„Ég er auðvitað þeirrar skoðunar að Ísland sé best í heimi og ég trúi því að þeir sem sitja í þessum sal séu þeirrar skoðunar líka.“
Þetta sagði Sigríður Andersen, dómsmálaráðherra og þingkona Sjálfstæðisflokksins, þegar hún mælti gegn frumvarpi til breytinga á útlendingalögum sem formenn allra flokka nema Sjálfstæðisflokksins lögðu fram í dag. Frumvarpið felur í sér réttarbót fyrir barnafjölskyldur sem sótt hafa um alþjóðlega vernd á Íslandi.
Samkvæmt núgildandi útlendingalögum ber stjórnvöldum að taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst. Í hinu nýframlagða frumvarpi er lagt til að þessi frestur verði styttur úr tólf mánuðum í níu. Þá er lögfest heimild til að veita barni, sem sótt hefur um alþjóðlega vernd og ekki fengið niðurstöðu í máli sínu innan fimmtán mánaða, dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða.
Sigríður Andersen gagnrýndi frumvarp formannna harðlega á Alþingi nú undir kvöld. „Það er ekki víst að hagsmunum alls þessa fólks sé best borgið hér á landi. Ísland er ekki best í heimi fyrir margt af þessu fólki. Hingað leitar fólk sem er í alls kyns vanda og þarf að fá þvílíka faglega þjónustu að það liggur fyrir hér að hún er ekki einu sinni til hér á landi,“ sagði hún.
Þá fullyrti Sigríður að með frumvarpinu væri mælst til þess að tiltekin mál fengju jákvæða afgreiðslu í samræmi við geðþótta stjórnvalda. „Um það að mínu mati má reyndar deila hvort að sú afgreiðsla verði í raun jákvæð fyrir þetta fólk,“ sagði hún og vísaði þar til þeirra fjölskyldna sem geta fengið vernd á Íslandi ef frumvarpið verður samþykkt.
Athugasemdir