Það var 1. nóvember 1939. Í Osló boðaði veturinn komu sína snemma. Hrollkaldur vindur gnauðaði um stræti og fyllti fólk ónotalegri tortryggni. Gat nokkuð gott verið í vændum? Fáeinar hræður voru á götunum og allar hugsuðu um það eitt að komast inn úr rökkri og kulda. Í herbergi númer 121 á Hótel Bristol við Kristjáns IV-götu sat maður við skrifborð og barði á ritvél. Hann hafði lokað öllum gluggum og sat dúðaður við borðið en samt nísti kuldinn hann inn að beini. Í hans tilfelli kom kuldinn innan úr órólegu hjartanu, ekki síður en utan úr nóvemberloftinu. Því hann var óttasleginn. Hann vissi að ef það kæmist upp hvað hann væri að gera, hvað hann væri að skrifa á ritvélina sem hann hamraði svo ákaft, þá væri hann dauðans matur.
Neineinei. Ég hef reyndar ekki hugmynd um hvernig veðrið var. Og ég veit ekki í hvaða herbergi á Hótel Bristol maðurinn sat og vélritaði. Veðrið og herbergisnúmerið eru svokölluð skáldaleyfi. En annað er raunar satt. Maðurinn sat þarna þann 1. nóvember og ef yfirboðarar hans hefðu séð hvað hann var að skrifa, þá hefði hann vissulega verið drepinn. Fyrst pyntaður, svo drepinn.
Undir handarjaðri ofstækisfulls nasista
Hann hét Hans Ferdinand Mayer, það sem hann var að skrifa gengur undir nafninu „Oslóar-skýrslan“ og var hvorki meira né minna en einhver mesti einstaki njósnaleki í síðari heimsstyrjöldinni. Samt er Mayer nær óþekktur í mannkynssögunni. En það er kannski ekki að furða. Þannig vildi hann hafa það.
Mayer var nýorðinn 44 ára þegar hann tékkaði sig inn á Hótel Bristol og bað móttökustjórann að lána sér ritvél. Hann var kominn af alþýðufólki í smáborginni Pforzheim í ofanverðum Rínarhéruðum og þegar hann var 18 ára braust fyrri heimsstyrjöldin út. Eins og fleiri ungir menn í öllum stríðsþjóðunum varð hann innblásinn af þjóðernisanda og gaf sig þegar fram í þýska herinn. Hann særðist illa á 19 ára afmælisdegi sínum, 25. okóber 1914, og bar þess merki í andliti síðan. Þótt hann næði sér af sárum sínum fór hann ekki aftur í stríðið heldur settist á skólabekk og lagði stund á eðlisfræði, stærðfræði og stjörnufræði við háskóla í Karlsruhe og Heidelberg. Árið 1920 varði hann doktorsritgerð um hreyfingar mólekúla. Leiðbeinandi hans var Philipp Lenard sem fékk Nóbelsverðlaun í eðlisfræði 1905.
Lenard þessi var gyðingahatari og þjóðernisöfgamaður sem gekk nokkru síðar heils hugar til liðs við Nasistaflokk Adolfs Hitlers og var fremstur í flokki árása á Albert Einstein og annarra þýskra vísindamanna af gyðingaættum.
Kemst til frama í vísindaheiminum
En það er önnur saga. Næstu árin komst Hans Mayer til heilmikils frama í þýska vísindaheiminum, einkum á sviði rafeindatækni og fjarskipta. Hann gekk í hjónaband og eignaðist nokkur börn. Fátt er vitað um pólitískan þankagang hans á þeim tímum er nasistar komust til æ meiri áhrifa og náðu loks öllum völdum árið 1933. Ljóst er að hann var alla tíð andstæðingur nasista en mun ekki hafa látið á því bera. Árið 1936 var hann skipaður yfirmaður við rannsóknarstöð Siemens-fyrirtækisins sem var eitt mikilvægasta hátæknifyrirtæki Þýskalands og það starf hefði hann aldrei fengið ef grunur hefði leikið á um andstöðu hans við Hitler.
Svo leið og beið. Útþenslufrekja þýskra nasista varð sífellt meiri og 1. september 1939 sendu þeir her sinn inn í Pólland. Bretar og Frakkar lýstu yfir stríði og seinni heimsstyrjöldin var skollin á.
Hans Mayer var þessari þróun mála algjörlega andvígur. Hann gat ekki barist gegn stríðsrekstri Hitlers opinberlega, því það hefði einfaldlega leitt til þess að hann hefði verið handtekinn og líflátinn, kona hans sett í fangabúðir og börnin á munaðarleysingjahæli. En hann varð samt ráðinn í að gera það sem hann gæti.
Flotaforingja berst bréf
Í lok október hafði Mayer skipulagt vinnuferð til Norðurlandanna. Sú ferð var raunar bara yfirskin yfir það sem hann ætlaði sér í raun og veru. Þann 1. nóvember var hann kominn til Osló og fékk sér herbergi á Hótel Bristol – ég veit sem sagt ekki númer hvað – og settist við skriftir á ritvélina sem hann fékk að láni. Í tvo daga sat hann við, hugsaði, gruflaði og skrifaði af kappi. Að lokum var hann kominn með 7 þéttskrifuð blöð, auk þó nokkurra skýringamynda sem hann hafði rissað upp.
Þá stóð hann upp, skrifaði í flýti stutt sendibréf er hann setti í umslag og skaust með út. Bréfið fór í póst og þann 4. nóvember barst það til viðtakanda.
Sá hét Hector Boyes, tæplega sextugur fyrrverandi flotaforingi í Konunglega breska flotanum og flotamálafulltrúi við breska sendiráðið í Osló. Furðu lostinn las hann nafnlausa orðsendingu þar sem stóð að bréfritari væri tilbúinn til að afhenda Bretum fjölmörg hertæknileg ríkisleyndarmál Þjóðverja. Ef Bretar vildu þiggja slíka sendingu þyrfti Boyes að fá breska útvarpið BBC til að breyta á ákveðnum tíma hinum þýsku ávarpsorðum þeirra fréttaútsendinga sem ætlaðar voru Þjóðverjum.
Í stað þess að segja „Guten Tag, hier is London,“ þá átti þulurinn að segja „Hullo, hier is London“.
Dularfull sending berst í sendiráð
Boyes vissi náttúrlega ekki á hverju var von en það kostaði ekkert að prófa þetta, svo þýski þulurinn hjá BBC var látinn breyta ávarpsorðunum eins og hinn nafnlausi bréfritari bað um.
Fáeinum dögum síðar fékk Hector Boyes svo þá sendingu sem honum hafði verið boðin. Það var skýrslan sem Mayer hafði skrifað á Hótel Bristol og með fylgdi raunar kveikja að nýrri tegund að sprengju sem Þjóðverjar höfðu verið að vinna að. Boyes rak upp stór augu þegar hann hafði lokið við að lesa plaggið. Þarna voru stuttorðar og samþjappaðar lýsingar á fjölmörgum hernaðartólum og -tækjum sem Þjóðverjar voru sagðir vinna að, og því lýst hvar þeir væru á vegi staddir hvað ýmiss konar tækni snerti, svo sem ratsjár, stýribúnað fyrir tundurskeyti og margt fleira.
Þetta virtist vera hafsjór af fróðleik en hvergi var að finna nafn sendanda, heldur stóð bara undir: „Þýskur vísindamaður sem er á ykkar bandi.“
Runnið undan rifjum Þjóðverja?
Ekki kom að öðru leyti fram hvað fyrir hinum nafnlausa vísindamanni vakti með sendingunni. Boyes lét það einu gilda, heldur þýddi plaggið í snarheitum og sendi svo til London í diplómatapósti.
Í London vissu leyniþjónustumenn lengi vel ekki hvað þeir ættu að gera við plaggið – sem fljótlega var farið að kalla „Oslóar-skýrsluna“. Mörgum fannst það ærið grunsamlegt og þá ekki síst hve víða skýrsluhöfundur kom við. Breskir vísindamenn á hinum ýmsu sviðum unnu að rannsóknum og þróun hertóla hver í sínu horni, og enginn Breti hefði getað haft þá yfirsýn yfir mörg svið tækninnar sem höfundur Osló-skýrslunnar virtist hafa um rannsóknir Þjóðverja. Þá bentu leyniþjónustumenn á að fáein atriði í skýrslunni voru augljóslega ónákvæm miðað við þá þekkingu sem þeir höfðu. Margir töldu plaggið því einskis virði og líklega væri það einhvers konar blekkingarleikur af hálfu Abwehr, leyniþjónustu þýska hersins, og til þess ætlað að kasta ryki í augu Breta.
Nærri búnir að stinga skýrslunni ofan í skúffu
Í raun hafði Mayer viðað að sér upplýsingum mjög víða að úr þýska hergagnaiðnaðinum þegar hann undirbjó plagg sitt. Þar var vissulega að finna ónákvæmni í sambandi við nokkur atriði en öll hin tæknilegu atriði voru hárrétt og sýndu mjög vel fram á hvar Þjóðverjar væru á vegi staddir á mörgum sviðum.
En þessu áttuðu Bretar sig ekki á til að byrja með og voru í þann veginn að stinga Oslóar-skýrslunni endanlega niður í skúffu. Þá kom til skjalanna kornungur eðlisfræðingur að nafni Reginald Jones, sem starfaði við vísi að breskri leyniþjónustustofnun á sviði vísinda. Hann áttaði sig á því að stærstur hluti Oslóar-skýrslunnar væri áreiðanlega ekki aðeins nákvæmur, heldur einnig afar gagnlegur. Honum tókst að leiða yfirboðurum sínum fyrir sjónir að upplýsingar um ratsjár- og leiðsagnartækni úr skýrslunni væru hreinasta himnasending og margir hafa talið að þær upplýsingar hafi átt umtalsverðan þátt í að Konunglegi breski flugherinn vann öruggan sigur á Luftwaffe í loftbardögum um Bretland sumarið og haustið 1940. Sá sigur Breta kom í veg fyrir allar hugmyndir Þjóðverja um innrás á Bretlandseyjar.
Settur í fangabúðir
Löngu síðar skrifaði Jones að Oslóar-skýrslan hefði verið „sennilega besta einstaka [njósna]skýrslan“ í öllu stríðinu.
En hver skrifaði hana?
Um það höfðu Bretar ekki minnstu hugmynd. Hans Ferdinand Mayer hélt heim til Þýskalands eftir að hafa sent Boyes skýrsluna og kveikibúnaðinn og lét aldrei framar á sér kræla sem njósnari. Hann vann sína vinnu hjá Siemens en árið 1943 var hann handtekinn af Gestapo, leynilögreglu Hitlers, og sakaður um að hafa hlustað á breska útvarpið, auk þess sem tilgreind voru ummæli sem þóttu benda til að hann væri ekki dyggur stuðningsmaður Foringjans. Draga átti Mayer fyrir svokallaðan alþýðudómstól sem hefði nær örugglega þýtt að hann hefði verið tekinn af lífi, en þá brá svo við að gamli prófessorinn hans, hinn harðsvíraði nasisti Philipp Lenard, bað honum griða við Himmler, yfirmann SS. Mayer slapp við dómstólinn en sat í fangabúðum til stríðsloka.
Fluttur til Bandaríkjanna
Eftir stríðið var hann fluttur til Bandaríkjanna þar sem hann starfaði um tíma við að hjálpa Bandaríkjamönnum að átta sig á þeirri tækni sem Þjóðverjar höfðu búið yfir og var svo um tíma prófessor í rafverkfræði við Cornell-háskóla. Árið 1950 sneri hann aftur til Þýskalands og varð að nýju yfirmaður tæknirannsókna hjá Siemens þar til hann lét af störfum 1962.
Aldrei sagði Mayer frá því sjálfviljugur að hann hefði sent Oslóar-skýrsluna. Jones upplýsti um tilvist hennar í fyrirlestri 1947 en lengi vel var og er jafnvel umdeilt að hve miklu gagni hún kom. Jones var hins vegar ekki í neinum vafa um það.
Árið 1953 komst Jones hins vegar fyrir tilviljun í kynni við breskan vísindamann að nafni Henry Turner, sem sagði honum einhverju sinni að hann hefði í nóvember 1939 fengið bréf frá Osló. Bréfið var frá þýskum kunningja hans, Hans Ferdinand Mayer, sem þá var bersýnilega staddur í Osló. Bréfið snerist um hvort þeir félagar gætu framvegis haft samband sín á milli með hjálp milliliðar í Danmörku, en ekkert varð af því.
Leyndarmál í lengstu lög
Forvitni hins gamla leyniþjónustumanns Jones var hins vegar vakin. Hann skoðaði feril Mayers og uppgötvaði að starf hans hjá Siemens hefði getað gert honum kleift að afla þeirra upplýsinga sem fram komu í Oslóar-skýrslunni. Hann skrifaði því Mayer og spurði hreint út hvort hann væri „þýskur vísindamaður sem er á ykkar bandi“. Mayer sló úr og í en þegar þeir Jones hittust árið 1955 viðurkenndi hann að hafa skrifað skýrsluna. Hann hafði hins vegar komið sér þokkalega fyrir í endurreistu Vestur-Þýskalandi og vildi ekki að upplýst yrði um hann sem höfund skýrslunnar. Hann tók því það loforð af Jones að segja ekki frá því fyrr en hann og konan hans væru bæði fallin frá. Jones skrifaði svo bók um tækninjósnir í stríðinu þar sem hann fjallaði ítarlega um Oslóar-skýrsluna en nefndi hvergi höfundinn á nafn.
Hans Ferdinand Mayer dó árið 1980. Aðeins þremur árum fyrr hafði hann sagt fjölskyldu sinni hvað hann var í rauninni að gera meðan hann gisti á Hótel Bristol í Osló þessa fyrstu nóvemberdaga árið 1939. Níu árum síðar kom út ný útgáfa af bók Jones og þar var Mayer loks nefndur sem höfundur hinnar merkilegu skýrslu.
Athugasemdir