓ, í yfirlýsingu í dag.
„Við höfum ekki lýst sérstökum stuðningi við þessar aðgerðir, ríkisstjórnin,“ sagði Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna, hins vegar við Ríkisútvarpið í dag.
Stefna Vinstri grænna gerir ráð fyrir því að Ísland eigi að „standa utan hernaðarbandalaga“ og „tala fyrir friði hvarvetna í alþjóðasamfélaginu og beita sér fyrir pólitískum lausnum á átökum“.
Því var Katrín spurð að því af fréttamanni Ríkistúvarpsins hvort ríkisstjórn hennar styddi loftárásirnar í Sýrlandi í gærkvöldi, sem gerðar voru af herjum Frakklands, Bretlands og Bandaríkjanna. Rúv spurðu, hvort hún styddi, „sem formaður Vinstri grænna“.
„Við höfum alltaf talað fyrir friðsamlegum lausnum og gerum það enn þá. Það er bara í takti við stefnu íslenskra stjórnvalda um þessi mál.“
„Við höfum ekki lýst sérstökum stuðningi við þessar aðgerðir, ríkisstjórnin, en við höfum sagt að þær hafi verið viðbúnar.“
Þá var hún spurð hvort hún sjálf styddi árásirnar: „Við höfum ekki lýst sérstökum stuðningi við þessar aðgerðir, ríkisstjórnin, en við höfum sagt að þær hafi verið viðbúnar.“
Katrín sagði engu að síður, að afstaða íslenskra stjórnvalda væri ljós. „Það sem gerist næst í þessum málum er að ég vænti þess að það verði fundað í NATO í dag en afstaða íslenskra stjórnvalda liggur algjörlega fyrir í þessum málum.“
Rússar hafa hótað viðbrögðum við loftárásunum.
Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður Vinstri grænna og varaformaður utanríkismálanefndar, hefur lýst því yfir að hún styðji ekki loftárásirnar.
„Ég er ánægður með að ríkisstjórn Íslands hafi ekki lýst yfir stuðningi við árásina“
Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður Vinstri grænna, lýsti yfir ánægju sinni með að íslensk stjórnvöld hefðu ekki lýst stuðningi við loftárásirnar. „Ég er ánægður með að ríkisstjórn Íslands hafi ekki lýst yfir stuðningi við árásina, öfugt við ýmsar ríkisstjórnir nágrannalanda okkar til dæmis,“ sagði hann.
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra var einnig spurður af því í dag hvort Ísland myndi lýsa yfir stuðningi við loftárásirnar sagði hann að næsta skref væri að ræða þær á vettvangi Nató. „Síðan verður þetta rætt á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og þar auðvitað ræðum við þessa hluti með okkar bandalagsþjóðum. Við höfum sett mjög skýr skilaboð eins og fram hefur komið í dag en við eigum eftir að sjá hvernig þessi mál þróast.“
Athugasemdir