„Í dag, var tveim efnavopnasprengjum varpað á óbreytta borgara í Sýrlandi. Þess vegna mun ég ekki halda afmælið mitt hátíðlega í dag. Vinsamlegast óskið mér ekki til hamingju með daginn,“ skrifar sýrlenski klæðskerinn Maher Al Habbal á Facebook síðu sína. Í dag afþakkar hann allar afmæliskveðjur og syrgir þá sem létust eða slösuðust í heimalandi hans.
Maher býr ásamt eiginkonu sinni, mannréttindalögfræðingnum Hiba Al Jaraki, og dætrum þeirra tveim á Íslandi. Maher flúði stríðsátök í Sýrlandi, þar sem heimili fjölskyldunnar hafði verið sprengt upp og eiginkona hans var á lista yfir fólk sem Isis vildi afhöfða. „Ég ákvað að fara til Íslands af því á Íslandi eru ekki þessi vopn. Það var fyrsta ástæðan,“ sagði Maher í ítarlegu viðtali á Stundinni.
Í morgun var tveim sprengjum varpað á bæinn Khan Sheikhun í Idlib-héraði í Sýrlandi og talið er að um efnavopn hafi verið að ræða. Að minnsta kosti 67 óbreyttir borgara létu lífið og að minnsta kosti 200 særðust. Fréttaveitan The Guardian greinir frá þessu.
Bærinn er á valdasvæði uppreisnarhersins sem fullyrðir að stjórnarherinn hafi beitt taugagasinu sarín. Allar vísbendingar benda til að efnavopnum hafi verið beitt en stjórnvöld í Sýrlandi neita þeim ásökunum.
Börn létust
Fyrstu sprengjunni var varpað um klukkan sex í morgun þegar margir íbúanna voru í fasta svefni. „Mikið af börnum létust í árásánunum. Margir slösuðust og aðrir reyndu að hjálpa börnunum og koma þeim á spítalann. Þá var seinni sprengjunni varpað, á spítalann,“ segir Hiba Al Jakari, eiginkona hans.
Maher ferðaðist frá Sýrlandi, yfir meginland Evrópu, alla leið til Íslands. Hér vildi hann setjast að með fjölskyldu sinni, veita börnunum sínum heimili og hefja nýtt líf. Þau fylgjast vel með stíðsástandinu í heimalandi sínu og syrgja í dag fallna landa sína. Foreldrar hans eru búsett Damaskus í Sýrlandi. Ekki er hægt að hringja á milli en heldur Maher sambandi við fjölskyldu sína með því að senda hljóðupptökur sín á milli þar sem þau segja frá ólíku lífi sínu, í Sýrlandi og á Íslandi.
Sameinuðu þjóðirnar munu setja af stað rannsókn á árásinni í dag og á morgun mun Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna funda vegna málsins.
Alþjóðasamfélagið áhyggjufullt
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra mun á morgun taka þátt í alþjóðlegri ráðstefnu um Sýrland sem ber yfirskriftina „Stuðningur við framtíð Sýrlands og nágrannaríki þess.“ Hann lýsir yfir áhyggjum og segir: „Í ljósi þess að alþjóðasamfélagið er að koma saman á morgun til að ræða ástandið í Sýrlandi og viðbrögð við því, eru skelfilegar fréttir sem berast frá Sýrlandi um enn eina árás á óbreytta borgara; árás þar sem allt bendir til að eiturefnum hafi verið beitt,“ segir Guðlaugur Þór.
Myndband af afleiðingum árásarinnar hefur verið birt í erlendum miðlum á borð við Time. Þar má sjá saklausa borgara í sárum. Ungur strákur lýsir því hvernig hann vaknaði upp við árásina, hljóp út úr húsinu en varð að leggjast niður vegna höfuðverks og sofnaði. Að minnsta kosti ellefu börn létust í árásinni, sem er talin vera öflugasta efnavopnaárásin síðan stríðið í Sýrlandi hófst fyrir sex árum síðan. Stuttu síðar var önnur árás gerð á sjúkrahús í bænum þar sem hlúð var að særðum.
Athugasemdir