Í september 1919 átti sér stað einn örlagaríkasti atburður 20. aldar.
Atburður sem réði lífi og dauða tugmilljóna manna um allan heim.
Hann lét samt ekki mikið yfir sér.
Það eina sem gerðist var að heldur flóttalegur og óstyrkur maður um þrítugur birtist á skrifstofu Hans Georgs Grassingers sem var stofnandi lítils stjórnmálaflokks sem hafði árið áður verið stofnaður í München.
Grassinger, sem var í óða önn að ganga frá nýjasta hefti af málgagni flokksins, mátti varla vera að því að tala við hinn nýkomna.
Gesturinn náði samt að lokum að stynja upp erindinu.
Hann langaði að ganga í flokkinn hans Grassingers, sem hét Þýski sósíalistaflokkurinn.
Þrátt fyrir nafnið er sá flokkur talinn hafa verið öfgaflokkur til hægri en ekki vinstri, því þjóðernisofstopi var miklu ríkari þáttur í hugmyndafræði hans en sósíalisminn.
Flokkurinn var einn margra sem höfðu verið stofnaðir í Þýskalandi eftir lok fyrri heimsstyrjaldar og gerðu út á óánægju Þjóðverja með hrunið í stríðslok.
Hann var ekki fjölmennur en þó var þróttur í honum og hann hafði greinilega náð að höfða til þessa aðkomumanns sem mættur var á skrifstofu Grassingers.
Undir venjulegum kringumstæðum hefði Grassinger náttúrlega átt að fagna hverjum nýliða og skrá manninn umsvifalaust í flokkinn.
Sérstaklega þegar hann sagðist áhugasamur um að skrifa líka í málgagn Þýskra sósíalista.
Það var alltaf þörf fyrir góða penna í baráttuna, vissi Grassinger.
En þá kom babb í bátinn.
Allt í einu stundi maðurinn upp að hann væri því miður ansi blankur þessa stundina, og gæti Grassinger kannski lánað sér smá pening um leið og hann skráði hann í flokkinn?
Grassinger blöskraði þessa frekja. Að bláókunnugur maður væri að reyna slá hann um pening á fyrsta degi!
Hann tilkynnti manninum hofmóðugur í fasi að hann þyrfti engar greinar í málgagnið.
Og nærveru hans væri alls ekki óskað í flokknum.
Allra síst mundi hann lána honum svo mikið sem eitt mark!
Maðurinn gnísti tönnum, en lúpaðist út.
Örfáum vikum síðar frétti Grassinger af því að þessi maður hefði fundið sér annan stjórnmálaflokk að ganga í, Þýska verkamannaflokkinn, sem fiskaði líka á miðum þjóðernishyggju, en var miklu minni en Þýski sósíalistaflokkurinn.
Það var spurning hvort meðlimatalið næði einhverjum tugum.
En þarna var maðurinn sem Grassinger hafnaði altént lentur, og 16. október hélt hann sína fyrstu ræðu á fundi hjá Þýska verkamannaflokknum.
Adolf Hitler.
Hann uppgötvaði þá, sjálfum sér til undrunar, að úr ræðustól var honum lagið að hrífa fólk með sér og hinn uppburðarlitli umsækjandi um pláss í Þýska sósíalistaflokknum varð nálega í einni svipan öruggur og aðsópsmikill foringi í sínum nýja flokki.
Og Þýski verkamannaflokkurinn ummyndaðist á skömmum tíma yfir í þýska Nasistaflokkinn.
Lengra þarf ekki að rekja þá sögu.
Þessi saga - um að Hitler hafi upphaflega ætlað sér að ganga í Þýska sósíalistaflokkinn en verið hafnað og því endað í Nasistaflokknum - hún er sögð í fyrsta sinn í væntanlegri bók eftir þýska sagnfræðinginn Thomas Weber sem heitir Becoming Hitler: The Making of a Nazi.
Weber fann rykfallin plögg úr fórum Grassingers í München og heldur því fram fullum fetum að ef Gassinger hefði ekki orðið svo hneykslaður á beiðni hins blanka Hitlers um pening að hann vísaði honum á bug með skömm, þá sé líklegt að mannkynssagan hefði orðið allt önnur en hún varð.
Því þótt Þýski sósíalistaflokkurinn hafi vissulega ekki verið mjög stór, þá var hann þó miklu stærri en Þýski verkamannaflokkurinn sem Hitler gekk síðan í.
Weber heldur því fram að ef Grassinger hefði hleypt honum í Þýska sósíalistaflokkinn hefði Hitler engan veginn fengið sæti á fremsta bekk og „ólíklegt er að hann hefði nokkru sinni komist til valda,“ sagði Weber í viðtali við vefsíðu Guardians á Bretlandi. Fram að því að hann fór að láta að sér kveða í hinum örfámenna Þýska verkamannaflokki hafi Hitler „ekki sýnt af sér neina sérstaka leiðtogahæfileika og verið ánægður með að fylgja skipunum fremur en að gefa skipanir“.
En í sínum nýja flokki fékk Hitler nóg svigrúm til að þroska leiðtogahæfileika sína.
En ekki nóg með það.
Þegar kom fram á árið 1920 voru meðlimir Nasistaflokksins, sem þá naut enn mjög lítils fylgis, hvað eftir annað komnir á fremsta hlunn með að sameina flokk sinn Þýska sósíalistaflokknum.
Flestallir forystumenn Nasistaflokksins voru því fylgjandi, enda virtist skynsamlegt að sameina kraftana.
En einn leiðtoganna barðist gegn slíkum sameiningarhugmyndum af algjörri einbeitni og svo mikilli hörku að furðu mátti sæta.
Það var Hitler.
Weber bendir á að það hafi löngum þótt dularfullt af hverju Hitler hafi hafnað svo afdráttarlaust sameiningu við Þýska sósíalistaflokkinn.
Hinar nýju upplýsingar sínar skýri það.
Hitler fyrirgaf aldrei neitt, og ætlaði sannarlega ekki að ganga í flokk sem hafði hafnað honum, eins og Grassinger hafði gert f yrir hönd Þýska sósíalistaflokksins.
Weber segir:
„Ef ekki hefði verið fyrir staðfasta neitun Hitlers [á að ganga í Þýska sósíalistaflokkinn] - en hann gekk meira að segja einu sinni úr [Nasistaflokknum um stund] af þessari ástæðu, þá hefði Þýski sósíalistaflokkurinn gleypt Nasistaflokkinn sem þar hefði horfið og mannkynssagan hefði tekið allt aðra stefnu ...“
Það er óhætt að segja það, trúlega.
Ef Hitler hefði annaðhvort hrakist úr Nasistaflokknum eftir sameiningu við Þýska sósíalistaflokkinn og orðið gramur og beiskur auðnuleysingi á götum München, eða orðið undirsáti leiðtoganna í hinum sameinaða flokki - hvernig hefði mannkynssagan þá orðið öðruvísi?
Athugasemdir