Ég sat á bar um daginn með hópi fólks á mínu reki, meðal annars 35 ára gömlum manni. Allt í einu sagði hann: „Man einhver hérna hvenær hann las bók í síðasta skipti? Ég man það ekki.“ Ég viðurkenni að ég missti andlitið í huganum og horfði í gaupnir mér: „Hvaða barbari er þetta?“ Sjálfur mundi ég vel hvenær ég hafði lesið bók í síðasta skipti: Daginn áður. Maðurinn gaf sér að enginn við borðið hefði lesið bók lengi, lengi.
Þessi maður er vel gefinn og það kom vel fram þegar hann talaði. Hann fylgist vel með, les fréttir á nokkrum tungumálum og var sérstaklega áhugasamur um bandarísk stjórnmál. Hann er við það að ljúka sinni fjórðu háskólagráðu. Áttu fordómar mínir gagnvart honum rétt á sér bara af því hann les ekki bækur til að afla sér þekkingar heldur notar aðrar aðferðir?
„Hvaða barbari er þetta?“
Sjálfur elska ég bækur, ekki rafbækur heldur prentaðar bækur. Ég elska að lesa um bækur og nýja höfunda í blöðum, ég elska að kaupa bækur í bókabúðum og á netinu, ég elska að blaða í og finna lyktina af bókum og að lesa þær uppi í sófa á kvöldin. Að lesa bækur er svolítið eins og að vera í fjársjóðsleit, það er spennandi af því maður veit aldrei hvort eða hvenær höfundurinn segir eitthvað sem hefur virkileg áhrif á mann. Einhvers staðar innst inni trúi ég því ennþá að ein bók geti breytt lífi mínu og hjálpað mér að skilja „allt“ betur.
Bækur björguðu geði mínu. Þetta var árið 1995 og ég var 15 ára. Ég hafði ekki lesið fullorðinsbókmenntir fram að því heldur Fúsa froskagleypi, Tinnabækur, Sven Hassel og Morgan Kane. Einn dag kom ég heim úr skólanum og áttaði mig á því að mér leiddist og að mig vantaði eitthvert andlegt fóður. Ég byrjaði að lesa unglingavænan rithöfund, Jack Kerouac. Lesturinn vatt upp á sig og svo, rithöfundakoll af kolli, hélt ég áfram að lesa nýja og nýja höfunda. Árni Bergmann talaði um það í bók um sína lestrarreynslu að honum hefði aldrei leiðst eftir að hann byrjaði að lesa. Ég er sammála.
Að mínu mati er ég ákveðinn bókarúnkari, maður sem snobbar fyrir bókum og þeim sem skrifa bækur, og eins maður sem lítur efasemdaraugum á þá sem gera það ekki. Í mínum huga, út af því hvernig ég lít á bækur, er orðið bókarúnkari ekki neikvætt heldur frekar jákvætt orð, þó í því felist vissulega að ég upphef bækur. Ég held að þess konar bókarúnk sé nokkuð algengt víða, meðal annars á Íslandi.
Ég nefni þessi atriði hér út af dálítið hysterískri nýlegri umræðu um hrun á sölu bóka á Íslandi. Sú umræða er að hluta til drifin áfram á bókarúnki eins og ég lýsi hér. Þegar ég sá bóksölutölurnar síðustu árin og heyrði allan barlóminn var mín fyrsta hugsun, sem sannarlega er byggð á snobbi og fordómum: Eru Íslendingar að verða forheimskir?
Auðvitað er ekkert óeðlilegt að sala á bókum dragist saman á Íslandi þegar til eru fleiri uppsprettur þekkingar og afþreyingar í samfélaginu en árið 1965, 1975, 1985, 1995 og kynslóðir eru að vaxa úr grasi sem eru með tölvu- og internetnotkun í blóðinu. Aðgangur að öðru les- og afþreyingarefni en bókum hefur stökkbreyst. Líkurnar á því að 17 ára íslenskur unglingur taki sig til og kaupi og lesi ritsafn Gunnars Gunnarssonar eru minni en fyrir 30 árum.
Og hvað með það? Manninum hættir oft til að dæma nútímann allt of mikið út frá fortíðinni; kynslóðirnar á eftir okkur eiga að vera alveg eins og við af því okkur finnst við vera góð og vel heppnuð. Ég er með fordóma gagnvart þeim sem lesa ekki bækur af því ég er alinn upp við þá hugsun að maður eigi að lesa bækur, næstum því eins og fólk á að tannbursta sig á hverju kvöldi.
En veruleikinn var annar þá – ekki þarf að fara lengra aftur en til míns barndóms – því tími tölvunnar sem almenningseignar var rétt að byrja og bækur og blöð voru ennþá nær allsráðandi sem upplýsingamiðlar. Fyrir 40 árum voru bækur brúin á milli þess að vera óupplýstur og upplýstur því þær voru eina nær eina tækið til að afla sér þekkingar. Þetta er ekki svona lengur, samanber upplýsti félagi minn sem les aldrei bækur.
Ísland glímir líka við það að vera lítið málsvæði þannig að oft þarf fólk að kaupa bækurnar sem það les erlendis frá. Ég hef keypt miklu fleiri bækur á ensku á Amazon síðastliðin fimmtán ár en í íslenskum bókabúðum, kannski tíu bækur á Amazon fyrir hverja eina í íslenskum bókabúðum. Sama á örugglega við um fjölmarga neytendur á Íslandi sem kaupa mikið af bókum og sérhæfðari titla á meðan þeir sem kaupa fáar bækur gera það kannski frekar í íslenskum bókabúðum. Þessir íslensku bókakaupendur eru ekki inni í tölunum um bóksölu í landinu og þá ekki heldur í ályktunum um bóklestur. Hluti bóksölu á Íslandi hefur færst út fyrir landsteinana og fréttirnar um bóksölu á Íslandi taka ekki tillit til þess.
Um miðjan ágúst sagði bókafréttasíðan The bookseller frá því að sala á prentuðum bókum á Amazon hefði aukist um 46 prósent á fyrri helmingi ársins 2017 og sala á rafbókum um 6 prósent. Hversu mikið af þeim bókum hafa verið keyptar á Íslandi? Ekki margar hlutfallslega auðvitað en örugglega þó það margar að ekki er hægt að álykta margt um bókakaup og lestur Íslendinga nema að taka tillit til þess hvað Íslendingar kaupa mikið af bókum á netinu.
Hins vegar segja þessar fréttir þá sögu að tekjur bókabúða og bókaútgefenda á Íslandi fari minnkandi sem mun hafa slæm áhrif á möguleika þeirra til að gefa út bækur á íslensku. Að þessu leyti er staða bókaútgefenda og bókabúða sambærileg við stöðu fjölmiðlafyrirtækja á Íslandi sem flest hver berjast í bökkum fjárhagslega eða eru niðurgreidd af stórfyrirtækjum. Tilkoma internetsins hefur haft skelfileg áhrif á stöðu og möguleika íslenskra prentmiðla til að búa sér til traustan rekstrargrundvöll með áskriftum og auglýsingum.
Hvað er hægt að gera í stöðu bókaforlaga og prentmiðla á Íslandi? Ein leið er kannski að fylgja fordæmi Norðurlandaþjóða eins og Svía sem veita sumum prentmiðlum sem ganga illa fjárhagslega, til að mynda Svenska Dagbladet, fjárhagsstuðning sem kallast „presstöd“. Sérhæfð tímarit um bókmenntir og önnur efni geta líka fengið þessa styrki. Kannski þarf örsamfélagið Ísland að taka upp slíka styrki fyrir prentmiðla og bókaforlög svo haldið verði áfram að gefa út texta á íslensku, sem flestir hljóta að vera sammála um að hafi menningar- og upplýsingagildi.
En internetið hefur nær örugglega líka haft þau áhrif að aldrei áður hafa jafn margir lesið eitthvað á hverjum degi vegna þess að netið hefur aukið aðgang allra nettengdra að textum og rituðu máli. Sú upplýsingabylting er miklu merkilegri og mikilvægari en rekstrarerfiðleikar og tekjutap bókaforlaga og dagblaða út af minnkandi sölu á prentuðum, skrifuðum hugverkum og nýrri tækni. Bókaforlög, rétt eins og dagblöð, þurfa að aðlaga sig að þessum breytta veruleika til að halda rekstrinum gangandi.
„Aðalatriðið er ekki endilega að lesa prentaðar bækur heldur að lesa eitthvað“
Aðalatriðið er ekki endilega að lesa prentaðar bækur heldur að lesa eitthvað, sama hvað það er og hvar, prentað efni eða rafrænt, og afla sér upplýsinga og þekkingar. Ef litið er á stöðuna með þessum hætti er hún björt: Aldrei hafa jafn margir á Íslandi lesið jafn mikið af texta samtals og einmitt núna. Kannski er það þetta sem margir eldri en 30 ára eiga erfitt með að ná utan um og af þessu stafa fordómarnir hjá mér því það er ansi lífseigt í mörgum að lestur prentaðra bóka sé nauðsynlegt skilyrði fyrir því að fólk sé upplýst.
Heimurinn, og „unga kynslóðin“, er ekki að fara til fjandans þótt færri bækur seljist á Íslandi en áður og að gefið sé í skyn að færri bækur séu lesnar án þess þó að tekið sé tillit til sölu erlendra netbókaverslana til Íslands. En heimurinn hefur hins vegar breyst. Prentaða bókin er á undanhaldi, alveg eins og prentaða blaðið. En bókin er sem betur fer bara ein af fjölmörgum miðlunarformum þekkingar og menningar. Á sama tíma og þessi staða er staðreynd á samfélagið í heild auðvitað að reyna að ýta undir lestur bóka eftir fremsta megni, rétt eins og notkun á öðrum þekkingartækjum sem hafa menntunargildi.
Athugasemdir