Háttsettir evrópskir diplómatar héldu í dag krísufund vegna hótana Donalds Trump Bandaríkjaforseta um að beita refsitollum gegn Evrópuríkjum sem fallast ekki á yfirtöku hans á Grænlandi og innlimun landsins í Bandaríkin.
Þá hefur António Costa, forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins, boðað viðræðufund um Grænlands á næstu dögum.
Leiðtogar Evrópu gagnrýndu í dag opinberlega hótanir hans og vöruðu við því að samskipti yfir Atlantshafið væru í hættu.
Nokkur Evrópulönd – þar á meðal Danmörk, en Grænland er sjálfstjórnarsvæði innan danska konungsríkisins – sögðust „standa saman“ gegn hótun Trumps í gær um að leggja á þau allt að 25 prósenta tolla nema Grænland yrði afhent Bandaríkjunum.
„Hótanir um tolla grafa undan samskiptum yfir Atlantshafið og hætta er á niðurspíral,“ vöruðu Bretland, Danmörk, Finnland, Frakkland, Holland, Noregur, Svíþjóð og Þýskaland við í sameiginlegri yfirlýsingu.
Lars Løkke Rasmussen, utanríkisráðherra Danmerkur, sagði í Noregi að úrslitakostir Trumps ógnuðu heimsskipan „eins og við þekkjum hana“ og framtíð hernaðarbandalagsins NATO.
Mark Rutte, framkvæmdastjóri NATO, sagði í dag að hann hefði rætt við Trump um „öryggisástandið á Grænlandi og norðurslóðum“ og sagðist „hlakka til að til að hitta hann“ á Davos-ráðstefnunni í þessari viku. Hann tjáði sig ekki nánar um samtal þeirra.
Sendiherrar funda í Brussel
Sendiherrar ESB hittust í Brussel á sunnudag eftir að Evrópusambandið boðaði til auka-allsherjarfundar í kjölfar yfirlýsingar Trumps.
Sambandið gerði samning við Bandaríkin í júlí um að flestar útflutningsvörur ESB myndu sæta 15 prósenta bandarískum tolli. Óljóst var hvernig tollar Trumps myndu virka út frá þeim samningi.
„Ég tel að þessi samningur sé ekki mögulegur við núverandi aðstæður,“ sagði Johann Wadephul, utanríkisráðherra Þýskalands, við ARD-sjónvarpsstöðina.
Aðstoðarmenn Emmanuels Macron Frakklandsforseta sögðu að hann myndi biðja ESB um að virkja „þvingunartæki“ gegn Bandaríkjunum, sem aldrei hefur verið notað áður, ef Trump stendur við viðbótartolla sína.
Þessi aðgerð gerir kleift að takmarka innflutning á vörum og þjónustu til ESB, markaðar 27 landa með samanlagðan íbúafjölda upp á 450 milljónir.
Trump hefur ítrekað lýst yfir löngun sinni til að ná yfirráðum yfir Grænlandi síðan hann sneri aftur í Hvíta húsið fyrir annað kjörtímabil.
Orðræða hans í þá átt hefur harðnað síðan hann fyrirskipaði hernaðaraðgerð gegn Venesúela í byrjun þessa mánaðar til að handsama leiðtoga þess, Nicolas Maduro. Hann hefur síðar sagt „óásættanlegt“ að Bandaríkin fái ekki Grænland.
„Fjárkúgun“
Trump og stjórn hans hafa haldið því fram að það myndi þjóna „þjóðaröryggi“ Bandaríkjanna ef Grænland kæmist undir bandaríska stjórn.
Hann og aðstoðarmenn hans hafa einnig haldið því fram að Danmörk – þótt NATO-bandalagsríki sé – gæti ekki varið Grænland ef Rússland eða Kína myndu einhvern tíma reyna að ráðast inn.
Danmörk og nokkur evrópsk NATO-bandalagsríki brugðust við með því að senda nýlega fámennan herafla til Grænlands á æfingu og í könnunarleiðangur, sem Bandaríkjunum var einnig boðið að taka þátt í.
Sást til nokkurra þýskra hermanna fara um borð í flugvél í dag til að yfirgefa Grænland eftir stutta viðveru.
Í gær mótmæltu þúsundir manna á Grænlandi og í Danmörku kröfu Bandaríkjanna.
„Make America Go Away“ stóð á derhúfum margra mótmælenda, sem var tilvísun í slagorð Trumps „Make America Great Again“.
Tollar stighækka
Trump brást við með hótun sinni um að leggja 10 prósenta tolla á vörur sem koma til Bandaríkjanna frá Bretlandi, Danmörku, Noregi, Svíþjóð, Frakklandi, Þýskalandi, Hollandi og Finnlandi frá og með 1. febrúar.
Þeir myndu hækka í 25 prósent frá 1. júní „þar til samkomulag næst um fullkomin og alger kaup á Grænlandi“, skrifaði Trump á samfélagsmiðil sinn, Truth Social.
Jafnvel Giorgia Meloni, forsætisráðherra Ítalíu og leiðtogi hægri-öfgaflokks, einn nánasti bandamaður Trumps í Evrópu, hrökk við eftir hótunina.
„Ég tel að það væru mistök að leggja á nýjar refsiaðgerðir í dag,“ sagði hún við blaðamenn í ferð til Seúl.
„Ég ræddi við Donald Trump fyrir nokkrum klukkustundum og sagði honum hvað mér finnst,“ bætti hún við.
Keir Starmer, forsætisráðherra Bretlands, kallaði þetta „algjörlega rangt“ og sagðist ætla að ræða ástandið við Trump „við fyrsta tækifæri“.
David van Weel, utanríkisráðherra Hollands, fordæmdi hótun Trumps sem „óútskýranlega“ tegund af „fjárkúgun“.
Ótti við viðskiptastríð
Annie Genevard, landbúnaðarráðherra Frakklands, varaði við því að tollar myndu einnig skaða Bandaríkin.
„Í þessari stigmögnun tolla hefur (Trump) miklu að tapa líka, eins og hans eigin bændur og iðnrekendur,“ sagði hún við útvarpsstöðvarnar Europe 1 og CNews.
Noregur, sem einnig var skotmark tollahótana Trumps en er ekki aðili að ESB, líkt og Bretland, sagði að norsk yfirvöld væru ekki að íhuga hefndaraðgerðir gegn bandarískum vörum að svo stöddu.
„Ég held að maður þurfi að stoppa og hugsa sig um svo hægt sé að koma í veg fyrir viðskiptastríð sem myndi leiða til niðurspírals,“ sagði Jonas Gahr Støre, forsætisráðherra Noregs, við NRK-sjónvarpið. „Enginn myndi vinna.“."
Heimsókn Lars Løkke Rasmussen, utanríkisráðherra Danmerkur, til Noregs í gær var einn áfanginn í ferðalagi sem mun einnig ná til Bretlands og Svíþjóðar, til að ræða öryggisstefnu bandalagsins á norðurslóðum.
Bandarískir þingmenn andmæla
Þingmenn beggja flokka í Bandaríkjunum hafa gagnrýnt aðfarir og aðferðir Trumps um helgina. Mike Turner, þingmaður Repúblikanaflokksins frá Ohio, sagði í þættinum „Face the Nation“ á CBS að Trump hefði ekki heimild til að beita hervaldi til að leggja undir sig Grænland. Turner, sem er formaður sendinefndar Bandaríkjanna á þingi NATO, sagði að hótunanir hans um að ráðast á landið hefði „valdið spennu innan bandalagsins“.
Turner var einnig efins um vald Trumps til að beita tollum sem vogarafli í tilraun til að kaupa landsvæðið.
Hæstiréttur Bandaríkjanna mun senn úrskurða um lögmæti beitingar Trumps á tollum. Turner sagði að jafnvel þótt Hæstiréttur úrskurðaði að Trump hefði heimild samkvæmt neyðarlögum til að leggja þá á, væru samt takmörk fyrir því. „Jafnvel þótt hann yrði talinn hafa tollheimild, þá tel ég ekki að hann hafi vald til að leggja á tolla í þeim tilgangi að þvinga aðrar þjóðir til að selja Bandaríkjunum land svo við getum stækkað við okkur,“ sagði Turner.
Mark Warner, öldungadeildarþingmaður frá Virginíu og æðsti Demókrati í leyniþjónustunefnd öldungadeildarinnar, sagði sömuleiðis í þættinum „Face the Nation“ að engin virk ógn stafaði nú af Rússlandi eða Kína gagnvart Grænlandi. „Eina öryggisógnin sem steðjar að Grænlandi um þessar mundir eru Bandaríkin,“ sagði hann.

Á móti sagði fjármálaráðherra Bandaríkjanna, Scott Bessent, í sama þætti, í endursögn New York Times, að Kína og Rússland myndu ekki ráðast á Grænland, ef Bandaríkin ættu það, og horfði þar með fram hjá tilgangi NATO, sem er bandalag sjálfstæðra ríkja með skuldbindingu um sameiginlegar varnir. „Það verða engin átök, því Bandaríkin, einmitt núna, erum við heitasta land í heimi,“ sagði Bessent. „Evrópubúar sýna veikleika.“
Öldungadeildarþingmaðurinn John Cornyn, repúblikani frá Texas, hrósaði síðan í þættinum „Fox News Sunday“ Trump sem samningamanni. Hann væri „fullkominn“ sem slíkur og skilgreindi Grænland sem „strategískt mikilvæga fasteign.“





















































Athugasemdir