Bjarni Benediktsson forsætisráðherra sagði á Alþingi í dag að í skýrslu starfshóps um aflandseignir Íslendinga hefði ekki verið bent á neitt sérstakt sem stjórnvöld hefðu vanrækt að gera til að vinna gegn skattaundanskotum og flutningi fjármuna í aflandsfélög.
Hið rétta er að í skýrslunni er fundið sérstaklega að því að stjórnvöld hafi, á árunum fyrir hrun, hunsað ráðleggingar sérfræðinga um að innleiða svokallaða CFC-löggjöf á Íslandi. Leitt er líkum að því að með lögfestingu slíkra reglna hefði mátt koma í veg fyrir að aflandsvæðingin sem átti sér stað á útrásarárunum yrði jafn umfangsmikil og raun ber vitni.
„Ólíklegt er að fjármagnsflóttinn hefði orðið eins mikill ef hér hefðu gilt sömu reglur og á hinum Norðurlöndunum,“ segir í skýrslunni þar sem sérstakur kafli er helgaður þessu umfjöllunarefni. Þá er vikið að málinu í öðrum köflum skýrslunnar og í reifun á niðurstöðum starfshópsins.
Bjarni hefur áður verið staðinn að ósannindum um það hvenær umræddri skýrslu var skilað til hans í fjármálaráðuneytið. Nú hefur hann einnig farið með rangt mál um efnisatriði skýrslunnar.
„Hvaða efnisatriði voru það?“
Rætt var um skýrsluna í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag. Oddný Harðardóttir, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, spurði Bjarna Benediktsson hvort hann hefði, sem fjármálaráðherra, vísvitandi dregið að birta bæði skýrsluna um aflandseignir Íslendinga og skýrslu um skiptingu höfuðstólslækkunar verðtryggðra húsnæðislána vegna þess að skýrslurnar hefðu ellegar haft slæm áhrif á fylgi Sjálfstæðisflokksins í síðustu þingkosningum. Bjarni neitaði því og sagði meðal annars:
„Í aflandsskýrslumálinu; hvaða efnisatriði voru það sem komu í veg fyrir að háttvirtur þingmaður gæti beitt sér og sett Panama-skjölin rækilega á dagskrá eins og háttvirtur þingmaður Birgitta Jónsdóttir gerði svo eftirminnilega í sjónvarpssal daginn fyrir kosningar eða allir aðrir sem vildu gera þetta að hinu stóra kosningamáli? Hvaða efnisatriði voru það í skýrslunni sem hv. þingmaður hefði svo gjarnan viljað hafa? Er það að erfitt sé að leggja mat á þetta? Er það að við séum í stórkostlegum gagnaskorti með þessi mál? Er það að það er ekkert sérstakt sem skýrslan bendir á að stjórnvöld hafi látið undir höfuð leggjast að gera til þess að koma í veg fyrir þessi mál? Hvaða efnisatriði eru það sem hefðu getað bjargað Samfylkingunni í síðustu kosningum ef þau hefðu bara legið fyrir áður en kosið var?“
Ein af niðurstöðum skýrslunnar um aflandseignir Íslendinga er sú að Íslendingar hefðu átt að innleiða svokallaða CFC-löggjöf miklu fyrr en gert var. Vikið er að þessu í 2. kafla skýrslunnar, 8. kafla hennar og í fjórða viðauka. Þau ummæli Bjarna að það sé „ekkert sérstakt sem skýrslan bendir á að stjórnvöld hafi látið undir höfuð leggjast að gera til þess að koma í veg fyrir þessi mál“ eru því röng.
Reglur ekki settar fyrr en árið 2009
Skammstöfunin CFC stendur fyrir controlled foreign companies en slík löggjöf er alþekkt úrræði á sviði skattaréttar sem heimilar skattayfirvöldum í heimalandi að skattleggja tekjur félaga á lágskattasvæðum með tekjum þeirra skattborgara sem eiga eða stjórna félögunum. „Sem dæmi má nefna að Bandaríkin innleiddu CFC-löggjöf á sjöunda áratug síðustu aldar og Danir, Svíar og Norðmenn fyrir 2004, en henni er ætlað að hindra leynd og skattsniðgöngu með málamyndaeignarhaldi í gegnum aflandssvæði. Á Íslandi tóku reglurnar aftur á móti ekki gildi fyrr en 2011, þegar allt var um garð gengið,“ segir í skýrslunni.
Frumvarp um CFC-löggjöfina var samþykkt á Alþingi í apríl 2009, fáeinum mánuðum eftir að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar fór frá völdum. Hugmyndin að setningu slíkra laga hafði þó komið fram mörgum árum fyrr eins og lýst er í skýrslunni: „Í skýrslu starfshóps um umfang skattsvika á Íslandi frá desember 2004, sem fjármálaráðherra lagði fyrir Alþingi á 131. löggjafarþingi 2004-2005, kom m.a. fram að hraða þyrfti setningu svokallaðra CFC-ákvæða (e. Controlled Foreign Companies) í íslenska skattalöggjöf til að koma í veg fyrir möguleg skattsvik með stofnun aflandsfélaga í skattaskjólum. Þrátt fyrir þessi tilmæli starfshópsins virðist sem stjórnvöld hafi á þessum tíma haft efasemdir um nauðsyn þess að setja slíka löggjöf.“ Starfshópurinn telur „sterk rök hníga hins vegar til þess að meiri festa hefði verið á umgengni íslenskra aðila við aflandsfélög hefði þessi löggjöf verið tekin upp hér á landi á þeim tíma sem það var lagt til“. Í Bandaríkjunum hafi samsvarandi löggjöf verið tekin upp löngu fyrir aldamót og á hinum Norðurlöndunum strax í upphafi aldarinnar, árin 2002 og 2003. „Á Íslandi er það aftur á móti ekki fyrr en með lögum nr. 46/2009 sem samþykkt voru á Alþingi 15. apríl 2009, sem CFC-ákvæðið kemur inn í tekjuskattslögin.“
Byrgðu brunninn þegar barnið var dottið ofan í
Fram kemur að „með tilliti til þess málamyndafjármagnsflótta sem hér átti sér stað á árunum 2003-2008“ megi segja að „stjórnvöld hafi að þessu leyti byrgt brunninn þegar barnið var dottið ofan í“. Ólíklegt sé að fjármagnsflóttinn hefði orðið eins mikill ef hér hefðu gilt sömu reglur og á hinum Norðurlöndunum.
Þá er getum leitt að því að fjármálahrunið árið 2008 hefði orðið vægara, „fallið“ orðið „minna“ ef ráðleggingum sérfræðinga um setningu CFC-löggjafar hefði verið fylgt: „Þessir fjármagnsflutningar léku veigamikið hlutverk í fjármálavæðingu fyrsta áratugar aldarinnar. Því má jafnvel leiða getur að því að ef þetta hefði verið gert fyrr hefði eignaverðs- og útlánaþensla þessa tímabils orðið vægari en raunin varð og fallið minna.“
Eins og Stundin hefur áður greint frá voru 20 þingmenn Sjálfstæðisflokksins fjarverandi atkvæðagreiðsluna á Alþingi þegar CFC-löggjöfin var loks innleidd í íslenskan rétt á Alþingi þann 15. apríl 2009. Hvorki Bjarni Benediktsson né Ólöf Nordal, núverandi forystumenn flokksins, voru viðstödd atkvæðagreiðsluna en þau eiga það sameiginlegt að tengjast aflandsfélögum sem koma fyrir í Panama-skjölunum. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, núverandi ráðherra Viðreisnar, gegndi varaformennsku í Sjálfstæðisflokknum á þessum tíma og var einnig fjarverandi atkvæðagreiðsluna.
Biðst ekki afsökunar
Í skýrslu starfshóps um aflandseignir Íslendinga er sett fram gagnrýni á þá stefnu sem rekin var á árunum fyrir hrun á sviði skattalöggjafar og skattaeftirlits. Varpað er ljósi á andvara- og aðgerðaleysi íslenskra stjórnvalda gagnvart stórfelldri aukningu skattaundanskota og notkun Íslendinga á aflandsfélögum, einkum á útrásarárunum þegar Sjálfstæðisflokkurinn fór með fjármálaráðuneytið.
Bjarni Benediktsson, formaður sama flokks, tók ákvörðun um að fresta birtingu skýrslunnar fram yfir þingkosningar, en efnt var til haustkosninga í kjölfar umfjöllunar um Panama-skjölin og harðra viðbragða almennings við upplýsingum um tengsl þriggja ráðherra við aflandsfélög.
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, spurði Bjarna á Alþingi í dag hvort hann teldi ekki tilefni til að biðja Alþingi afsökunar á að hafa frestað birtingu skýrslunnar, auk skýrslu sem fjallaði um skiptingu leiðréttingarinnar svokölluðu niður á þjóðfélagshópa en sú skýrsla var ekki birt fyrr en um tveimur árum eftir að óskað var eftir henni. Bjarni baðst ekki afsökunar en rifjaði upp að í stjórnartíð vinstristjórnarinnar hefði stundum ekki náðst að svara fyrirspurnum frá þingmönnum innan tímamarka.
Athugasemdir