Benedikt Sveinsson, faðir forsætisráðherra, telur að öll framganga Hjalta Sigurjóns Haukssonar hafi verið til fyrirmyndar á undanförnum árum. Þetta kemur fram í umsögn Benedikts vegna umsóknar Hjalta um uppreist æru.
Hjalti var dæmdur árið 2004 fyrir að hafa beitt stjúpdóttur sína kynferðisofbeldi nær daglega í tólf ár en Stundin greindi frá því þann 25. ágúst að hann hefði verið sæmdur óflekkuðu mannorði af íslenska ríkinu.
Stundin hefur svo kallað árangurslaust eftir upplýsingum frá dómsmálaráðuneytinu um umsagnaraðila Hjalta. Enn hefur ráðuneytið ekki svarað upplýsingabeiðninni þrátt fyrir að úrskurðarnefnd um upplýsingamál hafi komist að þeirri niðurstöðu að gögn um veitingu uppreistar æru og meðmælendur eigi að vera aðgengileg almenningi.
Bréf Benedikts hljóðar svona samkvæmt heimildum Stundarinnar:
Mér er bæði ljúft og skylt að staðfesta að ég hef á umliðnum misserum fylgst með Hjalta Sigurjóni Haukssyni, (...), og komist að raun um að hann hefur tekið á sínu lífi með miklum sóma og þráir innilega að lifa heiðvirðu og heilbrigðu lífi. Öll hans framganga er til fyrirmyndar. Virðingarfyllst, Benedikt Sveinsson.
Haft var eftir brotaþola Hjalta Sigurjóns í viðtali sem Stundin birti á dögunum að Hjalti hefði haldið áfram að hafa samband við hana löngu eftir að dómur féll.
„Það sem gerir þennan gjörning – það að hann fái uppreist æru – svo súrrealískan er að Hjalti hefur aldrei látið mig í friði. Hann hefur af og til sent mér skilaboð, hringt, reynt að ná sambandi við mig, jafnvel birst fyrir utan húsið hjá mér. Áreitið frá honum hefur verið stöðugt,“ sagði hún. Þá greindi hún frá því að Hjalti hefði gefið sig á tal við börnin hennar í skólabíl sem hann keyrði og ávarpað þau með nafni.
Í kjölfar fjölmiðlaumfjöllunar um að Hjalta hefði verið veitt uppreist æra fór hann síðan fram á að hún sendi frá sér yfirlýsingu þess efnis að brot hans hefðu hafist seinna en Hæstiréttur komst að raun um.
Athugasemdir