Rússland tilkynnti um mesta samdrátt í árlegri verðbólgu það sem af er ári, samkvæmt gögnum frá hagstofu ríkisins í dag, þar sem háir vextir kæla niður stríðshagkerfið.
Aukin hernaðarútgjöld höfðu valdið þenslu í rússneska hagkerfinu í tvö ár eftir að Rússlandsher réðst inn í Úkraínu.
En þau ýttu einnig undir verðbólgu, sem nú hefur áhrif á hagvöxt, þar sem fyrirtæki kvarta undan háum lántökukostnaði sem þau segja að haldi aftur af hagkerfinu.
Samkvæmt tölum sem hagstofan Rosstat birti lækkaði árleg verðbólga í nóvember í 6,6 prósent samanborið við 7,7 prósent mánuðinn á undan.
Í síðasta mánuði sagði Rosstat að hagvöxtur landsins hefði verið nálægt núlli á þriðja ársfjórðungi, á meðan seðlabankinn bjóst við að halda vöxtum hærri lengur vegna þrálátrar verðbólgu.
Seðlabankinn gerir ráð fyrir að árleg verðbólga muni ekki ná fjögurra prósenta markmiði sínu fyrr en árið 2027.
Til að fylla upp í göt í þvinguðum ríkisfjármálum Rússlands eru stjórnvöld í Kreml að leita leiða til að seilast í vasa borgara og fyrirtækja til að brúa fjárlagagat sem nemur um 50 milljörðum dala, sem jafngildir um 6,4 billjónum króna, eða um 6.400 milljörðum króna, það sem af er ári.
Vladimír Pútín forseti samþykkti nýlega að hækka virðisaukaskatt (VSK) í 22 prósent úr 20 prósentum á næsta ári, en sami skattur er 24% á Íslandi.
Lægra olíuverð var einnig áskorun fyrir fjárlögin, en jarðefnaeldsneyti skilar tæplega fimmtungi af tekjum ríkisins.
















































Athugasemdir