Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráðherra, og Anna Sigurlaug Pálsdóttir eiginkona hans sendu ríkisskattstjóra bréf þann 13. maí 2016, mánuði eftir að fjallað var um félagið Wintris í fjölmiðlum, og óskuðu eftir því að skattframtöl undanfarinna fimm gjaldára yrðu leiðrétt. Í kjölfarið var auðlegðarskattur Önnu Sigurlaugar endurákvarðaður og útsvar og tekjuskattur endurákvarðaður til hækkunar. Þetta kemur fram í úrskurði yfirskattanefndar sem kveðinn var upp 22. september og birtur á vef nefndarinnar í síðustu viku.
Í málinu sem fór til yfirskattanefndar var einungis deilt um afmarkaðar breytingar ríkisskattstjóra; færslu vegna gengisbreytinga sem ríkisskattstjóri felldi niður á þeim grundvelli að ekki væri til að dreifa gengishagnaði eða gengistapi af starfsemi Wintris við yfirfærslu á afkomu félagsins í íslenskar krónur við skattlagningu hjá eiganda þess. Niðurstaða yfirskattanefndar er sú að þessar tilteknu breytingar ríkisskattstjóra á álögðum gjöldum hafi ekki átt rétt á sér og því skattar verið ofgreiddir.
Hins vegar kemur fram að hjónin hafi unað því að auðlegðarskattur, útsvar og tekjuskattur yrði endurákvarðaður til hækkunar. Þannig telja skattayfirvöld umrædd gjöld hafa verið vantalin og hjónin gera ekki athugasemd við það. Ekki kemur þó fram hve mikinn viðbótarskatt hjónin þurftu að greiða vegna þessa.
Erindi þeirra hjóna barst ríkisskattstjóra mánuði eftir að Wintris-málið komst í hámæli og Sigmundur Davíð lét af embætti forsætisráðherra. Þar viðurkenna þau að horft hafi verið framhjá tilvist Wintris í skattskilum þeirra eftir að lög um CFC-reglur á lágskattasvæðum tóku gildi, en hins vegar hafi hlutareign Önnu Sigurlaugar verið talin fram á kaupverði meðal annarra eigna hennar. Ekki sé „útilokað að réttara hefði verið að haga skattskilum kærenda gjaldárið 2011 og síðar eftir efni 57. gr. a laga nr. 90/2003, sbr. 3. gr. laga nr. 46/2009, og reglugerðar nr. 1102/2013, um skattlagningu vegna eignarhalds í lögaðilum á lágskattasvæðum (CFC-reglum)“. Þetta er þvert á málsvörn Sigmundar og stuðningsmanna hans í kjölfar Wintris-málsins um að óþarft væri að skila CFC-framtölum um Wintris vegna þess að félagið stundaði enga atvinnustarfsemi.
Úrskurðurinn sýnir jafnframt að ríkisskattstjóri krafði Sigmund Davíð og Önnu Sigurlaugu um upplýsingar um Wintris sumarið 2016, á sama tíma og Sigmundur Davíð hélt því ítrekað fram í viðtölum að ekkert væri athugavert við skattskil þeirra hjóna.
Athugasemdir