Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra hefur skipað Sturlu Sigurjónsson sendiherra sem ráðuneytisstjóra í utanríkisráðuneytinu. Hann á að baki 30 ára feril í utanríkisþjónustunni og gegndi síðast stöðu sendiherra Íslands í Kanada.
Ólíkt því sem tíðkast þegar skipað er í sams konar embætti í öðrum ráðuneytum hefur utanríkisráðherra heimild til að víkja frá auglýsingaskyldu við skipun ráðuneytisstjóra og sendiherra samkvæmt lögum um utanríkisþjónustu Íslands.
Óttarr Proppé og Björt Ólafsdóttir, ráðherrar í núverandi ríkisstjórn, börðust gegn fyrirkomulaginu á síðasta kjörtímabili og lögðu tvívegis fram frumvarp um að undanþáguheimildin yrði felld út úr lögum.
Sturla er tengdafaðir Jónu Sólveigar Elínardóttur, þingkonu og varaformanns Viðreisnar og formanns utanríkismálanefndar Alþingis.
Á meðal hlutverka utanríkismálanefndar samkvæmt 24. gr. þingskaparlaga er að vera „ríkisstjórninni til ráðuneytis um meiri háttar utanríkismál,“ en ákvæðið hefur verið túlkað sem svo að nefndinni beri að veita framkvæmdavaldinu aðhald á sviði utanríkismála (sjá t.d. grein Bjargar Thorarensen, prófessors við lagadeild HÍ og sérfræðings í stjórnskipunarrétti, Stjórnarskráin og meðferð utanríkismála, bls. 58 og 59).
Áður en Sturla gegndi stöðu sendiherra í Kanada var hann sendiherra Íslands í Danmörku, ráðgjafi forsætisráðherra um utanríkismál og sendiherra á Indlandi. Fram kemur í fréttatilkynningu utanríkisráðuneytisins að í starfi sínu hafi Sturla gegnt ýmsum ábyrgðarstöðum, meðal annars verið skrifstofustjóri alþjóðaskrifstofu og áður varnarmálaskrifstofu utanríkisráðuneytisins.
Athugasemdir