Stefán Einar Stefánsson, blaðamaður á Morgunblaðinu og fyrrverandi formaður VR, segir að viðtal sitt við Önnu Sigurlaugu Pálsdóttur, eiginkonu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, varpi ljósi á óvönduð vinnubrögð fjölmiðla. „Í viðtalinu koma í fyrsta sinn fram upplýsingar sem varða alla þjóðina og varpa ljósi á óvönduð vinnubrögð fjölmiðla,“ skrifar Stefán á Facebook.
Viðtal hans við Önnu Sigurlaugu, sem birtist í Morgunblaðinu á laugardaginn sem dreift var frítt inn á heimili landsmanna, hefur vakið talsverða athygli. Fullyrti Anna að þau Sigmundur hefðu afhent fjölmiðlamönnum ítarlegar upplýsingar um eignarhaldsfélagið Wintris í aðdraganda þess að Kastljós fjallaði um Panama-skjölin þann 3. apríl síðastliðinn. „Í þættinum var hvergi vikið að þeim útskýringum sem tíundaðar voru í svörunum,“ sagði í umfjöllun Morgunblaðsins.
Í yfirlýsingu sem Jóhannes Kr. Kristjánsson, Kastljós og umsjónarmenn sænska fréttaþáttarins Uppdrag Granskning kemur fram að fullyrðingar Önnu Sigurlaugar í Morgunblaðinu séu rangar. „Þáverandi forsætisráðherra var vissulega sendur ítarlegur spurningalisti. Við þeim spurningum fengust ekki svör, þótt þær væru ítrekaðar. Lykilspurningum sem lúta að Wintris Inc. var því aldrei svarað. Aðstoðarmaður Sigmundar Davíðs vísaði í bloggfærslu Sigmundar og yfirlýsingu KPMG. Hann sendi blaðamönnum Süddeutsche Zeitung einnig skjal sem svar við spurningalista þeirra, en því miður fólust ekki í því svör við þeim spurningum sem þar höfðu verið lagðar fram,“ segir í yfirlýsingunni.
Þá hefur komið fram að Sigmundi Davíð var ítrekað boðið að koma í annað viðtal þar sem rætt yrði ítarlega um Wintris-málið. Þáverandi forsætisráðherra hafnaði því boði en bauðst hins vegar til að hitta blaðamenn á óformlegum leynifundi.
Svo virðist sem fjöldi stjórnmálamanna og blaðamanna sé sammála Stefáni Einari um að fjölmiðlar hafi gerst sekir um óvönduð vinnubrögð í umfjöllun um Wintris-málið. Á meðal þeirra sem læka færslu hans á Facebook eru Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, Birkir Jón Jónsson, fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins, Eggert Skúlason, fyrrverandi ritstjóri DV, Björn Jón Bragason, ritstjóri Reykjavíkur vikublaðs og Sigurður Már Jónsson, upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar.
Athugasemdir