Hvernig getur raunhæf uppbygging orðið ef undirstöðurnar eru fúnar? Þótt margt sé hægt að segja um rekstur Þjóðarbúsins frá stríðslokum er ástandið eftir 1990, með kvótakerfið í fanginu, það miskunarlausasta og jafnframt Það heimskulegasta sem stjórnmálamönnum hefur tekist að leggja á borð landsmanna. Segja má að ekki hafi veitt af að halda vel á spöðunum uppúr 1990 eftir áratugina á undan, en annað varð uppi á teningunum.
Það ástand sem skapaðist með kvótakerfinu um 1990 hefur reynst afdrifaríkt fyrir þjóðina, ekki aðeins lýðræðislega og þjóðhagslega heldur líka félagslega. Hið mikla óréttlæti sem fór þá í gang hefur aukið svo á spillingu í þjóðfélaginu að ekki verður lengur við unað. Ýmsir stjórnmálamenn og forystumenn í þjóðfélaginu reyna að verja og jafnvel réttlæta sviksamlegar aðgerðir sínar og virðast komast upp með það.
Stærsti hluti kvótans féll í hlut fámenns hóps, sem gat keypt upp alla smærri kvótaeigendur enda með góðan aðgang að bankastofnunum eins og þeir segja sjálfir. Forsenda þessara kvótagreifa var og er að gróðinn yrði svo mikill með stórum útgerðum að þjóðin bara græddi. Þeir gátu veðsett óveiddan fisk í sjónum, en einnig skip og aðrar fasteignir í landi og hefur þeim tekist með aðstoð sérstaklega tveggja stjórnmálaflokka, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, að ná hreðjataki á þjóðinni.
Og það hreðjatak hafa þeir enn þrátt fyrir sviksamleg bankakaup og stærsta fjárhagshrun Íslandssögunnar, hrun sem mjög margir telja að megi einkum rekja til kvótakerfisins og einkavæðingar bankanna.
Vegna valdaaðstöðu þessara flokka hefur aldrei tekist að leysa þetta mál, en reynt hefur verið að ná miðlunarleið eins og t.d. fyrir um 20 árum, þ.e.s. aðlögun fyrir útgerðina, sem fólgst m.a. í 5% „yfirtöku“ aflaheimilda á ári til að útgerðin gæti aðlagað sig að þessum breytingum. Einnig hefur útgerðinni verið gert að greiða „afnotagjald“ af auðlindinni, en ekki hefur tekist að koma böndum á þá leið, enda algert bull hvort tveggja. Af því að ekkert hefur verið gert í málum vegna hreðjataks kvótagreifanna má segja að í reynd sé þessi aðlögunartími liðinn. En þeir gera sjálfsagt lítið með það og heimta önnur 20 ár ef út í það er farið.
Útgerðarklíkan hefur tröllriðið þjóðinni í tæp 30 ár og er nú nóg komið. Að segja að þessi þáttur í rekstri þjóðarbúsins hafi ekki átt stóran þátt í þeirri fjármálaspillingu, sem hefur geysað á þessu tímabili og er raunar í bullandi gangi enn, er út í hött.
Klíkan byrjaði að kaupa alla minnstu kvótaþegana. Fyrst handfærakarlana, sem urðu um leið milljónerar, en síðan smærri útgerðir og svo koll af kolli. Kvótagreifarnir hafa skapað sér slíka stöðu að þeir eiga fyrirtæki erlendis, sem kaupa fiskafurðirnar. Þær eru síðan seldar erlendum kaupendum vítt og breytt og þá er auðvelt að taka prósentu af söluverðmætinu, sem væntanlega er búið að lækka um sömu prósentu sem síðan er lögð inn á reikning í einhverju skattaskjóli.
Flestar sjávarbyggðir landsins hafa lent í miklum erfiðleikum vegna ýmissa aðgerða stórútgerða kvótagreifanna, þeim sjálfum til hagsbóta. Það er hrollsamt að hugsa til þess hvílíka yfirburðastöðu greifarnir hafa í þjóðfélaginu varðandi ýmsar fjárhagslegar aðgerðir. Að hugsa til þess að byggðir landsins t.d. Vestfirðirnir, með sjávarauðlindina í fanginu, skuli nú berjast fyrir tilveru sinni með því t.d. að fara í umdeilanlegt sjókvíaeldi í þröngum fjörðum.
Fyrir nokkrum árum var mikið talað um frákast í sjávarútvegi, en nú er þessi umræða nánast engin enda virðast útgerðaraðilar geta stundað hvað sem þeim sýnist henta best, líka frákast. Að láta sér detta í hug einhverja samninga við kvótagreifana, sem gæti falið í sér einhverja afsláttarlausn er út í hött. Það á umsvifalaust að taka af þeim söluréttinn, veðsetningarréttinn og leiguréttinn af náttúruauðlind þjóðarinnar, og þótt fyrr hefði verið.
Útgerðaraðilar hafa alltaf kvartað ef þeir sjá tækifæri til þess. Þeir kvörtuðu nýlega mikið vegna lokunar rússneska markaðarins, meira að segja svo mjög að úrsögn úr Nato var á borðinu.
Nú síðast er krónan að gera út af við þá. Hvar eru varasjóðirnir? Þessi staða með kvótakerfið gerir það að vekum að öll viðskipti í þjóðfélaginu verða rangsnúin og geta ekki annað en versnað. Það hljóta allir viti bornir menn að sjá að svikmylla af þessu tagi hefur smitað gífurlega út frá sér og mun gera það í síauknum mæli nema tekið verði í taumana og það strax.
„Þeir hafa afgerandi ítök, einkum í Sjálfstæðisflokki, Framsóknarflokki og öflugum fjölmiðli.“
Kvótagreifarnir hafa flest öll spilin á sinni hendi. Þeir hafa afgerandi ítök, einkum í Sjálfstæðisflokki, Framsóknarflokki og öflugum fjölmiðli. Raunverulegt söluverðmæti aflans og ráðstöfun hagnaðar erlendis eru óljós. Veðsetning óveidds fiskjar hér og erlendis og meingölluð lagaumgjörð veita þessum greifum nánast sjálfdæmi í þessu mikilvægasta máli íslensku þjóðarinnar.
Með von um að þessi ábending verði til þess að við Íslendingar snúum vörn í sókn og látum ekki græðgisvæðinguna svipta okkur möguleikanum til betra lífs.
Jón H Sigurðsson
220932-2739
Athugasemdir