Fyrir aldarfjórðungi eða svo virtist umræða um kynferðilega áreitni og ofbeldi karla í garð kvenna á leiðinni upp á yfirborðið hér í vesturhluta heimsins. Þótt umræðan þá hafi verið í algjöru skötulíki miðað við það sem nú er, þá virtist þó eitthvað að gerast og konur voru farnar að hreyfa við málum sem í áratugi og aldir höfðu legið í þagnargildi. Það var jafnvel byrjað að ýja svolítið að því að hin viðkunnanlega þjóðsagnapersóna „kvennabósinn“ væri kannski ekki í öllum tilfellum svo viðkunnanleg.
Var hugsanlegt að fjölþreifinn kvennabósinn væri kannski stundum ekkert annað en ofbeldismaður?
Þagnarhjúpurinn í kringum þessi mál var sem sagt aðeins byrjaður að rofna.
Og hvað gerði Hollywood þá? Ameríski kvikmyndaiðnaðurinn, sem alltaf er eldfljótur að átta sig á straumum og stefnum og þegar fólk fær áhuga á einhverju nýju, þá er Hollywood um leið komið með tvær, þrjár stórmyndir í framleiðslu um akkúrat það efni.
Og jú, einmitt þá, alveg um leið, þá bjó Hollywood reyndar til stórmynd um kynferðislega áreitni.
Disclosure hét hún. Opinberun, eða Uppljóstrun.
Og Disclosure tjaldaði til nokkrum af helstu stórstjörnum sínum þá: hinni ógleymanlegu Demi Moore, Michael Douglas, Donald Sutherland, leikstjórinn var Barry Levinson sem þótti fínn í þá daga. Og myndin var frumsýnd árið 1994, fékk mjög góða aðsókn, ágæta dóma og skapaði heilmikla umræðu.
Var þá ekki allt í lagi? Varð þessi bíómynd þá ekki til að ýta undir meiri hreinskilni og opinskárri umræður um þetta augljósa vandamál, kynferðislega áreitni sem konur sættu af hálfu karla?
Uuu, nei. Ekki beint. Í rauninni þvert á móti.
Ástæðan var sú að þegar Hollywood, sem segja má að sé að vissu leyti spegill samfélagsins hér á Vesturlöndum, þegar Hollywood sá loksins ástæðu til að fjalla um kynferðislega áreitni og ofbeldi, þá snerist myndin um áreitni konu í garð karls.
Það var hexið Demi Moore sem áreytti hinn prúða pilt Michael Douglas, ekki öfugt.
Og þegar hann vildi ekki þýðast hana, þá fór hún í hart og sakaði hann um áreitni í sinn garð.
Ég nenni ekki að rekja þessa mynd frekar, en eftir á hyggja mætti næstum ætla að hún hafi verið plönuð og gerð alveg vísvitandi til að verja feðraveldið illræmda. Nokkrir Harveyar Weinsteinar hafi komið saman og sagt við hver við annan:
„Nú eru kellingarnar eitthvað að kvarta yfir því að við séum aðeins að pota í þær. Eigum við ekki að svara því með því að búa til bíómynd þar sem kemur fram að kellingarnar eru nú sannarlega ekki barnanna bestar. Heyrðu jú, og bætum við að ef svona ásakanir koma fram gegn okkur, þá séu þær eflaust fyrst og fremst runnar undan rifjum biturra kellinga af því við vildum þær ekki.“
Feðraveldið kinkaði kolli.
„Já, þetta er góð hugmynd. Svo skulum við fá Michael Douglas til að leika fórnarlambið. Hann er sérfræðingur í að leika kvensama karla sem reynast svo vera fórnarlömb illkvenda. Í myndinni Fatal Attraction lék hann sér að því að halda framhjá konunni sinni en viðhaldið Glenn Close reyndist geggjaður morðingi. Sama í Basic Instinct þar sem hann „lenti í“ raðmorðingjanum Sharon Stone. Já, Douglas kann manna best að sýna okkur fram á að þótt karlmenn virðist kannski á yfirborðinu leita á konur, þá er það í rauninni öfugt!“
Hafi Disclosure verið meðvituð tilraun feðraveldisins til að bæla niður umræður um áreitni karla í garð kvenna (sem ég gæti vel trúað), þá náði hún sínu takmarki. Umræðan um þetta vandamál hvarf aftur undir yfirborðið. Það var líklega ekkert að marka þessar kellingar? Voru þær ekki bara allar Demi Moore eða Glenn Close inn við beinið, síljúgandi, stórhættulegar?
Vonandi tekst feðraveldinu ekki í þetta sinn að bæla umræðuna niður eins og fyrir aldarfjórðungi. En það má búast við hverju sem er í heiftarlegri vörn þess sem brátt mun hefjast.
Athugasemdir