Formaður landsstjórnar Grænlands kallaði í kvöld eftir endurnýjuðum viðræðum við Bandaríkin eftir að Donald Trump forseti ítrekaði að hann vildi yfirtaka landið, undir því yfirskini að það sé nauðsynlegt í þágu öryggis, þrátt fyrir samningsbundna viðveru bandarísks herliðs í landinu.
„Ástandið er ekki þannig að Bandaríkin geti hertekið Grænland. Svo er ekki. Því megum við ekki örvænta. Við verðum að endurheimta það góða samstarf sem við áttum einu sinni,“ sagði Jens-Frederik Nielsen á blaðamannafundi í Nuuk og bætti við: „Við verðum að reyna að koma á sambandi aftur.“
„Í nokkur kjörtímabil og í mörg ár höfum við átt í samstarfi við Bandaríkin og Naalakkersuisut [grænlenska landstjórnin] hefur unnið að því að auka og þróa samstarfið og Grænland hefur alltaf verið viljugt til að taka þátt í samstarfinu,“ segir Jens-Frederik Nielsen úr ræðustól.
„Notum réttu leiðirnar til að tala saman,“ segir Jens-Frederik Nielsen, sem vill að NATO-samstarfið verði styrkt og þróað.
„Nú er ekki tími fyrir sundrungu, fyrir áhyggjur og kvíða, og þess vegna tekur Naalakkersuisut [grænlenska landstjórnin] þetta alvarlega,“ segir Jens-Frederik Nielsen.
Hann talar einnig um að endurheimta gott samband við Bandaríkin. Hann óskar eftir samskiptum við Bandaríkin í góðri samræðu, því hann trúi því að samstarfið á Norður-Atlantshafi geti orðið betra en það er nú, ef hægt er að endurvekja samræður sem ekki fara aðeins fram í gegnum fjölmiðla.
Jens-Frederik Nielsen nefnir Trump varla á nafn og hafnar því að hægt sé að draga upp hliðstæða mynd milli þess sem gerðist í Venesúela og svo á Grænlandi.
„Við höfum alltaf sagt að við séum opin fyrir viðskiptum,“ bætti hann við og kvaðst vilja fá beina línu aftur – væntanlega til stjórnvalda í Bandaríkjunum.
Nielsen hafnar því að það þjóni nokkrum tilgangi að tala um hugsanlegar hernaðaríhlutanir á Grænlandi, því landið sé ekki í aðstæðum þar sem „kannski gæti orðið yfirtaka á landinu á einni nóttu“, og þess vegna vill hann frekar snúa aftur til góðs samstarfs milli Bandaríkjanna og Grænlands „frá fyrri tíð“.
Í gær var tónninn harðari. „Nú er nóg komið,“ sagði Nielsen þá á Facebook. „Enginn meiri þrýstingur. Engar fleiri aðdróttanir. Engir fleiri innlimunardraumar. Við erum opin fyrir viðræðum. Við erum opin fyrir umræðum. En það verður að gerast eftir réttum leiðum og með virðingu fyrir alþjóðalögum.“



















































Athugasemdir